Karfan er tóm.
Keppni í Bestu deildinni er að fara aftur í gang eftir EM-hléið og okkar lið mætir Tindastóli á Sauðárkróksvelli kl. 18 í dag í 11. umferð mótsins.
Að loknum tíu umferðum er Þór/KA í 4. sætinu með 18 stig, sex sigra og fjögur töp, en Tindastóll er í 8. sæti með tíu stig, þremur stigum á undan Víkingi sem er í fallsæti ásamt FHL. Fyrri leik liðanna í deildinni í vor lauk með 2-1 sigri Þórs/KA í Boganum. Tindastóll komst yfir snemma leiks, en Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði snemma í seinni hálfleiknum og Bríet Jóhannsdóttir kom Þór/KA í 2-1 á 88. mínútu.
Bæði liðin unnu síðasta leik sinn fyrir EM-hléið. Þór/KA vann Víking á heimavelli, 4-1, og Tindastóll vann FHL á útivelli, einnig 4-1.
Þessi félög hafa mæst sjö sinnum í efstu deild Íslandsmótsins. Fimm sinnum hefur Þór/KA sigrað og tvisvar hafa liðin skilið jöfn, í bæði skiptin á Sauðárkróki, 0-0 árið 2023 og svo 3-3 í dramatískum leik í fyrrasumar.
Ástæða er til að hvetja Akureyringa til að bruna á Krókinn síðdegis og styðja stelpurnar okkar í þessum nágrannaslag. Mikilvægt að komast strax og vel í gang eftir langt EM-hlé á deildinni.