Karfan er tóm.
Á morgun, mánudaginn 21. apríl - annan páskadag - er komið að öðrum leik liðsins í Bestu deildinni þetta árið. Þór/KA tekur þá á móti liði Tindastóls í Boganum.
Bæði liðin unnu leiki sína í fyrstu umferðinni. Þór/KA sótti Víking heim og vann 4-1, en Tindastóll tók á móti FHL og vann 1-0 heimasigur.
Þór/KA og Tindastóll mættust tvisvar í Bestu deildinni í fyrrasumar, fyrst í Boganum í lok maí þar sem Þór/KA vann 5-0 og fimm leikmenn skiptu mörkunum á milli sín. Það voru þær Agnes Birta Stefánsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Sandra María Jessen og Emelía Ósk Krüger sem skoruðu í Boganum. Seinni leikurinn fór fram á Sauðárkróki í lok júlí og endaði með 3-3 jafntefli eftir að Þór/KA hafði náð 3-1 forystu og tvö mörk Tindastóls á lokamínútunum tryggðu þeim annað stigið. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði tvö mörk í þeim leik og Sandra María eitt.
Fimmta markið í 5-0 sigri Þórs/KA í Boganum 24. maí í fyrra skoraði Emelía Ósk Krüger. Þessi myndasyrpa sýnir þegar Sonja Björg Sigurðardóttir sendir boltann fyrir markið, Emelía Ósk og boltinn bæði komin inn í markið og Emelía fagnar með Sonju. Myndir: Þórir Tryggvason.
Ekki löngu eftir fyrri leikinn mættust liðin í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Sá leikur fór fram á Dalvíkurvelli vegna skemmda á Sauðárkróksvelli eftir leysingar. Þór/KA vann bikarleikinn 2-1. Karen María Sigurgeirsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir skoruðu mörkin fyrir Þór/KA. Skemmdirnar á Sauðárkróksvelli höfðu reyndar einnig þær afleiðingar að leikjunum var skipt því upphaflega átti fyrri leikurinn að fara fram á Sauðárkróki og sá seinni á Akureyri.
Alls hafa Þór/KA og Tindastóll mæst sex sinnum í Bestu deildinni. Þór/KA hefur unnið fjóra af þessum leikjum, en tvisvar hefur orðið jafntefli. Þór/KA hefur unnið heimaleikina þrjá og einn leik á Króknum, en þar hafa liðin tvisvar skilið jöfn.
Leikurinn í Boganum hefst kl. 16:00 á morgun, mánudag.
Sala árskorta er komin í gang í Stubbi og þar fer almenn sala á stökum miðum á leiki einnig fram. Auðvelt er að ná sér í Stubb-smáforritið í Play Store eða App Store í símanum. Hér er hægt að ná sér í árskortið eða staka miða á leiki: https://stubb.is/thorka/tickets
Árskortið, sem gildir á heimaleiki liðsins í Bestu deildinni, er á mjög hagstæðu verði, kostar 15.000 krónur. Miðar á staka heimaleiki kosta 2.500 krónur, en heimaleikirnir í Bestu deildinni verða níu fyrir tvískiptingu deildarinnar og síðan tveir eða þrír eftir það og fer eftir árangri liðsins í deildinni.
Í fyrra gáfust fjölmörg tækifæri til að fagna í Boganum og vonandi verður svo aftur í þetta skiptið með góðum stuðningi okkar fólks á pöllunum. Myndir: Þórir Tryggvason.