Karfan er tóm.
Frítt verður á leik Þórs/KA og Þróttar í 17. umferð Bestu deildarinnar sem fram fer í Boganum á föstudag og hefst kl. 18. Það eru JYSK og Bílaleiga Akureyrar sem bjóða á leikinn.
Mitt í þeirri athygli sem barátta karlaliða Akureyrar í knattspyrnunni fær, eins og vera ber, þurfa stelpurnar okkar í Þór/KA nú á öllum fáanlegum stuðningi að halda því þær eru að fara að spila einn af mikilvægustu leikjum sínum á tímabilinu.
Stuðningurinn frá fólkinu í bænum er alltaf mikilvægur og getur skipt sköpum í spennandi baráttu. Það er gaman að fara á völlinn og styðja sitt lið þegar vel gengur og sigrunum fjölgar og fjölgar. En svo þegar á móti blæs og liðin okkar lenda í brekku, þurfa að takast á við ýmiss konar skakkaföll og þétta raðirnar, þá, einmitt þá er stuðningurinn hvað mikilvægastur. Þá þurfum við að standa saman, fjölmenna á leiki og láta í okkur heyra. Þá kemur í ljós úr hverju við erum gerð.
Við Akureyringar þurfum að sameinast um það að fjölmenna í Bogann á föstudag kl. 18 þegar Þór/KA tekur á móti Þrótti í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar fyrir tvískiptingu hennar. Trommur og hávær stuðningshróp eru velkomin!
Við hvetjum Akureyringa, hvar sem þeir eru fæddir og uppaldir, og hvar sem þeir búa, til að sýna stelpunum okkar alvöru stuðning í verki í þeirri baráttu sem fram undan er. Næsta verkefni er í Boganum kl. 18 á föstudag.
Endurtökum: FRÍTT Á LEIKINN Í BOÐI JYSK OG BÍLALEIGU AKUREYRAR!
Sjáumst Í Boganum á föstudag!