Árið 2022 - fróðleiksmolar, tölur og myndir

Mynd: Þórir Tryggva
Mynd: Þórir Tryggva

Keppni í Bestu deild kvenna lauk laugardaginn 1. október og stelpurnar í Þór/KA því komnar í frí. Við litum aðeins um öxl og söfnuðum saman nokkrum fróðleiksmolum og tölum frá árinu og skreytum með fáeinum myndum.

Ein ljósmynd er á við þúsund orð, eða eitthvað um það bil. Áður en við hugum að fróðleiksmolum og tölum frá árinu eru hér tvær hópmyndir af stelpunum. Við höfum um árabil notið mikillar velvildar nokkurra ljósmyndara og eru myndaalbúmin frá leikjum Þórs/KA í Bestu deildinni og bikarkeppninni á þessu ári orðin 16, með tæplega þúsund myndum. Flest albúmin eru frá Agli Bjarna Friðjónssyni og Þóri Tryggva, en einnig er eitt albúm frá Jóni Óskari Ísleifssyni. Skapti Hallgrímsson á svo nokkrar liðsmyndir sem við höfum notað. Að auki má finna myndaalbúm frá Barcelona Cup og öðrum afrekum 3. flokks, auk mynda Þóris Tryggva frá lokahófinu.


Aftasta röð frá vinstri: Perry John James Mclachlan þjálfari, Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir markvarðaþjálfari, Steingerður Snorradóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Sandra María Jessen, Unnur Stefánsdóttir, Hannes Bjarni Hannesson sjúkra- og styrktarþjálfari.
Miðröð frá vinstri: Haraldur Ingólfsson, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Angela Mary Helgadóttir, Amalía Árnadóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Arna Eiríksdóttir og Jón Stefán Jónsson þjálfari.
Fremsta röð frá vinstri: Iðunn Rán Gunanrsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Tiffany McCarty, Sara Mjöll Jóhannsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði, Harpa Jóhannsdóttir, Saga Líf Sigurðardóttir, María Catharina Ólafsdóttir Gros og Margrét Árnadóttir.
Leikmenn sem vantar á mynd: Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, Agnes Birta Stefánsdóttir, Arna Kristinsdóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Vigdís Edda Friðriksdóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir og Bríet Jóhannsdóttir.
Mynd: Skapti Hallgrímsson


Mynd af leikmönnum, þjálfurum og starfsfólki T3 - Tenerife Top Training - þegar hópurinn var þar við æfingar í júlí 2022.
Aftari röð frá vinstri: Starfsmaður T3, Hannes Bjarni Hannesson, Perry John James Mclachlan, Jón Stefán Jónsson, Arna Kristinsdóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Amalía Árnadóttir, Margrét Árnadóttir, Tiffany McCarty, Jakobína Hjörvarsdóttir, Arna Eiríksdóttir, Angela Mary Helgadóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir.
Fremri röð frá vinstri: Starfsmaður T3, Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Sandra María Jessen, Bríet Jóhannsdóttir, Harpa Jóhannsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Sara Mjöll Jóhannsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Saga Líf Sigurðardóttir, María Catharina Ólafsdóttir Gros, Unnur Stefánsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.
Mynd: Haraldur Ingólfsson

