Arna Eiríks heillaði í Mosó

 

Arna Eiríksdóttir er í liði umferðarinnar hjá öllum fjölmiðlum eftir sigurinn á Aftureldingu í Mosfellsbænum, og í tölfræðiliði vikunnar, auk þess sem fotbolti.net valdi hana sterkasta leikmann umferðarinnar.

Þriðja umferð Bestu deildarinnar fór fram fyrr í vikunni og við höldum uppteknum hætti, förum yfir val fjölmiðlafólks á liði umferðarinnar, bestu leikmönnum og svo framvegis.

Arna Eiríks og Hulda Ósk bestar skv. fotbolti.net

Í skýrslunni á fotbolti.net voru það Arna Eiríksdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir sem fengu útnefningu sem bestu leikmenn í leik okkar gegn Aftureldingu. Arna spilaði vel í vörninni og skoraði annað markið með skalla eftir hornspyrnu, og tryggði þannig 2-1 sigur. Hulda Ósk er nýkomin heim eftir að hafa stundað nám og spilað fótbolta í Notre Dame háskólanum í Bandaríkjunum. Hún kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og lét mikið til sín taka í framlínunni.

Ef smellt er á myndina hér að neðan má lesa um leikinn, og þar er einnig að finna skemmtilegar myndir Hafliða Breiðfjörð úr leiknum.

Þær Arna og Hulda Ósk komust síðan báðar í sterkasta lið 3. umferðar sem valið er af fotbolti.net og birt var í dag, föstudag. Ef smellt er á myndina opnast fréttin á fotbolti.net.

Myndin er tekin af fotbolti.net, myndina tók Hafliði Breiðfjörð í leik Þórs/KA og Aftureldingar í Mosfellsbænum. Ef smellt er á myndina opnast frétt með viðtali við Örnu á fotbolti.net.

Arna Eiríks með 8,5 í tölfræðiþáttum

Arna er sú eina úr okkar liði sem kemst inn í lið vikunnar, byggt á tölfræðiþáttum, eins og það er sett fram af Bestu deildinni.

Fimm leikmenn með M eða MM hjá Mogga

Fjölmiðlafólk er mjög samstíga í því að velja Örnu Eiríksdóttur sem besta mann okkar í leiknum. Hún fékk tvö M hjá Morgunblaðinu, en þær Andrea Mist Pálsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Sandra María Jessen og Tiffany McCarty fengu allar eitt M.

Ekki má heldur gleyma markinu sem Sandra María Jessen skoraði eftir 19 sekúndna leik, 14 snertingar hjá sex leikmönnum. Ekki aðeins sögulega snöggt mark heldur metmark hjá Söndru Maríu sem þar með hefur skorað flest mörk fyrir Þór/KA í efstu deild, 75. Hún fór þar með upp fyrir Rakel Hönnudóttur sem skoraði 74 mörk fyrir Þór/KA í efstu deild.

Rétt er að ítreka að hér er eingöngu um að ræða mörk í efstu deild, ekki bikarkeppni eða öðrum keppnum. Rakel spilaði til dæmis með Þór/KA í næstefstu deild 2005 og skoraði þar 29 mörk.

Myndabrengl í Bestu mörkunum

Arna Kristinsdóttir birtist óvænt í Bestu mörkunum á Stöð 2 sport, en eins og kunnugt er og frá hefur verið sagt hér hefur hún verið lánuð til Tindastóls og skoraði eina mark liðsins í sigri á Fylki í gær. 

Mynd af Örnu birtist í liði umferðarinnar hjá Bestu mörkunum, en það var hins vegar nafna hennar Eiríksdóttir sem var í liði umferðarinnar þar, eins og hjá öðrum fjölmiðlum. Viðbrögð Örnu Kristins voru reyndar einföld: „Er ekki allt hægt ef viljinn er fyrir hendi?“

Ásamt Örnu var Tiffany McCarty valin í lið umferðarinnar hjá Bestu mörkunum, en hún lagði upp fyrra mark liðsins og var spræk og ógnandi í leiknum, óheppin að koma Þór/KA ekki í 2-0 í fyrri hálfleiknum.