A-landsliðið: Sandra María og María Gros í hóp fyrir umspilsleiki

Sandra María Jessen og María Catharina Ólafsdóttir Gros eru báðar í landsliðshópi Íslands fyrir umspilsleiki í Þjóðadeild UEFA gegn Norður-Írlandi sem fram fara síðar í mánuðinum.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna, hefur valið leikmannahóp fyrir tvo umspilsleiki fyrir Þjóðadeildina gegn Norður-Írlandi sem fram fara í í lok október. Sandra María Jessen er á sínum stað í hópnum og þarf ekki að koma knattspyrnuáhugafólki á óvart eftir frammistöðu hennar með landsliðinu í sumar og nú síðast með 1. FC Köln í þýsku Bundesligunni. María Catharina Ólafsdóttir Gros, sem kemur úr röðum Þórs/KA og hefur einnig spilað í Skotlandi, Hollandi og núna í Svíþjóð, er nýliði í A-landsliðshópnum.

Sandra María Jessen á að baki 57 landsleiki og sjö mörk, en María Cahtarina hefur ekki spilað A-landsleik. Sandra María var á meðal bestu leikmanna íslenska liðsins á EM í sumar og hefur nú í haust farið á flug með nýja félaginu, 1 FC Köln í þýsku Bundesligunni, þar sem hún hefur verið frá því í lok ágúst. Hún hefur nú þegar skorað fimm mörk í sex leikjum, og að auki mark í leik sem ekki var kláraður og verður spilaður að nýju frá byrjun núna á fimmtudaginn. 

María Catharina Ólafsdóttir Gros er fædd 2003 og spilaði 66 meistaraflokksleiki fyrir Þór/KA og Hamrana, þar af 46 fyrir Þór/KA í efstu deild. Hún á að baki fjölda landsleikja með yngri landsliðum Íslands, samtals 37 leiki með U16, U17, U19 og U23 landsliðunum. María hélt utan til Skotlands sumarið 2021 þar sem hún var í tæpt ár á samningi hjá Celtic. Hún kom aftur heim í Þór/KA um mitt sumar 2022, en samdi svo við hollenska liðið Fortuna Sittard í lok janúar 2023. Þar var hún í eitt og hálft tímabil, en flutti sig síðan yfir til Svíþjóðar og hefur spilað með Linköping í sænsku úrvalsdeildinni, OBOS Damallsvenskan, og er sem stendur markahæst í liði Linköping.

Þá má einnig nefna að Arna Eiríksdóttir, sem spilaði fyrir Þór/KA á láni frá Val sumarið 2022, er einnig í landsliðshópnum. Hún hefur spilað fyrir FH undanfarin ár, eða þar til hún hélt utan til Svíþjóðar í atvinnumennsku um mitt sumar.

Fyrri leikur Íslands og Norður-Írlands verður í Ballymena, rúmlega 30 þúsund íbúa bæ norðaustur af Belfast, föstudaginn 24. október og hefst kl. 18 að íslenskum tíma. Seinni leikurinn verður svo á Laugardalsvelli þriðjudaginn 28. október kl. 18.