Fimm mót, 32 leikir

  • Félagið tók þátt í fimm meistaraflokksmótum, Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum, Lengjubikarnum, Faxaflóamótinu og Kjarnafæðismótinu. Tvö þau síðastnefndu teljast þó ekki með sem fullgild KSÍ-mót og lúta þau öðrum reglum varðandi gjaldgengi leikmanna. Leikir í þessum mótum eru ekki taldir með í skráningu meistaraflokksleikja á vegum KSÍ.
  • Þátttakan í Faxaflóamótinu var þannig að farið var í tvær helgarferðir, um miðjan janúar og í byrjun febrúar, og spilaðir tveir leikir í hvorri ferð, við misjafnar aðstæður. Einn af leikjum Kjarnafæðismótsins bar upp á sömu helgi og meistaraflokksliðið var fyrir sunnan og fengu því yngri leikmenn það verkefni að mæta liði Tindastóls í Boganum á sama tíma, sem skýrir þann fjölda leikmanna sem spiluðu fyrir Þór/KA á árinu.
  • Kjarnafæðismótið var ekki klárað að fullu í byrjun árs og brugðu mótshaldarar á það ráð að láta bikarleik tveggja liðanna, Völsungs og FHL, í maí gilda sem leik í Kjarnafæðismótinu. Leikskýrsluna má finna undir Mjólkurbikarnum, en úrslit leiksins einnig færð inn í Kjarnafæðismótið. Segja má að sami leikur hafi verið „spilaður“ 6. febrúar og 10. maí.
  • Þór/KA vann tvo leiki og tapaði einum í Kjarnafæðismótinu, vann tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði einum leik í Faxaflóamótinu, endaði í 2. sæti í báðum þessum mótum.
  • Í Lengjubikarnum vann liðið þrjá leiki og tapaði tveimur, endaði í 3. sæti B-riðils og komst því ekki áfram í undanúrslit mótsins. Alls tók 21 leikmaður þátt í leikjum liðsins í Lengjubikarnum. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Sandra María Jessen skoruðu tvö mörk hvor í þeirri keppni.
  • Í Mjólkurbikarkeppninni hefja liðin í efstu deild leik í 16 liða úrslitum. Þór/KA mætti Haukum á heimavelli og vann, 6-0. Liðið beið síðan ósigur gegn Selfyssingum á útifelli í átta liða úrslitum. Margrét Árnadóttir skoraði tvö mörk í bikarkeppninni og þær Andrea Mist Pálsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Sandra María Jessen og Tiffany McCarty eitt hver, en eitt mark var sjálfsmark andstæðings.
  • Þór/KA (og Þór/KA/KS) á að baki 22 tímabil í efstu deild, þar hefur liðið verið samfleytt í efstu deild frá 2006, eða í 17 tímabil. Á árunum 2008 til og með 2019 var Þór/KA eina liðið sem var öll árin í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar.
  • Þór/KA endaði sumarið í 7. sæti Bestu deildarinnar í sumar, með 17 stig eða rúmlega 0,94 stig að meðaltali í leik. Liðið vann fimm leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði 11 leikjum, markatalan var 25-47.
  • Samanlagt vann liðið 13 leiki á árinu, gerði þrjú jafntefli og tapaði 16 sinnum.
  • Þór/KA var eina íslenska liðið sem vann Íslandsmeistarana í Bestu deildinni, en Stjarnan hafði áður unnið Val í Lengjubikarnum í vetur og Slavia Prag vann Val í fyrri leik liðanna í Meistaradeildinni.

Það vantaði aldrei leikgleðina eða ástríðuna í Þór/KA-liðið í sumar þó ekki hafi alltaf gefist tækifæri til að fagna. Hér fagna stelpurnar marki Maríu Catharinu í 1-0 sigri á Þrótti í ágúst. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Tvisvar innan við 20 sekúndur að skora

  • Þrír leikmenn komu við sögu í öllum 18 leikjum liðsins í Bestu deildinni, þær Sandra María Jessen, Harpa Jóhannsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir. Sandra María og Harpa spiluðu auk þess allar mínútur í öllum 18 leikjunum. Andrea Mist og Sandra María spiluðu auk þess báða leikina í bikarkeppninni, en þar var Harpa varamaður.
  • Alls kom 21 leikmaður við sögu í leikjunum 18 í Bestu deildinni, en auk þeirra voru þrjár á skýrslu í einum eða fleiri leikjum án þess að hafa tekið þátt í leikjunum, þær Amalía Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Sara Mjöll Jóhannsdóttir. Sara Mjöll var varamarkmaður í 16 leikjum af 18 í deildinni, auk þess að spila báða leiki Þórs/KA í bikarkeppninni.
  • Sjö leikmenn skoruðu í leikjum liðsins í Bestu deildinni, auk eins sjálfsmarks andstæðings. Sandra María Jessen skoraði mest fyrir Þór/KA í Bestu deildinni, átta mörk. Næst kom Margrét Árnadóttir (6), Tiffany McCarty (3) og Hulda Ósk Jónsdóttir (3). Arna Eiríksdóttir skoraði tvö mörk og þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros eitt hvor. Markið sem Ísfold Marý skoraði var sérlega glæsilegt, með þrumuskoti af vítateigslínu upp í bláhornið á móti Keflavík syðra, en þetta var fyrsta mark hennar í efstu deild.
  • Tvisvar í sumar tók það Þór/KA innan við 20 sekúndur að skora mark. Í útileiknum gegn Aftureldingu í 3. umferðinni kom Sandra María Jessen Þór/KA í 1-0 eftir aðeins 19 sekúndna leik. Í heimaleiknum gegn ÍBV komust gestirnir yfir, en frá því að Þór/KA byrjaði á miðju liðu níu sekúndur þar til Sandra María hafði sent boltann fyrir markið og leikmaður gestanna skorað sjálfsmark.


