Á trúnó frá Tene - dagbók búningastjórans, 1. hluti

Dagbók búningastjórans. Dagur 1 og 2. Mynd: Hann sjálfur.
Dagbók búningastjórans. Dagur 1 og 2. Mynd: Hann sjálfur.

 

Eins og fram hefur komið eru 27 Þór/KA-stelpur ásamt fylgdarliði staddar við æfingar á Tenerife í viku. Fréttaritari hópsins settist við lyklaborðið í smá stund og blaðraði um ferðalagið og fyrstu dagana. Við hendum því hér í loftið ásamt myndum.

Að fara í æfingaferð með íþróttaliði er dálítið eins og að undirbúa flókna máltíð. Undirbúningurinn er margfalt lengri en sjálf athöfnin. Þú ert í marga klukkutíma eða janfel daga að undirbúa kjötið eða meðlætið eða bara allt sem viðkemur máltíðinni og svo þegar maturinn er tilbúinn, gjörið svo vel, þá fer hálftími eða í hæsta lagi klukkutími að gera máltíðinni skil.

Hin sívinsælu fjáröflunarverkefni standa yfir vikum eða mánuðum saman, ásamt öðrum undirbúningi fyrir ferðina og svo þegar þú stígur upp í flugvélina er bara vika þar til þú kemur aftur heim. Sennilega þykir öllu íþróttafólki fremur leiðinlegt að standa í fjáröflun fyrir æfingaferðir eða þátttöku í mótum, en þetta kostar allt saman eitthvað og ekki fyrir allar að punga út rúmum 200 þúsund krónum til að komast í slíka ferð. Það sem er þó jákvætt við fjáröflunarverkefnin er að það er allaf fjölmargt fólk og mörg fyrirtæki sem eru tilbúin að styðja. Vissulega oft og iðulega sama fólkið – foreldrar, afar og ömmur og aðrir ættingjar – en einnig hinn almenni stuðningsmaður. Þegar boðið er upp á verkefni þar sem hópurinn nýtur saman góðs af því sem selt eða gert er bætast aðrir en ættingjar og vinir í styrktarhópinn. Það er alsiða hjá meistaraflokkum sem fara í slíkar ferðir að halda happdrætti. Okkur tókst að setja saman eitt slíkt, nokkuð glæsilegt, fullt af frábærum vinningum og þar nutum við stuðnings fjölmargra fyrirtækja. Stelpurnar söfnuðu sjálfar vinningum og er á enga hallað þótt ég nefni Margréti Árnadóttur og Andreu Mist Pálsdóttur sérstaklega í því sambandi. Án kraftsins og dugnaðarins sem þær settu í þetta verkefni hefði ekkert orðið af happdrættinu.

Á ákveðnum tímapunkti er svo fjáröflunarverkefnum lokið og komið að því að hnýta lausa enda og þeir geta verið alls konar.

Þegar Guildford breyttist í Tenerife

Í upphafi ákváðum við að prófa að fara í æfingabúðir til Englands og nýtti okkar ensk/íslenski þjálfari, Perry Mclachlan, ýmis sambönd sín í heimalandinu til að byrja að setja saman pakka með því sem til þurfti. Áfangastaðurinn sem var valinn var háskólabærinn Guildford í útjaðri London. Þegar mynd var komin á verkefnið leituðum við til Ferðaskrifstofu Akureyrar um að vinna í útfærslum og alls konar atriðum, þar á meðal að taka frá sæti frá hinu nýfædda flugfélagi Nice Air, sem hafði ekki einu sinni hafið sölu á flugsætum þegar við ákváðum að nýta þjónustu félagsins. En svo þegar fram liðu stundir fóru að berast stressandi fréttir af leyfisleysi Nice Air eða einhverjum laga- og reglugerðaflækjum. Fyrst var allt flug í júní fellt niður, en við biðum róleg. Dagarnir liðu og júlí nálgaðist, lausn virtist ekki í sjónmáli og óvissan var ekki það sem við vildum treysta á. Á fundi með Kristni Þór Björnssyni, starfsmanni Ferðaskrifstofu Akureyrar, fórum við yfir möguleikana sem við höfðum.

