Besta deildin: Markaveisla í Kaplakrika, en engin stig heim

Margrét Árnadóttir spilaði sinn 200. leik fyrir Þór/KA í gær. Hér er hún í leik gegn FH í Boganum fy…
Margrét Árnadóttir spilaði sinn 200. leik fyrir Þór/KA í gær. Hér er hún í leik gegn FH í Boganum fyrr í sumar. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -

Áhorfendur fengu markaveislu þegar Þór/KA sótti FH heim í Kaplakrika í 13. umferð Bestu deildarinnar í gær. Liðin skoruðu þrjú mörk hvort í fyrri hálfleik, en það var heimaliðið sem kláraði leikinn með tveimur mörkum í þeim seinni. 

Bæði lið voru fljót að svara fyrir sig í fyrri hálfleiknum eftir að hafa fengið á sig mark. FH náði forystunni á 11. mínútu, en Sonja Björg Sigurðardóttir jafnaði á 13. mínútu. Sandra María Jessen náði forystunni fyrir Þór/KA á 25. mínútu, en FH jafnaði á 26. mínútu. Aftur komst FH yfir á 31. mínútu, en Margrét Árnadóttir jafnaði á 33. mínútu. Staðan orðin 3-3 eftir rúman hálftíma og þannig var hún í leikhléi. FH-ingar náðu svo forystunni á 58. mínútu og öðru með skyndisókn á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar Þór/KA freistaði þess að jafna leikinn með fjölmenni í sókninni. Niðurstaðan því heimasigur FH-inga, 5-3. 

FH - Þór/KA 5-3 (3-3)

  • 1-0 - Thelma Lóa Hermannsdóttir (11').
  • 1-1 - Sonja Björg Sigurðardóttir (13'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
  • 1-2 - Sandra María Jessen (25'). Stoðsending: Hulda Björg Hannesdóttir.
  • 2-2 - Maya Lauren Hansen (26'). 
  • 3-2 - Thelma Lóa Hermannsdóttir (31').
  • 3-3 - Margrét Árnadóttir (33'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • Leikskýrslan 
  • Besta deildin

Þegar þetta er skrifað eru enn tveir leikir eftir í 13. umferðinni. Þór/KA er enn í 4. sætinu en leikur Vals og Stjörnunnar sem fram fer í kvöld getur annaðhvort fært Val 4. sætið með jafntefli eða sigri, eða þá að Stjarnan komist upp að hlið Þórs/KA og Vals með sigri og liðin þrjú þá með 18 stig. 

Nú blasir sá blákaldi raunveruleiki við að Þór/KA er ekki nema þremur stigum frá 7. sætinu, en sex efstu liðin verða í efri hluta deildarinnar við tvískiptingu að loknum 18 umferðum. Næst á eftir áðurnefndum liðum kemur Fram í 7. sætinu með 15 stig. Fram undan er því barátta um sæti í efri og neðri hluta deildarinnar við tvískiptingu. Enn er nóg af stigum eftir í pottinum, fimm umferðum ólokið af deildarkeppninni áður en tvískiptingin tekur við. 

Hér gildir því líklega það fornkveðna að taka einn leik í einu og einbeita sér að ferlinu frekar en útkomunni. Næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti. Saman getur hópurinn ásamt öflugu stuðningsfólki heima og að heiman einbeitt sér að því að vinna hvert verkefni eins vel og hægt er. Þá þarf ekki að kvíða útkomunni. Mikilvægi öflugs stuðningsfólks og bakhjarla kemur einmitt best í ljós þegar á móti blæs.

Næstu leikir

  • 21. ágúst: Þór/KA - FHL
  • 30. ágúst: Þór/KA - Fram
  • 6. september: Stjarnan  - Þór/KA
  • 12. september: Þór/KA - Þróttur
  • 20. september: Breiðablik - Þór/KA

Tölur og fróðleikur

  • 25 - Margrét Árnadóttir  skoraði sitt 25. mark í efstu deild, en samtals hefur hún skorað 52 mörk í 200 leikjum fyrir Þór/KA.
  • 30 - Henríetta Ágústsdóttir spilaði sinn 30. leik í efstu deild. Þar af eru sjö fyrir Þór/KA.
  • 100 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði sinn 100. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA, en hún á einnig að baki níu leiki fyrir Hamrana og því 109 leiki samtals. Þar af eru 64 í efstu deild. Hér eru eins og áður taldir leikir í Íslandsmóti, bikarkeppni og deildabikar.
  • 120 - Mark Söndru Maríu Jessen var hennar 120. mark í efstu deild í 189 leikjum.
  • 130 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 130. leik í efstu deild. Þar af eru 113 fyrir Þór/KA.
  • 200 - Margrét Árnadóttir spilaði sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA. Hér á landi hefur hún eingöngu spilað með Þór/KA, en á einnig að baki fimm leiki í efstu deild á Ítalíu 2022. Að venju teljum við leiki í Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppnum. Af leikjunum 200 eru 134 leikir í efstu deild á Íslandi.
  • 230 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 230. leik fyrir Þór/KA. Þar af eru 161 í efstu deild.