Markafagn í sigri gegn Keflavík á heimavelli. Mynd: Þórir Tryggva.

Eitt yngsta, ef ekki yngsta lið deildarinnar

  • Alls komu 43 leikmenn við sögu í leikjum liðsins í þeim fimm mótum sem félagið tók þátt í á árinu, Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum, Lengjubikarnum, Faxaflóamótinu og Kjarnafæðismótinu. Meðalaldur leikmanna var 19 ár og fjórir mánuðir. Eins og nefnt var hér að ofan skýrist þessi fjöldi og lágur meðalaldur meðal annars af einum leik í Kjarnafæðismótinu. Ef aðeins eru tekin opinberu KSÍ-mótin þrjú komu 27 leikmenn við sögu.
    • Besta deildin: 21 leikmaður spilaði fyrir Þór/KA, meðalaldur 21 ár og hálfur mánuður.
    • Mjólkurbikarinn: 18 leikmenn, meðalaldur 21 ár og fjórir mánuðir
    • Lengjubikarinn: 21 leikmaður, meðalaldur 21 ár og þrír mánuðir.
    • Faxaflóamótið, 18 leikmenn, meðalaldur 21 ár og þrír mánuðir
    • Kjarnafæðismótið, 32 leikmenn, meðalaldur 18 ár og fimm mánuðir.
  • Í hópi 30 leikmanna sem eru/voru á samningi við félagið á árinu og/eða æfðu og spiluðu með meistaraflokki Þórs/KA á árinu eru fæðingarárin þessi: 1990, 95, 97, 97, 98, 98, 98, 98, 99, 99, 99, 00, 00, 00, 00, 01, 02, 03, 04, 04, 04, 05, 05, 05, 05, 06, 06, 06, 06, 06.
  • Af umræddum 30 leikmönnum koma 24 úr yngri flokkum Þórs og KA, þar af nokkrar sem upphaflega hófu æfingar sem börn á Dalvík og Grenivík. Tvær koma frá Bandaríkjunum, en önnur þeirra kom aðeins við sögu í leikjum á undirbúningstímabilinu. Hinar koma upphaflega frá Völsungi, Tindastóli og Grindavík, ásamt því að við höfðum eina að láni frá Val í sumar.
  • Eins og sjá má á fæðingarárunum eru í þessum hópi fimm stelpur sem voru gjaldgengar í 3. flokki og af þessum 30 eru 13 gjaldgengar með 2. flokki.


Krista Dís Kristinsdóttir í bikarleiknum gegn Haukum í júní. Krista Dís var yngsti leikmaðurinn sem kom við sögu í leikjum liðsins í deild og bikar á árinu, fædd 2006 eins og nokkrar aðrar í hópnum, en hún verður 16 ára þann 10. október. Mynd: Þórir Tryggva.

Nokkrir leikja- og markaáfangar

  • Fyrstu leikir í efstu deild
    • Unnur Stefánsdóttir (2004), sem kom til okkar frá Grindavík í vetur, spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild í sumar, en hún kom við sögu í 16 leikjum í deildinni og tveimur í bikarkeppninni. Hennar fyrsta innkoma í efstu deild var í sigurleiknum gegn Val þann 3. maí, en hún var í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild gegn Selfossi þann 14. maí.
    • Krista Dís Kristinsdóttir (2006) kom í fyrsta skipti við sögu í leik í efstu deild þegar hún kom inn á undir lok leiks á Selfossi 16. ágúst.
    • Angela Mary Helgadóttir (2006) kom í fyrsta skipti við sögu í leik í efstu deild þegar hún kom inn á sem varamaður í 2-1 sigri gegn Val þann 3. maí. Hún var í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild í 3-3 jafnteflisleik á heimavelli gegn KR þann 14. júní.
  • Sandra María Jessen skoraði í haust sitt 100. mark í meistaraflokksleikjum fyrir Þór/KA (sjá mynd). Á skjáskotið sem fylgir fréttinni kemur ekki fram mark sem hún skoraði í meistarakeppni KSÍ 2011. Af þessum hundrað hefur hún skorað 81 mark í A-deild, 11 mörk í bikarkeppni, fjögur í deildabikar, eitt í meistarakeppni KSÍ, eitt í Meistaradeild Evrópu og tvö í því sem kallast „annað/óskilgreint“. Af þessum 100 mörkum eru fjórar þrennur, allar í A-deild, gegn Selfossi 2012, ÍA 2016 og Grindavík 2017 og 2018. Eitt hundraðasta markið kom á 85. mínútu þegar Sandra María jafnaði leikinn í 3-3 gegn ÍBV á heimavelli 14. september.


