Agnes Birta Stefánsdóttir undirritar nýjan samning

Agnes Birta Stefánsdóttir (1997) hefur undirritað nýjan samning við stjórn Þórs/KA og verður áfram í herbúðum félagsins næstu tvö árin hið minnsta. 

Agnes Birta hefur spilað sem miðvörður mestallan sinn feril í meistaraflokki, en hún spilaði sem miðjumaður í yngri flokkum og fyrstu árin í meistaraflokki. Hún hefur verið í byrjunarliði Þórs/KA í nær öllum leikjum undanfarin ár, klettur í vörninni og hefur stöðvað ófáar hraðar sóknir andstæðinganna með tæklingum á hárréttum augnablikum, ásamt því að bægja hættunni frá þegar andstæðingarnir gera sig líklega inni í teignum hjá Þór/KA. Grjóthörð og gefur ekkert eftir.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, fagnar því að Agnes Birta taki slaginn áfram næstu tvö árin.

„Agnes Birta er jaxl sem gefur aldrei neitt eftir. Það er mjög gott fyrir Þór/KA að hún skrifi undir nýjan samning og við njótum því krafta hennar áfram. Gefur sig alltaf alla í leiki og æfingar og verður bara betri með hverjum deginum. Hún er klárlega ein af þessum stoðum sem eru að styrkjast undir þeirri vegferð sem Þór/KA ætlar sér að feta áfram í átt að settum markmiðum,“ segir Jóhann Kristinn um Agnesi Birtu.

Sigur á Blikum og mark gegn ÍBV í uppáhaldi

Agnes Birta hefur spilað samanlagt 129 leiki í meistaraflokki, í Íslandsmóti, bikarkeppni og deildabikar, þar af eru 104 leikir fyrir Þór/KA. Auk 104 leikja fyrir Þór/KA á Agnes Birta að baki 22 leiki í næstefstu deild, en hún spilaði 12 leiki með Hömrunum í Inkasso-deildinni 2018 og tíu með Tindastóli í Lengjudeildinni 2020.

Agnes var beðin um að velja uppáhaldsleik sinn eða upplifun á ferlinum og uppáhaldsmarkið:

Uppáhaldsleikur Leikur í 4. umferð Bestu deildarinnar 15. maí 2023, 2-0 sigur á Breiðabliki í Boganum.
Uppáhaldsmark Þrumuskot fyrir utan teig í 5-1 sigri gegn ÍBV á Þórsvellinum 25. júlí 2019. Markið skoraði Agnes Birta á 60. mínútu og kom Þór/KA í 3-1, með skoti af 20-25 metra færi.

Hér má sjá mark Agnesar Birtu gegn ÍBV á Þórsvellinum 2019, ásamt reyndar öðrum mörkum liðsins þetta sumar. Agnes Birta hefur skorað þrjú mörk í efstu deild og var þetta hennar fyrsta mark í meistaraflokki. 

Leikir
Agnesar Birtu
eftir árum

 

Íslandsmót

 

Bikarkeppni

2025 14 1
2024 21 3
2023 20 1
2022    
2021 4  
2020 12 1
2019 3 1
2018 12  
2017 8 2
2016    
2015 1  
Samtals
95 9
2020 - Lánssamningur - Spilaði tvo leiki með Þór/KA í Pepsi Max-deildinni og einn í Mjólkurbikarnum, ásamt tíu leikjum fyrir Tindastól í Inkasso-deildinni.
2018 - Lánssamningur - spilaði 12 leiki fyrir Hamrana í Inkasso-deildinni. 
Agnes Birta stundaði háskólanám og spilaði fótbolta í Bandaríkjunum á árunum 2018-2022, fyrst í Georgíuríki og síðan í Ohio.
Auk leikja í Íslandsmóti og bikarkeppni á Agnes Birta að baki 25 leiki í deildabikarkeppnum.
Agnes Birta hlaut Kollubikarinn sem veittur var á lokahófi félagsins haustið 2023, en sú viðurkenning hefur verið veitt árlega frá haustinu 2016 í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur, fyrrum leikmanns og stjórnarkonu. Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir.