Andrea Mist: Heima er best!

Andrea Mist Pálsdóttir skrifar undir samning við Þór/KA.
Andrea Mist Pálsdóttir skrifar undir samning við Þór/KA.

 

Andrea Mist Pálsdóttir snýr aftur á heimaslóðir, en hún hefur skrifað undir samning við Þór/KA og mun leika með liðinu í sumar og vonandi áfram næstu árin.

Hún kemur til okkar frá sænska úrvalsdeildarliðinu Växjö og hefur skrifað undir tveggja ára samning við Þór/KA.

Hér heima á Andrea Mist að baki 154 meistaraflokksleiki og 30 mörk. Þar af eru 108 leikir í efstu deild, en hún hefur einnig verið hjá FFC Vorderland í Austurríki, Orobica Calcio á Ítalíu og Växjö í Svíþjóð.

Meistaraflokksferillinn með Þór/KA hófst sumarið 2014, þegar hún var á 16. ári. Leikirnir með Þór/KA eru orðnir 141 (25 mörk), þar af 97 í efstu deild. Þá á Andrea Mist að baki þrjá A-landsleiki og 30 landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur leikið fimm Evrópuleiki með Þór/KA.

Andrea Mist er öflugur miðjumaður, en hefur jafnframt stundum brugðið sér í fremstu víglínu. Engum blöðum er um það að fletta að Andrea Mist mun styrkja miðjuna hjá Þór/KA.

Heima er best

Í spjalli við heimasíðuritara kvaðst Andrea Mist vera ánægð að koma aftur heim.

„Heima er alltaf best og ákvörðunin um að koma aftur heim er gríðarlega góð tilfinning. Ég kem heim sem betri leikmaður og reynslunni ríkari. Að spila í Svíþjóð á hæsta „leveli“ gaf mér svo ótrúlega mikið sem manneskja og leikmaður. Stefnan var alltaf að vera að spila áfram í Svíþjóð en við féllum og þá var tilfinningin og hugsunin um að koma heim og spila með Þór/KA í sumar spennandi. Fjölskyldan og kærastinn eru búsett á Akureyri og því spilaði það líka stóran þátt í þessari ákvörðun minni,“ segir Andrea Mist.

Eins og fleiri, nefnir hún hinn unga og efnilega hóp hjá Þór/KA og segir gríðarlega spennandi að fylgjast með og að uppbyggingarstarfið sé frábært. „Ég tel að ég geti hjálpað liðinu að ná árangri og er gríðarlega spennt fyrir komandi tímabili. Ég hef mikla trú á leikmönnum og þjálfurum liðsins og tel ég að við getum komið öllum á óvart í sumar. Þór/KA er þekkt fyrir að vera baráttulið og ætlum við okkur að berjast við stærstu hákarlana. Markmiðin hjá mér eru skýr og fyrir mig tel ég þessa ákvörðun vera rétta í að verða enn sterkari, betri leikmaður og karakter.“

Austurríki, Ítalía, Svíþjóð

Fyrstu fótboltaskref Andreu Mistar með erlendum liðum var fyrstu mánuði ársins 2019 þegar hún var lánuð frá Þór/KA til austurríska félagsins Vorderland, þar sem hún spilaði við góðan orðstír fyrstu mánuði ársins 2019. Hún kom svo aftur heim og spilaði með Þór/KA sumarið 2019, en hélt svo aftur utan, næst til Ítalíu.

Óhætt er að segja að upphaf atvinnuferils Andreu Mistar hafi verið þannig að hún var óheppin bæði með stund og stað að vissu leyti. Hún samdi við ítalska liðið Orobica Calcio og hélt utan í janúar 2020. Hún hafði ekki dvalið lengi á Norður-Ítalíu þegar það svæði varð á örfáum vikum eitt það hættulegasta í heimi vegna útbreiðslu covid-19. Hún náði þó að spila þrjá leiki með liðinu, en hélt svo aftur heim rétt áður en lokað var fyrir öll ferðalög frá Ítalíu. Fjallað var um Ítalíudvölina, heimkomu Andreu og sóttkví (þegar það hugtak var enn nokkuð framandi fyrir landsmenn) í frétt á heimasíðu Þórs þann 8. mars 2020, en hún hafði þá snúið heim deginum áður.

Eftir allsherjar stopp í íþróttum hér heima á vormánuðum 2020 skrifaði hún undir samning við FH í maí og lék með liðinu í Pepsi Max-deildinni sumarið 2020. Eins og fólk man væntanlega náðist aldrei að ljúka Íslandsmótinu haustið 2020, en FH var í fallsæti þegar keppni var hætt. Andrea Mist var þó áfram með samning við FH og stóð til að félagið lánaði hana til Breiðabliks. Þó kom aldrei til þess að hún spilaði með Kópavogsliðinu því fljótlega bauðst henni tækifæri í Svíþjóð sem hún greip og spilaði með Växjö í Damallsvenskan (sænsku úrvalsdeildinni) 2021. Eins og fram kemur hér að ofan hafði Andrea ætlað sér að vera áfram í Svíþjóð, en Växjö féll úr sænsku úrvalsdeildinni og ákvað Andrea að rifta samningi sínum við liðið – og hefur nú ákveðið að næstu skrefin verði á heimaslóðum með Þór/KA, góðu heilli.

Leikir Andreu erlendis:
2019: FFC Vorderland (Austurríki): 5 (4 mörk)
2020: Orobica Calcio (Ítalía): 3
2021: Växjö (Svíþjóð): 17

Hér má sjá tölfræðiupplýsingar Andreu Mistar á vef KSÍ.


Andrea Mist lék síðast með Þór/KA 2019. Mynd: Páll Jóhannesson


Andrea Mist í leik með Þór/KA gegn KR sumarið 2019. Mynd: Páll Jóhannesson.


Andrea Mist ásamt móður sinni, Jórunni Jóhannesdóttur, á lokahófi 2019. Jórunn var þá í stjórn Þórs/KA og afhenti Andreu viðurkenningu fyrir 100 leikja áfanga. Mynd: Páll Jóhannesson.