Margrét Árnadóttir fagnar marki með Söndru Maríu Jessen. Sandra vissi það ekki þarna, en hún var að skora 100. mark sitt í meistaraflokksleikjum með Þór/KA. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

Fjölmennur hópur, nokkrar lánaðar

  • Fimm lánssamningar voru gerðir við nágrannafélög í vor og sumar. Amalía Árnadóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir voru lánaðar til Völsungs. Amalía kom til baka í júlí og var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði 3. flokks, en Una og Sonja kláruðu tímabilið með Völsungi. Amalía kom ekki við sögu í leikjum meistaraflokks í sumar, en var í leikmannahópnum í nokkrum leikjum.
    • Una Móeiður var verðlaunuð sem efnilegasti leikmaður Völsungsliðsins í sumar á lokahófi félagsins. Hún spilaði samtals 14 leiki í 2. deild og Mjólkurbikarnum og skoraði fimm mörk.
    • Sonja Björg skoraði mest allra leikmanna Völsungs í sumar, en hún spilaði samtals 15 leiki í 2. deild og Mjólkurbikarnum og skoraði 11 mörk.
    • Arna Kristinsdóttir var lánuð til Tindastóls í vor og Rakel Sjöfn Stefánsdóttir í júlí. Arna spilaði eingöngu með Tindastóli, sem og Una Móeiður og Sonja Björg með Völsungi.
    • Rakel Sjöfn spilaði sex leiki með Tindastóli í sumar, en hafði áður komið við sögu í níu leikjum hjá Þór/KA í deild og bikar.
    • Arna spilaði samtals 19 leiki með Tindastóli í Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum og skoraði tvö mörk. Auk þess spilaði hún einn leik í Lengjubikarnum. Arna kom inn á sem varamaður í 5-0 sigri Tindastóls gegn Augnabliki í næstsíðustu umferð deildarinnar, þegar liðið tryggði sæti sitt í Bestu deildinni að ári. Þessi leikur var jafnframt 100. KSÍ-leikur Örnu í meistaraflokki. Af þessum 100 eru sjö í A-deild (Þór/KA), 47 í B-deild (Tindastóll og Hamrarnir) 23 í C-deild (Hamrarnir), fimm í bikarkeppni (með öllum þremur liðunum), 14 í deildabikar og fjórir flokkast undir „annað/óskilgreint“. Arna hefur spilað þessa leiki á meðan hún hefur verið á samningi og/eða skráð í Þór/KA, en lánuð til Hamranna eða Tindastóls. Af þessum 100 leikjum eru 13 með Þór/KA, 19/2 með Tindastóli og 68/1 með Hömrunum.


      Rakel Sjöfn Stefánsdóttir og Arna Kristinsdóttir eftir leik með Tindastóli í haust.