Í grunninn voru tveir valkostir. Grundvallaratriði fyrir okkur var að þurfa ekki að fara með rútu til Keflavíkur til að fljúga þaðan, því þar hefði komið til aukinn kostnaður og tapaður tími. Ef við ætluðum að halda okkur við Guildford – sem var hugsanlegt að við myndum neyðast til að gera ef við gætum ekki hætt við hótelið án kostnaðar – þá þyrftum við að fljúga með Nice Air til Kaupmannahafnar eða Rotterdam og svo áfram til London annað hvort með lest eða flugi. Þar hefði einnig komið til aukakostnaður og þegar við fengum jákvætt svar frá hótelinu um að við gætum hætt við bókunina án kostnaðar ákváðum við að kanna hinn möguleikann. Hann var sá að fjúga á einhvern af öðrum áfangastöðum Nice Air og finna æfingasvæði þar í grennd. Kaupmannahöfn, Rotterdam… vissulega líklegt að þar væri hægt að finna góð æfingasvæði og jafnvel ágæt lið til að mæta í æfingaleik eða -leikjum. En þriðji möguleikinn var Tenerife. Það tók okkur ekki langan tíma að benda í suður og ákveða að skoða hvað þar væri í boði.

Á sama stað og Liverpool 2016-2018

Kiddi var með allar klær úti, fann fyrir okkur æfingasvæði og hótel á góðu verði á Tenerife. Æfingasvæðið hefur verið notað af fjölmörgum liðum í efstu deildum karla og kvenna margra Evrópulanda, meðal annars af Jürgen Klopp og sonum. Við vissum því að það gætum við treyst á góða aðstöðu og þjónustu. Hótelið er í aðeins 5-10 mínútna göngufjarlægð. Teningnum var kastað. Tenerife kom sterkt inn – ekki síst vegna þess að eftir mjög stranga leikjadagskrá frá 27. apríl þar sem liðið spilaði samtals 12 leiki á rétt rúmum átta vikum - ásamt því að ferðast í meirihluta þessara leikja - var virkilega orðin þörf á að fá góða hvíld í bland við hæfilegar æfingar.

Langur dagur, en samt léttur

Að fljúga beint frá Akureyri skiptir einfaldlega öllu máli. Í því sambandi verð ég bara að taka undir markaðsherferð Nice Air þar sem félagið bendir á kostnað og tíma fyrir fólk að norðan að keyra suður, kaupa sér mat á leiðinni, jafnvel gista ef þannig stendur á brottfarartíma, greiða fyrir að geta lagt bílnum og geymt hann einhvers staðar og svo framvegis. Að fljúga ekki beint frá Akureyri þýðir að þú ert að verja 1-2 dögum af sumarfríinu (eða í vinnutap) í að keyra á milli. Flugið til Tenerife tekur um sex klukkutíma. Það var í alla staði þægilegt. Brottför á réttum tíma, kl. 7:45 að morgni og lent á Tene rétt fyrir kl. 14. Brottför á réttum tíma, það eru gæði sem skipta máli fyrir ferðalanga. Náðum meira að segja góðri æfingu samdægurs, svona rétt til að hrista úr sér kyrrsetuna í flugvélinni, koma öllu í gang og vera klár fyrir vikuna.

Svefninn fyrstu nóttina var svo auðvitað góður eftir að hafa farið seint að sofa heima (á síðustu stundu að pakka og gera klárt) og vaknað eldsnemma til að mæta inn á Akureyrarflugvöll kl. 5:45. Þar gekk allt saman mjög hratt og vel fyrir sig, ekkert vesen, lítil bið. 

