Besta deildin: Sigu niður um sæti eftir tap í Garðabæ

Garðabæjarferðin hjá Þór/KA á laugardaginn fékk ekki góðan endi. Stjarnan vann leikinn 4-1 eftir að jafnt hafði verið í leikhléinu, 1-1. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði markið fyrir Þór/KA.

Stjarnan náði forystunni eftir um 20 mínútna leik, en Karen María jafnaði með glæsilegu skoti vel fyrir utan vítateig um stundarfjórðungi síðar. Þá hafði Margrét Árnadóttir þurft að fara af leikvelli vegna meiðsla. Mark Karenar Maríu kom eftir innkast Stjörnunnar. Ellie Moreno var fyrst í boltann úr innkastinu, sendi beint á Sonju Björgu Sigurðardóttur sem kom boltanum beint út til Karenar Maríu. Hún tók boltann á kassann, lék aðeins til hægri og lagði boltann fyrir sig áður en hún átti hnitmiðað skot alveg upp við þverslá marks Stjörnunnar. 

Heimakonur í Garðabænum voru síðan mun ákveðnari í seinni hálfleiknum og skoruðu þrisvar án þess að okkur tækist að svara. Niðurstaðan vonbrigði og með sigrinum fór Stjarnan upp fyrir Þór/KA, sem situr nú í 6. sæti deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið fyrir tvískiptingu. 

Fram undan eru því mikilvægir leikir fyrir félagið, sérstaklega næsti leikur, sem er heimaleikur í Boganum gegn Þrótti föstudaginn 12. september kl. 18. Meira um þann leik á næstu dögum. 

Stjarnan - Þór/KA 4-1 (1-1)

  • 1-0 - Gyða Kristín Gunnarsdóttir (20').
  • 1-1 - Karen María Sigurgeirsdóttir (35'). Stoðsending: Sonja Björg Sigurðardóttir.
  • 2-1 - Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir (60').
  • 3-1 - Gyða Kristín Gunnarsdóttir (81').
  • 4-1 - Fanney Lísa Jóhannesdóttir (85').
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin

Tölur og fróðleikur

  • 70 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 70. leik fyrir Þór/KA í KSÍ mótum. Þar af eru 54 leikir í efstu deild.
  • 260 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 260. leik fyrir Þór/KA í KSÍ-mótum og Evrópukeppni. Þar af eru 175 leikir í efstu deild fyrir félagið.