      Una Móeiður Hlynsdóttir í leik með Völsungi. Mynd: Hafþór Hreiðarsson/640.is

  1. Amalía Árnadóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir í Völsungsbúningunum.

Öflugir fulltrúar í yngri landsliðunum

  • Sex leikmenn úr meistaraflokki Þórs/KA spiluðu landsleiki með yngri landsliðum Íslands á árinu, auk þess sem nokkrar í viðbót voru kallaðar til æfinga.
    • Angela Mary Helgadóttir spilaði átta leiki með U16. Þegar þetta er ritað er hún í verkefni með U17 landsliðinu, undankeppni EM, og hefur þegar spilað tvo leiki með því liði.
    • Iðunn Rán Gunnarsdóttir spilaði fjóra leiki með U17 landsliðinu.
    • Jakobína Hjörvarsdóttir spilaði tvo leiki með U19 landsliðinu, en hún var frá vegna meiðsla frá ágúst í fyrra þar til í ágúst á þessu ári, að loknu EM hléinu. Hún var valin í U19 landsliðið mjög fljótlega eftir að hún hóf að spila að nýju eftir meiðslin.
    • Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði þrjá leiki með U17 landsliðinu, tvo leiki með U18 landsliðinu og einn leik með U19 landsliðinu.
    • Krista Dís Kristinsdóttir spilaði átta leiki með U16 landsliðinu og skoraði eitt mark. Þegar þetta er ritað er hún í verkefni með U17 landsliðinu, undankeppni EM, og hefur þegar spilað einn leik með því liði.
    • María Catharina Ólafsdóttir Gros spilaði þrjá leiki með U19 landsliðinu á árinu, á meðan hún var á samningi hjá Celtic í Skotlandi.
    • Unnur Stefánsdóttir spilaði einn leik með U18 landsliðinu.
    • Ísfold Marý Sigtryggsdóttir spilaði tvo leiki með U18 og tvo með U19 landsliðinu.


Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir með boltann í sigurleiknum gegn Þrótti í ágúst. Arna Eiríksdóttir og Sandra María Jessen fylgjast með. Kimmy er ein af okkar kornungu og frábæru leikmönnum sem spiluðu með yngri landsliðum Íslands á árinu. Hún var síðan verðlaunuð á lokahófi 1. október sem efnilegasti leikmaður félagsins. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Margrét Árnadóttir spilaði flesta leiki

  • Þegar öll mótin eru talin saman spilaði Margrét Árnadóttir flesta leiki fyrir Þór/KA á árinu, alls 30 leiki og skoraði í þeim 13 mörk. Næstar á eftir Margréti komu Unnur Stefánsdóttir (29), Andrea Mist Pálsdóttir (28), Hulda Björg Hannesdóttir (27), Ísfold Marý Sigtryggsdóttir (27), Harpa Jóhannsdóttir (26), Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (25), Sandra María Jessen (23) og Tiffany McCarty (21).
  • Ef við teljum eingöngu KSÍ-mótin, Lengjubikar, Mjólkurbikar og Bestu deildina eru það Margrét og Andrea Mist Pálsdóttir sem spiluðu flesta leikina, 24, Sandra María Jessen og Unnur Stefánsdóttir 23, Hulda Björg Hannesdóttir, Harpa Jóhannsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir 22.
  • Ef frá eru talin „æfingamótin“ í byrjun árs spiluðu eftirtaldir leikmenn sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Þórs/KA á árinu:
    • Angela Mary Helgadóttir (2006), spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Þór/KA á árinu (Lengjubikar, Besta deildin, Mjólkurbikarinn), en átti áður að baki leiki með Hömrunum.
    • Amalía Árnadóttir (2006) spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór/KA í Lengjubikarnum, en átti áður að baki leiki með Hömrunum.
    • Krista Dís Kristinsdóttir kom við sögu í einum leik í Bestu deildinni og einum í Mjólkurbikar, sem eru hennar fyrstu meistaraflokksleikir með Þór/KA, en hún átti áður að baki leiki með Hömrunum.
    • Una Móeiður Hlynsdóttir spilaði fjóra leiki með Þór/KA í Lengjubikarnum, en átti áður að baki meistaraflokksleiki með Hömrunum.
    • Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði einn leik með Þór/KA í Lengjubikarnum, átti áður að baki leiki með Hömrunum.
    • Nýir leikmenn sem spiluðu sína fyrstu leiki fyrir Þór/KA á árinu: Arna Eiríksdóttir, Brooke Ann Lampe, Tiffany McCarty og Vigdís Edda Friðriksdóttir.


Margrét Árnadóttir er hér að leggja upp sigurmarkið sem María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði gegn Þrótti. Nokkuð var fjallað um hjálminn sem hún spilaði með í þessum leik, en hún hafði fengið höfuðhögg í leik og þurfti því auka vernd. Andrea Mist Pálsdóttir hafði notað þennan sama hjálm fyrr á árinu, en Jóhann Helgi Hannesson, fyrrum leikmaður Þórs, hafði áður spilað nokkra leiki með sama hjálminn. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.


Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Margrét Árnadóttir. Mynd: Þórir Tryggva.

Það hefur komið fram í annarri frétt hér á vefnumm, en við ljúkum þessari upptalningu á verðlaunahöfum á lokahófi:

Besti leikmaður: Margrét Árnadóttir
Efnilegust: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir