Karfan er tóm.
Stjórn Þórs/KA hefur komist að samkomulagi við Húsvíkinginn Aðalstein Jóhann Friðriksson um að taka við starfi aðalþjálfara meistaraflokks félagsins og feta þannig í fótspor annars Húsvíkings og nafna, Jóhanns Kristins Gunnarssonar, sem hefur látið af störfum eins og fram hefur komið í fréttum.
Þegar félagið stóð frammi fyrir þeirri staðreynd að leita þyrfti að nýjum þjálfara var strax haft samband við Aðalstein Jóhann og gengu viðræður við hann hratt og vel fyrir sig. Hann sýndi starfinu strax mikinn áhuga en tók sér nokkurra daga umhugsunarfrest. Eftir að hann ákvað að þiggja starfið gengu samningar fljótt og vel fyrir sig. Samningur Þórs/KA og Aðalsteins Jóhanns er til þriggja ára.
Aðalsteinn Jóhann kveðst gríðarlega spenntur fyrir því að takast á við nýja áskorun og hlakkar til að hitta stelpurnar. „Ég tel mig vera að taka við góðu búi af forvera mínum og hlakka mikið til að byrja að vinna með liðinu. Það verða alltaf einhverjar breytingar milli ára og eins þegar nýr þjálfari tekur við skútunni. En ég hef miklar væntingar til þess að þetta verði bæði skemmtilegt og gjöfult nýtt samband,“ segir hann, spurður um nýja starfið og leikmannahópinn sem hann tekur við.
En hvað varð til þess að hann ákvað að taka stökkið, yfirgefa uppeldisfélagið og takast á við þetta verkefni? „Mér hefur hefur alltaf fundist heillandi ára yfir Þór/KA. Stelpurnar eru metnaðarfullar og hafa búið til gott æfingaumhverfi sem verður gaman að stíga inn í og spennandi að vera þátttakandi í því starfi.“
Þeir Aðalsteinn Jóhann og Jóhann Kristinn eru ekki aðeins sveitungar heldur þekkjast þeir einnig mjög vel og má segja að Jóhann Kristinn hafi alið Aðalstein Jóhann upp, að einhverju leyti að minnsta kosti, bæði sem leikmann og sem þjálfara. Þá hefur Aðalsteinn Jóhann átt gott samstarf við Þór/KA sem þjálfari kvennaliðs Völsungs undanfarin ár þar sem félögin hafa verið í samstarfi ásamt fleirum um U20 lið sem og með lánssamningum leikmanna frá Þór/KA til Völsungs. Hann er því vel kunnugur starfinu og leikmönnum hjá Þór/KA og leikmenn úr okkar röðum þekkja vel til hans.
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, nýr þjálfari Þórs/KA, og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, handsala samning um ráðninguna.
Aðalsteinn Jóhann er 34 ára gamall og hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið Völsungs undanfarin ár, kvennaliðið í sex ár og karlaliðið í þrjú, með eftirtektarverðum árangri. Meðal annars kom hann karlaliði Völsungs upp í næstefstu deild, Lengjudeildina, og tryggði sæti liðsins þar með öruggum hætti á nýafstaðinni leiktíð.
Hann á jafnframt að baki langan feril og hefur unnið farsælt starf sem þjálfari í yngri flokkum Völsungs. Þá er hann einnig næstleikjahæstur í sögu Völsungs, en hann var leikmaður félagsins frá 17 ára aldri, 2008-2022.
Þór/KA fagnar komu Aðalsteins Jóhanns til félagsins, býður hann velkominn til starfa á Akureyri og væntir mikils af þessum unga en reynda þjálfara.