Besta deildin: Bráðfjörugt í Boganum

Þrjú stig í pokann í gær. Lokatölur 4-0 í leik okkar gegn FHL í 14. umferð Bestu deildarinnar.

Í gær kom loksins sigur hjá okkar liði í Bestu deildinni eftir nokkra bið. Gestirnir að austan fengu kröftugt Þór/KA lið í andlitið strax á fyrstu mínútunum, mark eftir eina og hálfa mínútu og annað á 19. mínútu. Tveimur mörkum bætt við í seinni hálfleik og niðurstaðan 4-0 sigur.

Þór/KA - FHL 4-0 (2-0)

  • 1-0 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (2'). Stoðsending: Agnes Birta Stefánsdóttir
  • 2-0 - Karen María Sigurgeirsdóttir (19'). Stoðsending: Margrét Árnadóttir
    - - -
  • 3-0 - Sandra María Jessen (53'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 4-0 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (90+4'). Stoðsending: Agnes Birta Stefánsdóttir.
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin
  • Myndaalbúm (Ármann Hinrik)

Þór/KA er í 5. sæti með 21 stig úr 14 leikjum. Sæti ofar er Valur með 24 stig eftir 15 leiki. Fjögur lið koma í halarófu í sætunum fyrir neðan Þór/KA með 13-16 stig. Flest liðin eiga nú fjóra leiki eftir í 18 leikja deildarkeppninni fyrir tvískiptingu deildarinnar.

Næstu leikir hjá Þór/KA

  • 30. ágúst: Þór/KA - Fram
  • 6. september: Stjarnan - Þór/KA
  • 12. september: Þór/KA - Þróttur
  • 20. september: Breiðablik - Þór/KA

Tölur og fróðleikur

  • 10 - Ellie Moreno spilaði sinn 10. leik í efstu deild.
  • 20 Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði sinn 20. leik í efstu deild. Samanlagt á hún að baki 75 meistaraflokksleiki með Þór/KA, Hömrunum og Völsungi.
  • 50 - Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði sitt 50. mark í meistaraflokki. Þar af eru 26 mörk í efstu deild, þrjú í næstefstu deild, tvö í bikarkeppni og 18 í deildabikar.
  • 50 - Emelía Ósk Krüger spilaði sinn 50. leik í meistaraflokki. Þar af eru 46 fyrir Þór/KA og fjórir fyrir Völsung.
  • 161 - Þór/KA birtir ávallt nákvæmar tölur um fjölda þeirra sem sækja leiki liðsins. Í gær voru áhorfendur 161 og létu flestir vel í sér heyra. 
  • 190 - Sandra María Jessen spilaði sinn 190. leik í efstu deild á Íslandi. Samanlagt á hún þó fleiri leiki í efstu deildum því hún hefur einnig spilað í efstu deild í Tékklandi og Þýskalandi.
  • 200 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 200. leik í meistaraflokki fyrir Þór/KA, ef aðeins eru taldir leikir í deildarkeppni, bikarkeppni, meistarakeppni og Evrópukeppni (ekki deildarbikar). Samanlagt er hún komin með 258 leiki fyrir Þór/KA (að meðtöldum deildabikar) og 316 meistaraflokksleiki samanlagt fyrir Þór/KA, Völsung og KR.

Treyjuafhending fyrir leik, Margrét fyrir 200 leiki og Kimberley Dóra fyrir 100 leiki. Mynd: Ármann Hinrik.