Morgunstund gefur gull í mund

Dagskráin er þannig sett upp að við erum með morgunæfingar fimmtudag, föstudag, mánudag, þriðjudag og miðvikudag, en eigum möguleika á að mæta aftur síðdegis. Miðað við hitastig og annað er þó ólíklegt að síðdegistímarnir verði nýttir, nema þá kannski undir eina aukaæfingu fyrir markverði. Það var því ræs snemma í morgun, mættar í morgunverð kl. 8 og svo gönguferð út á æfingasvæðið – Tenerife Top Trainin (T3) – um níuleytið.

Hannes Bjarni Hannesson sjúkraþjálfari sá um að koma öllum í gang með upphitunaræfingum. Einhvers staðar var hvíslað að þessar æfingar hafi mögulega verið skemmtilegar af því að Hannes sagði að þær væru skemmtilegar. Auðvitað bara spurning um hugarfar.

Eru töfrar í nýju skónum?

Fréttaritari ákvað að fara alla leið, fjárfesti í nýjum fótboltaskóm á útsölu hjá Sport 24 á Akureyri daginn fyrir brottför og fékk svo óvænt að vera með í Brassa þegar annar þjálfaranna (Jónsi) hafði byrjað með einu liðinu og skorti þrek til að klára – og það þrátt fyrir að hann hafi tekið sér stöðu sem gamaldags „sweeper“ á velli sem var á stærð við körfuboltavöll. Fréttaritarinn vann sér það þó helst til frægðar að setja vestið öfugt á sig og gleyma að fara út af þegar hans lið átti að hvíla.

Á barinn að horfa á stelpurnar okkar

Að æfingu fimmtudagsins lokinni var tíminn notaður til að slaka á við sundlaugarbakkann eða fara á ströndina og síðdegis tók svo auðvitað við heimsókn á íslenska barinn, Nostalgíu, til að horfa á landsleikinn. Úrslitin þar því miður vonbrigði, en enn getur ýmislegt gerst. Hlaðborðið á heimahótelinu freistaði ekki eftir landsleikinn og ungviðið hélt því í Sia Mall til að versla og borða. Gamlingjarnir brunuðu heim á hótel og fengu sér Paella con Pollo eða eitthvað þannig.

Fram undan er góður svefn og hvíld fyrir æfingu morgundagsins. Stelpurnar lögðu þraut fyrir þjálfarateymið fyrsta daginn, „burpees without hands“, en fréttaritari var upptekinn við að ná í bílaleigubíl og „missti“ því af þessari áskorun. Af myndböndum sem tekin voru upp af þessari áskorun má ætla að starfsfólkið á æfingasvæðinu hafi verið komið með símann í hendurnar til að hringja í neyðarlínuna því það var engu líkara en mennirnir væru í dauðateygunum.

Á morgun er ný áskorun og heyrðust kvíðaraddir úr þjálfarateyminu um að þeir yrðu látnir gera eitthvað með „veikari“ fætinum. En það eru bara sumir sem þjást af „veikari“ fæti því aðrir eru bara jafnvígir. Nefnum engin nöfn.

Síðasta myndin hér að neðan er birt til að sýna fram á hve sjálfsmyndir geta verið hættulegar. Þessi féll að vísu ekki fram af björgum heldur rak hann afturendann í stjórnborðið, valdi þrjár hæðir og hringdi neyðarbjöllunni. Enginn kom.

 


Mættar á Akureyrarflugvöll kl. 4:45 á miðvikudegi.


Það fór bara ágætlega um okkur um borð.


Sólarlagið. Aldrei of oft horft á það, en kannski stundum of mikið um myndbirtingar. Það er betra í eigin persónu.


Hrista-úr-sér-flugferðarkyrrsetuna-æfingin fjórum tímum eftir komuna til Tene.


Dagur tvö hafinn.



Mættar á íslenska barinn að horfa á Ísland gegn Ítalíu.


Svalar á svölunum.


Sólarlagið. Of mikið?


Sjálfan sem sendi lyftuna á þrjár hæðir og hringdi neyðarbjöllunni.