Besta deildin: Lokaleikurinn í Boganum í dag

Þór/KA tekur í dag á móti Fram í síðasta leik sínum í Bestu deildinni á þessu tímabili. Leikurinn fer fram í Boganum og hefst kl. 18. Frítt er á leikinn.

Fyrir lokaumferðina í neðri hluta Bestu deildarinnar er Þór/KA í 7. sætinu með 27 stig, en Fram í 8. sæti með 25 stig. Leikir liðanna fyrr í sumar unnust báðir á útivelli. Þór/KA vann 3-1 sigur á heimavelli Fram um miðjan maí þar sem Sandra María Jessen skoraði tvö mörk og Amalía Árnadóttir eitt. Fram vann síðan 2-1 í Boganum þar sem Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði okkar mark.

Þór/KA vann FHL á útivelli í síðustu umferð, 3-2, en Fram gerði 3-3 jaftnefli við Tindastól á heimavelli. 

Rétt er að ítreka að frítt verður á leikinn og hvetjum við Akureyringa til að fjölmenna í Bogann og sýna stelpunum alvöru stuðning í lokaleik tímabilsins, senda þær í fríið með góða tilfinningu og gera þannig upphafið að næsta tímabili enn skemmtilegra. Í leikhléi í kvöld verða valdir fjórir úr hópi áhorfenda til að taka þátt í sláarkeppni. Vegleg verðlaun eru í boði frá ELKO fyrir þá keppendur sem hitta í þverslána.