Arna Sif, Hulda Björg og Hulda Ósk verðlaunaðar

Arna Sif og Hulda Björg fengu treyjur að gjöf frá stjórn Þórs/KA fyrir leikinn gegn Keflavík. Mynd: …
Arna Sif og Hulda Björg fengu treyjur að gjöf frá stjórn Þórs/KA fyrir leikinn gegn Keflavík. Mynd: Þórir Tryggva

 

Fyrir leik Þórs/KA og Keflavíkur í lokaumferð Íslandsmótsins fengu tveir leikmenn treyju að gjöf frá stjórn Þórs/KA vegna leikjaáfanga – sú þriðja er erlendis og gat ekki tekið við sinni.

Þær Arna Sif Ásgrímsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir fengu afhentar Þór/KA treyjur með 200 og 100 á bakinu – en það er sá leikjafjöldi sem þær voru verðlaunaðar fyrir að þessu sinni. Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 100. Leik fyrir Þór/KA í fyrrahaust, en hún er við nám í Bandaríkjunum og gat því ekki tekið við sinni treyju í dag.

Leikjahæst í sögu liðsins

Arna Sif Ásgrímsdóttir spilaði sinn 200. leik fyrir Þór/KA sumarið 2020 og er þá miðað við hefðbundna talningu eins og gert er á vef KSÍ, þ.e. leiki í deild, bikar, meistarakeppni og Evrópukeppnum.

Eftir leikinn gegn Keflavík í dag er hún komin í 233 leiki fyrir Þór/KA, en samtals 266 leiki (51 mark) fyrir Þór/KA og Val. Fyrsta meistaraflokksleikinn spilaði hún gegn Keflavík á Keflavíkurvelli 21. maí 2007.

Ef við teljum eingöngu leiki í efstu deild eru þeir 227 með Þór/KA og Val hér á landi, en hún á síðan einnig að baki leiki í úrvalsdeildum þriggja annarra landa, 19 leiki í efstu deild í Svíþjóð, fimm á Ítalíu og sjö í Skotlandi. Efstudeildarleikir Örnu Sifjar eru því samtals orðnir 258, en leikir samtals í deildum, bikar, meistarakeppni og Evrópukeppni eru 297.

Níunda leikjahæst í efstu deild kvenna

Arna Sif er komin upp í 9. sæti yfir þær sem spilað hafa flesta leiki í efstu deild kvenna hér á landi. Auk áðurtalinna leikja fyrir Þór/KA, Val, Götaborgs-Kopparberg, Verona og Glasgow City FC má svo nefna 76 leiki í vetrarmótum (deildabikar og Kjarnafæðismóti).

Arna Sif hefur svo að auki spilað 12 landsleiki – sem líklega flestir aðrir en landsliðsþjálfarar liðinna ára eru sammála um að ættu að vera mun fleiri.

Þegar allt er talið: 266+19+5+7+76+12 = 395 leikir í meistaraflokki.

Hulda Björg í 100 leiki

Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór/KA 18. maí 2016 og hefur eingöngu spilað fyrir Þór/KA. Hún náði þeim áfanga að spila sinn 100. leik með liðinu gegn Stjörnunni á útivelli þann 6. ágúst.

Hulda Björg hefur nú spilað 104 leiki, en af þessum leikjum eru meðal annars fimm leikir í Meistaradeildinni 2018. Hulda Björg hefur skorað sjö mörk í þeim 104 leikjum sem hún hefur spilað hingað til. Auk þessarar hefðbundnu talningar á Hulda Björg að baki 32 leiki í vetrarmótum með Þór/KA.

Hulda Ósk í 100 leiki í fyrra

Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði í fyrrahaust sinn 100. leik fyrir Þór/KA og hefur nú samtals spilað 117 leiki fyrir félagið – þar af fimm í Meistaradeild Evrópu. Hulda Ósk spilaði fyrsta leik sinn fyrir Þór/KA í maí 2016, en áður hafði hún verið hjá Völsungi og KR.

Samtals á hún að baki 172 leiki (34 mörk) með Þór/KA, KR og Völsungi. Hulda Ósk er fjarverandi, en hún stundar nú nám við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum og spilar fótbolta þar. Við sendum henni okkar bestu kveðjur, en hún fær sína treyju afhenta síðar.

Hulda Ósk Jónsdóttir í leik gegn ÍBV í sumar. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.