Besta deildin: Fjögur mörk, fjórar skoruðu, fjórir í röð

Sandra María Jessen og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir fagna fyrsta marki leiksins. Þær tvær hafa skorað…
Sandra María Jessen og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir fagna fyrsta marki leiksins. Þær tvær hafa skorað mest fyrir liðið í Bestu deildinni, samtals 11 mörk, sem er númerið á baki Unu Móeiðar Hlynsdóttur. Mynd: Þórir Tryggva
- - -

Þór/KA vann Keflavík með fjórum mörkum gegn engu í fimmtu umferð Bestu deildarinnar á þriðjudagskvöldið. Fjórar skoruðu þessi fjögur mörk í þessum fjórða sigurleik liðsins í röð.

Því hefur verið haldið á lofti hér eftir undanfarna leiki að hér verði lítið skrifað beinlínis um leikina sjálfa heldur aðallega vísað í umfjöllun annarra fjölmiðla. Fréttaritari stenst þó ekki mátið eftir að hafa horft á upptöku af leiknum og notið þess að horfa á mörkin og ekki síður aðdraganda þeirra. Við tökum því stutta sögustund og lýsum mörkunum, en látum aðra fjölmiðla um að meta leikinn sem slíkan.

 • 1-0 - Allar með í spilinu
  Undirbúningurinn að fyrsta markinu var hrein unun á að horfa. Ísfold Marý Sigtryggsdóttir vinnur boltann úti á vinstri kanti eftir að Þór/KA setti góða pressu á vörn Keflvíkinga sem reyndu að spila sig fram hægri kantinn, en tókst ekki. Tíu leikmenn Þórs/KA spiluðu boltanum á milli sín næstu tæplega mínútu, frá vinstri kanti aftur í vörnina, út á hægri kant, upp í horn, fyrir markið og í markið! Shelby Money var sú eina sem ekki snerti boltann í þessari sókn eftir að Ísfold Marý vann hann.
  Svona var þetta: Ísfold Marý > Iðunn > Ísfold Marý > Hulda Björg > Iðunn Rán > Una Móeiður > Iðunn Rán > Ísfold Marý > Hulda Björg > Kimberley Dóra > Margrét > Hulda Björg > Kimberley Dóra > Bryndís > Hulda Ósk > Bryndís > Karen María > Hulda Ósk > Sandra María > 1-0.
  Sandra María þurfti að ná góðu uppstökki til að ná skallanum, en Una Móeiður beið reyndar átekta að baki hennar og hefði mögulega skorað ef Sandra hefði ekki náð boltanum.
 • 2-0 - Sandra með snúning
  Annað markið bar einnig mjög skemmtilega að. Keflvíkingar í sókn, reyna fyrirgjöf. Kimberley Dóra kemst fyrir boltann, Iðunn Rán ýtir honum áfram til Huldu Bjargar, hún út á vinstri kantinn á Unu Móeiði sem rennir honum áfram til Söndru Maríu sem er þá enn langt inn á eigin vallarhelmingi. Hún tekur skemmtilega við boltanum með hælnum og snýr á reyndan varnarmann Keflvíkinga, fer fram vinstri kantinn, upp að vítateig, sendir á Karen Maríu sem reynir að komast í skotfæri, en sendir síðan á Ísfold Marý og hún á snyrtilegt skot alveg út við stöng af 20 metra færi.
 • 3-0 og 4-0 - Ruglast á Margréti og Karen Maríu
  Tvö síðustu mörkin komu eftir mistök hjá varnarmönnum gestanna. Í þriðja markinu fær Bryndís Eiríksdóttir boltann aftan við miðju eftir markspyrnu Keflvíkinga, sendir langan bolta upp að teig Keflvíkinga þar sem varnarmaður gestanna skallar boltann niður, beint fyrir fætur Karenar Maríu. Hún á skot í stöng og boltinn rúllar eftir marklínunni þar sem Margrét Árnadóttir er fyrst á vettvang og setur hann í netið. Vallarþulurinn í Boganum kynnti Karen Maríu sem markaskorara, en fékk fljótt skilaboð frá áhorfendum um annað. En það voru fleiri sem rugluðust því greiningarforritið Wyscout skráði markið á Karen Maríu. 
  Karen María skoraði svo sjálf fjórða markið þegar annar varnarmaður Keflvíkinga átti mislukkaða sendingu inni í eigin teig. Karen María á skot að marki með hægri fæti, en frábær markvörður Keflvíkinga, Vera Varis, varði vel, eins og hún gerði raunar oft áður og eftir þetta í leiknum. Karen María fékk hins vegar boltann aftur, lagði hann fyrir sig og skaut með vinstri upp í markhornið fjær. Að minnsta kosti tveir fjölmiðlar skrifuðu þessi mistök í mörkum þrjú og fjögur á sama varnarmanninn, sem er þó ekki rétt.

Þór/KA - Keflavík 4-0 (1-0)

Molar og fróðleikur

 • 1 - Bryndís Eiríksdóttir var í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild, en hún hafði komið við sögu í þremur síðustu leikjum sem varamaður.

 • 2 - Tvö af þremur mörkum sem Ísfold Marý Sigtryggsdóttir hefur skorað í efstu deild eru á móti Keflavík.

 • 98 - Sandra María Jessen skoraði sitt 98. mark í efstu deild á Íslandi.
   
 • 101 - Sandra María hefur reyndar skorað samtals 101 mark í efstu deild samkvæmt okkar athugunum. Hún hefur nefnilega spilað leiki í efstu deild í Tékklandi og Þýskalandi. Fyrst fór hún sem lánsmaður til Bayer 04 Leverkusen frá janúar fram í apríl 2016, síðan sem lánsmaður til Slavia Prag í efstu deild Tékklands frá janúar fram í apríl 2018 og var svo á samningi hjá Leverkusen frá janúar 2019 til loka tímabils vorið 2021, en spilaði þó síðasta leik sinn fyrir liðið í desember 2020. Hún skoraði eitt mark fyrir Leverkusen í Bundesligunni, efstu deild í Þýskalandi, og tvö mörk fyrir Slavia Prag í efstu deild í Tékklandi. Hún er því komin í 101 mark samanlagt í efstu deild á Íslandi, í Tékklandi og Þýskalandi. 
 • 178 manns lögðu leið sína í Bogann til að fylgjast með leiknum, næstum sami fjöldi og á fyrsta heimaleiknum gegn Þrótti í Boganum. Fólk veltir vöngum yfir því af hverju ekki koma fleiri á leiki liðsins því í gegnum tíðina hafa oft verið 300-400 manns á heimaleikjunum. Erfiðlega hefur gengið að ná aftur upp þeim fjölda eftir heimsfaraldurinn, jafnvel þótt gengi liðsins hafi verið gott og leikirnir oft og iðulega hin besta skemmtun. Góð mæting, góð stemning og stuðningur skipta máli. Þær vita það litlu knattspyrnukonurnar sem börðu trommurnar og hvöttu liðið allan leikinn. Þau sem mættu studdu vel við liðið og eiga þátt í sigrinum.
 • 444 - Fjórar skoruðu mörkin fjögur í fjögur núll sigri í fjórða sigurleiknum í röð.
 • 450 - það eru mínúturnar sem tvær úr hópnum hafa spilað í fimm fyrstu leikjum liðsins, sem sagt allar mínútur í öllum leikjunum. Þetta eru Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Margrét Árnadóttir. Segja má að Sandra María Jessen hafi spilað 90+ mínútur í öllum leikjum, en hún hefur þó einu sinni komið af velli að loknum 90 mínútum.