Arna Sif Ásgrímsdóttir gengur til liðs við Þór/KA

Stjórn Þórs/KA hefur samið við Örnu Sif Ásgrímsdóttur til næstu tveggja ára. Arna Sif gengur til liðs við félagið frá Val þar sem samningur hennar rennur út 16. nóvember.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvílíkur fengur það er fyrir Þór/KA að fá Örnu Sif til liðs við félagið, bæði sem gríðarlega reynslumikla og öfluga knattspyrnukonu og ekki síður sem leiðtoga innan og utan vallar.

Stutt er síðan Arna Sif sneri aftur á knattspyrnuvöllinn eftir krossbandaslit og barnsburðarleyfi. Hún kom við sögu í fjórum leikjum með Val í Bestu deildinni undir lok nýafstaðins tímabils, en hafði þá ekki spilað leik síðan í febrúar 2024.

Samofin sögu Þórs/KA

Það er í raun óþarfi að kynna Örnu Sif fyrir Akureyringum og öðru stuðningsfólki félagsins, svo samofin er ferill hennar sögu Þórs/KA á ákveðnum tímabilum. Hún er fædd og uppalin á Akureyri og var kornung komin inn í hópinn í meistaraflokki félagsins.

Arna Sif á samanlagt að baki 425 meistaraflokksleiki, þar af 401 leik og 74 mörk í KSÍ-mótum og Evrópukeppnum. Þar af eru 290 leikir fyrir Þór/KA. Auk þess spilaði hún 19 leiki í efstu deild Svíþjóðar 2015 og fimm leiki í efstu deild á Ítalíu 2017. Leikirnir í efstu deild hér á landi eru orðnir 272, mörkin 47, þar af 197 leikir fyrir Þór/KA.

Þá á hún að baki 19 landsleiki og eitt landsliðsmark, auk 59 leikja með yngri landsliðum Íslands.

Fyrirliði og lykilleikmaður Íslandsmeistara

Arna Sif er fædd 1992 og samdi fyrst við Þór/KA 1. maí 2008. Hún hóf ferilinn í meistaraflokki 14 ára að aldri, smenna árs 2007, og kom í fyrsta skipti við sögu í meistaraflokksleik í maí það ár. Samtals á hún að baki 12 keppnistímabil með Þór/KA, 2007-2014 og 2018-2021. Hún verður því reyndasti leikmaður félagsins á komandi keppnistímabili.

Arna Sif lyftir Íslandsmeistarabikarnum sem fyrirliði Þórs/KA 2012. Á myndinni til vinstri er Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, að afhenda henni bikarinn. 

Leikmenn sem þarna sjást í mynd: Katla Ósk Rakelardóttir, Kayla Grimsley, Katrín Ásbjörnsdóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Elva Mary Baldursdóttir, Helena Jónsdóttir, Ágústa Kristinsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Lára Einarsdóttir, Chantel Jones, Helena Rós Þórólfsdóttir, Arna Benný Harðardóttir, Amanda Mist Pálsdóttir, Sandra María Jessen, Gígja Valgerður Harðardóttir og Aldís Marta Sigurðardóttir. Á myndinni til hægri eru Ágústa og Helena Rós ásamt Örnu Sif þegar hún lyfti bikarnum. Myndir: Þórir Tryggva. 

Arna Sif var fyrirliði og lykilleikmaður í liði Þórs/KA sem varð Íslandsmeistari 2012. Áður hafði hún í tvígang unnið B-deild Lengjubikarsins með félaginu, A-deildina 2009 og síðar Meistarakeppni KSÍ árið 2013. Hún var kjörin íþróttakona Akureyrar 2012 og hefur sem leikmaður Þórs/KA verið kjörin íþróttakona Þórs alls fimm sinnum, árin 2012, 2014, 2018, 2019 og 2021.

Svíþjóð, Reykjavík, Ítalía, Akureyri

Frá Þór/KA hélt hún út til Svíþjóðar í atvinnumennsku og spilaði 19 leiki með Kopparbergs/Göteborg FC í efstu deild þar. Þá sneri hún aftur heim til Íslands og lék með Val tímabilin 2016 og 2017, vann A-deild Lengjubikarsins með félaginu seinna árið.

Haustið 2017 reyndi hún fyrir sér á Ítalíu, gekk til liðs við AGSM Verona og spilaði fimm leiki með félaginu í efstu deild, en sneri fljótt þaðan aftur þar sem ekki var staðið við samninga. Hún gekk þá aftur til liðs við Þór/KA í upphafi árs 2018 og vann A-deild Lengjubikarsins og Meistarakeppni KSÍ með félaginu um vorið.

Síðast lék Arna Sif með Þór/KA 12. september 2021 í markalausu jafntefli við Keflvíkinga. Fyrir þann leik fékk hún afhenta treyju í tilefni af 200 meistaraflokksleikjum fyrir félagið, ásamt Huldu Björg Hannesdóttur, sem þá hafði náð 100 leikja áfanga. Myndir: Þórir Tryggva. 

Eftir fjögur tímabil með Þór/KA gekk hún aftur til liðs við Val fyrir tímabilið 2022 og hefur verið þar síðan. Með Val varð hún meistari meistaranna og bikarmeistari 2022 og Ísandsmeistari 2023, en það ár var hún einnig kjörin íþróttamaður Vals.

Mikill fengur fyrir félagið

Stjórn Þórs/KA býður Örnu Sif velkomna aftur í okkar raðir. Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og ekki síst yngri og reynsluminni leikmenn í okkar röðum að fá þessa öflugu og reynslumiklu knattspyrnukonu í okkar raðir. Hún á vafalaust eftir að reynast félaginu mikill styrkur, innan sem utan vallar, og væntum við mikils af henni.

Samningur Þórs/KA og Örnu Sifjar er til tveggja ára.

- - -

Titlar með Þór/KA:

  • Íslandsmeistari: 2012
  • Meistari meistaranna: 2013, 2018
  • A-deild Lengjubikars: 2009, 2018
  • B-deild Lengjubikars: 2007, 2008

Titlar með Val:

  • Íslandsmeistari: 2023
  • Bikarmeistari: 2022
  • Meistari meistaranna: 2022
  • A-deild Lengjubikars: 2017

Arna Sif ásamt Andra Hjörvari Albertssyni, þjálfara Þórs/KA, á lokahófi félagsins 2021 þar sem hún var verðlaunuð sem besti leikmaðurinn og leikmaður leikmannanna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.