Á trúnó frá Tene - dagbók búningastjórans, 2. hluti

Tenerife Top Training - T3.
Tenerife Top Training - T3.

 

Að mörgu að hyggja á stóru heimili og dálítill tími sem fer í að skrifa og taka saman myndir þannig að ferðabókarbrot búningastjórans berast ekki endilega á hverjum degi.

Í framhaldi af dagbókarfærslu í fyrsta hluta „Á trúnó frá Tene“ vill ritari taka fram að sú umfjöllun var ekki kostuð af Nice Air eða Ferðaskrifstofu Akureyrar. Bara einlæg lýsing á undirbúningi og aðdraganda ferðalagsins og svo fyrstu dögunum. Í framhaldi af vangaveltum og þökkum vegna fjáröflunarverkefna hjá stelpunum er auðvitað ágætt að minna á það að félagið sem slíkt ber nokkurn kostnað við svona ferð, svo sem vegna þjálfara. Sú vísa að íþróttafélög þurfi ávallt á öflugum stuðningi að halda – hvort tveggja frá einstaklingum og fyrirtækjum – verður víst aldrei of oft kveðin. Stuðningur (styrkir) frá fyrirtækjum ættu raunar alltaf frekar að heita samstarf. Báðir aðilar njóta góðs af samstarfinu þótt beinir fjármunir renni aðeins í aðra áttina. Nú er ég ekki eingöngu að tala um æfingaferðina og kostnaðinn sem félagið ber vegna hennar því það er alvöru dæmi að reka íþróttafélag, kosta búnað, fatnað, ferðalög, laun og fleira í kringum slíka starfsemi. Ég vil því hvetja fyrirtæki til að hafa okkur (eins og önnur íþróttafélög) í huga þegar leitað er samstarfs um samfélagsverkefni.

Á eigin kostnað

Til að fyrirbyggja misskilning finnst mér þó rétt að taka fram að sá sem þetta ritar ber sjálfur allan kostnað af eigin þátttöku í þessari ferð. Það var mín eigin ákvörðun til að styðja félagið. Allur ágóði af fiskibollusölu, dósahirðingu, humar- og rækjusölu og happdrættinu sem fór í gegnum undirritaðan dreifðist á leikmennina og lækkaði kostnaðinn hjá þeim, en mín ferð (flug, rútuferðir, hótel, matur, bílaleigubíll og minn hlutur í kostnaði við æfingaaðstöðuna) kom úr eigin vasa. Ég er ekki að segja þetta til að stæra mig af því heldur bara til að upplýsa því mögulega er ekki öllum vel við að ég hafi eitthvað með þetta félag að gera.

Hörkuæfing, Hard Rock og tvöfalt afmæli

Föstudagur. Iðunn Rán og Sara Mjöll eiga afmæli. Þær eru árinu eldri en í fyrra. Ég söng ekki fyrir þær afmælissönginn því það væri nánast glæpur ef þær þyrftu að hlusta á mig syngja.

Æfingin var góð eins og daginn áður, kraftur og gleði í hópnum og tekið vel á því í um tvo tíma – með vatnspásum, að sjálfsögðu. Ekki annað hægt þegar hitastigið nálgast 30 gráðurnar. Var ég búinn að segja að æfingaaðstaðan er frábær, starfsfólkið stimamjúkt og liðlegt og allt eins og það á að vera?

Æfing föstudagsins endaði ekki vel hjá öllum því stelpurnar fengu að setja upp áskorun fyrir staffið. Sláarskotsáskorun á tíma. Sá sem þetta ritar á ekki að baki nein afrek á knattspyrnusviðinu og það urðu ekki til nein ný afrek í þessari áskorun. Þegar tíminn rann út kom í ljós að Jónsi hafði oftast hitt í slána og sigurlaunin voru að fá að „rassa“ okkur hina, eins og það er kallað. Því miður eru til myndbandsupptökur af þessu og líklegt að þær muni koma upp á yfirborðið síðar.

