Besta deildin: Fimm marka sigur, fimm skoruðu

Með öruggum og glæsilegum sigri á Tindastóli í gær færðist Þór/KA upp í 2. sæti Bestu deildarinnar því fyrr um kvöldið hafði Breiðablik unnið Val í uppgjöri toppliðanna. Næsta uppgjör toppliða verður einmitt þegar Þór/KA tekur á móti Breiðabliki í fyrsta leik eftir landsleikjahlé.

Í stuttu máli má segja um leik gærkvöldsins að það hafi aldrei verið spurning um hvort liðið færi með sigur af hólmi. Okkar konur pressuðu af ákafa, voru yfirvegaðar í samspili og sóknaraðgerðum, sem og í vörninni þegar á þurfti að halda. Urmull færa hefði getað gefið fleiri mörk, en þau urðu þó fjögur í fyrri hálfleiknum. Það fjórða einkar glæsilegt, þegar Sandra María Jessen skoraði sitt tíunda mark í deildinni í sumar með glæsilegu skoti, síðustu spyrnu fyrri hálfleiksins. Áður höfðu Agnes Birta Stefánsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og Iðunn Rán Gunnarsdóttir skorað. Iðunn Rán skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild.

Sóknaraðgerðir gengu ekki eins vel í seinni hálfleiknum, yfirvegunin ekki eins mikil. Aldrei þó mikil hætta á að gestirnir næðu vopnum sínum. Frábær frammistaða, stemning og stuðningur, var svo kórónað með skemmtilegri samvinnu tveggja varamanna undir lok leiksins. Sonja Björg Sigurðardóttir átti þá sendingu fyrir markið þar sem Emelía Ósk Krüger skallaði boltann í markið. Þær höfðu báðar komið inn á þremur mínútum áður. Þetta var fyrsta mark Emelíu Óskar í efstu deild.

Þór/KA - Tindastóll 5-0 (4-0)

Með sigrinum mjakaði Þór/KA sér upp í 2. sætið, upp fyrir Val. Bæði lið eru með 15 stig úr sex leikjum. Markamunurinn er meiri hjá Þór/KA. Breiðablik er eitt á toppnum með fullt hús stiga, 18 stig úr sex leikjum. 

Nú tekur við hlé á deildinni á meðan A-landsliðið mætir landsliði Austurríkis tvisvar sinnum í undankeppni EM 2025. Sandra María Jessen er að sjálfsögðu áfram í landsliðshópnum. Leikirnir fara fram 31. maí í Austurríki og 4. júní á Laugardalsvelli. Þá eru einnig æfingar hjá U23 landsliðinu núna í lok mánaðarins, en í þann hóp voru þrjár frá Þór/KA valdar, Karen María Sigurgeirsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir. 

Molar og fróðleikur

  • 1 - Iðunn Rán Gunnarsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún kom Þór/KA í 3-0 eftir rúmlega hálftíma leik. Iðunn skoraði samt eiginlega mark í efstu deild í fyrrasumar þegar hún átti skot í stöng og þaðan í markvörð Stjörnunnar í 3-3 jafntefli liðanna í fyrrasumar. 
  • Emelía Ósk Krüger skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild aðeins þremur mínútum eftir að hún kom inn á sem varamaður.
  • 5 - Fimm mörk, fimm leikmenn sem skoruðu þessi fimm mörk.
  • - Stutt er síðan Sandra María Jessen var sú eina sem hafði skorað í leikjum liðsins í Bestu deildinni og jafnvel farnar að heyrast raddir um að það væri vandamál ef aðrar myndu ekki skora. Nú hafa sjö leikmenn skorað mörk liðsins í deildinni. 
  • 30 - Iðunn Rán spilaði í gær sinn 30. leik í efstu deild.
  • 60 - Ísfold Marý Sigtryggsdóttir spilaði í gær sinn 60. leik í efstu deild. 
  • 99 - Sandra María Jessen bætir félagsmetið hjá Þór/KA yfir markaskorun í efstu deild með hverju marki sem hún skorar. Markið glæsilega sem hún skoraði á lokaandartökum fyrri hálfleiks var hennar 99. mark í efstu deild á Íslandi, í 159 leikjum.
  • 160 - Margrét Árnadóttir spilaði sinn 160. meistaraflokksleik í mótum á vegum KSÍ. 
  • 190 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaí í gær sinn 190. meistaraflokksleik í mótum á vegum KSÍ og að Evrópuleikjum meðtöldum.
  • 540 - Margrét er sú eina í leikmannahópi Þórs/KA sem hefur spilað allar mínútur í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar, sex leikir, 540 mínútur.