3. flokkur og Ísfold tilnefnd til verðlauna hjá KA

Hópur leikmanna úr 3. flokki stuttu eftir að stelpurnar komu hlaðnar verðlaunum heim af Barcelona Gi…
Hópur leikmanna úr 3. flokki stuttu eftir að stelpurnar komu hlaðnar verðlaunum heim af Barcelona Girls Cup. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er ein af þeim sem tilnefnd eru sem handhafi Böggubikarsins og lið 3. flokks Þórs/KA í knattspyrnu eitt þeirra liða sem koma til greina sem lið ársins hjá K.A.

Val á liði ársinis hjá K.A. verður tilkynnt á 95 ára afmælisfagnaði félagsins. Eitt þeirra liða sem tilnefnd eru er lið 3. flokks Þórs/KA í knattspyrnu, en eins og komið hefur fram í fréttum hér á síðunni og í væntanlegu rafrænu riti undir heitinu Kvennaboltinn – Við erum Þór/KA áttu stelpurnar í 3. flokki einstaklega gott ár og voru sannast sagna bikaróðar. Ekki ólíklegt að þær bæti þessum bikar í safnið.

Þá er Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, leikmaður meistaraflokks Þórs/KA, ein af sex ungum einstaklingum sem tilnefnd eru og koma til greina sem handhafar Böggubikarsins. Sá bikar er veittur einstaklingi sem þykir efnilegur í sinni grein og ekki síður sterkur félagslega.

Ísfold, sem varð 18 ára á árinu, á nú þegar að baki 52 meistaraflokksleiki, þar af 34 í efstu deild, auk sex leikja með U-landsliðum Íslands og 17 leikja í vetraræfingamótum.


Ísfold Marý Sigtryggsdóttir að vinna skallaeinvígi í bikarleik gegn Haukum í sumar. Mynd: Þórir Tryggva