Agnes Birta Stefánsdóttir endurnýjar samning við Þór/KA

Agnes Birta Stefánsdóttir (1997) hefur undirritað nýjan samning við Þór/KA.

Agnes Birta á að baki 80 KSÍ-leiki í meistaraflokki, þar af 38 í efstu deild, ásamt leikjum í næstefstu deild með Hömrunum 2018 og Tindastóli 2020 á lánssamningum frá Þór/KA.

Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki með Þór/KA sumarið 2015, en leikjaferill hennar hér heima markaðist nokkuð af því að hún stundaði nám og spilaði knattspyrnu með háskólaliði í Bandaríkjunum 2018-2022.

Agnes Birta spilaði sem miðjumaður í yngri flokkum, en hefur undanfarið aðallega spilað í stöðu miðvarðar og bakvarðar með Þór/KA. Hún vann sér fast sæti í liði Þórs/KA í sumar og spilaði 20 leiki í Bestu deildinni, flesta þeirra í byrjunarliði, ásamt leikjum í bikarkeppni, deildabikar og æfingamóti á undirbúningstímabilinu.

Núverandi samningur Agnesar Birtu rennur út um áramótin, en hún hefur nú skrifað undir nýjan samning og framlengt veru sína hjá Þór/KA um að minnsta kosti eitt ár.

Stjórn Þórs/KA fagnar því að reynd knattspyrnukona eins og Agnes Birta sem átti sitt besta tímabil síðastliðið sumar og var ein af lykilleikmönnum félagsins í Bestu deildinni hafi ákveðið að vera áfram í okkar röðum.