Góður hluti af hópnum tók svo ströndina með trompi síðdegis áður en allur hópurinn hittist í Hard Rock Café til að borða saman. Sara Mjöll og Iðunn Rán fengu að sjálfsögðu sérstaka meðferð hjá Hard Rock, risastórar ísskálar og stjörnljós, söng og klapp. Um 35 máltíðum og 870 evrum síðar var þrekið búið hjá flestum og haldið beint heim á hótel. Annasamur laugardagur fram undan, án þess þó að það séu æfingar á dagskrá. Gott slökunartímabil frá hádegi á föstudag þar til síðdegis á sunnudag.

Vel nýttur frídagur

Laugardagurinn var alveg frjáls og fór næstum allur hópurinn í Siam Park – vatnsrennibrautagarðinn – og voru þar lungann úr deginum, síðan á ströndina og/eða niður í bæ að borða. Voru reyndar misheppnar með þjónustu eftir því sem sögur herma. Sumar þurftu að bíða lengi eftir matnum, ein gleymdist og umkvartanir höfðu ekki mikið að segja. Ég, Hannes og Jónsi höfðum ákveðið að finna okkur gott steikhús og gera vel við okkur. Gerð var tilraun til að bóka borð á stað sem heitir Char og er í innan við fimm mínútna göngufjarlægð frá hótelinu okkar. Því miður, ekki hægt að bóka borð. En við vorum bjartsýnir og fórum samt. Fengum borð um kl. 19:45 með því skilyrði að við yrðum búnir fyrir kl. 21. Það var lítið mál. Íslendingar eru nú yfirleitt ekkert að dunda sér við að borða matinn sinn. Við áttum sannarlega ekki eftir að sjá eftir því að fara á þennan stað – fréttum reyndar á leiðinni að þetta væri uppáhaldsstaður afa Unnar og það styrkti bara ásetninginn að fara og prófa. Þjónustan var frábær, maturinn himneskur og allt í toppstandi. Mæli með Char. Þegar þú vaknar morguninn eftir að hafa farið út að borða og fyrsta sem þú hugsar er maturinn sem þú borðaðir kvöldið áður… þá er einhver að gera eitthvað rétt.

Sunnudagsmorguninn hófst eins og áætlunin var hjá mér að allir morgnar í ferðinni myndu hefjast, með smá gönguferð og skokki. Skammarlega stutt samt. Þegar þetta er skrifað eru flestar bara í afslöppun á sundlaugarbakkanum, í gönguferðum eða öðru slíku. Létt æfing síðdegis og svo tvær alvöru æfingar á mánudag og þriðjudag.

Sólin skín ekki á sjálfa sig

Það er alvöru hamingja fólgin í því að fá að vera með þessum hópi og reyna að sjá til þess að ekkert fari úrskeiðis. Ég veit ekki hvort til eru tilviljanir, en mig langar til að segja að eitt af því sem ég sá á TikTok í morgun hafi ekki birst mér fyrir tilviljun. Ég veit ekki hvaðan þetta er komið, gæti verið úr einhverri austrænni speki, gæti verið bara hvaðan sem er.

Árnar drekka ekki sitt eigið vatn. Trén borða ekki eigin ávexti. Sólin skin ekki á sjálfa sig. Blómin dreifa ekki ilmi sínum fyrir sig sjálf. Að lifa fyrir önnur er náttúrulögmál. Við erum öll fædd til að hjálpast að. Alveg sama hve erfitt það er. Lífið er gott þegar þú ert hamingjusöm, en mun betra þegar önnur eru hamingjusöm vegna þín.

Þið segið kannski á móti að við eigum að hugsa um sjálf okkur því annars hugsi enginn um okkur. Það kann að vera rétt, en væri það ekki bara leyst með því að fleiri myndu hugsa eins og sólin - ekki skína á sjálfa sig?


Amalía Árnadóttir og Arna Eiríksdóttir að kljást á föstudagsæinfunni. Með fyrsta pistlinum birtist slatti af myndum, en hér er bara ein mynd og allar hinar komnar í albúm hér á vefnum. Smellið á myndina til að opna albúmið.