Besta deildin: Sigur á FHL í næstsíðasta leik

Þór/KA vann annan sigur sinn í röð þegar haldið var austur á Reyðarfjörð í gær í síðasta útileik tímabilsins. Lokatölur urðu 3-2 og komu kornungar knattspyrnukonur þar meðal annars við sögu.

Aðeins eitt mark var skorað í fyrri hálfleiknum, en það gerði Bríet Fjóla Bjarnadóttir eftir pressu á varnarmenn FHL og Amalía Árnadóttir náði boltanum af varnarmanni. Bríet fékk boltann hægra megin í markteignum og setti hann yfir markvörðinn og í hliðarnetið fjær. Snyrtilega gert.

Emelía Ósk Krüger bætti við öðru markinu þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum með skoti úr miðjum vítateignum eftir þunga sókn Þórs/KA. Hulda Ósk Jónsdóttir átti þá fyrirgjöf út í teiginn frá vinstri, ætlaða Henríettu Ágústsdóttur, en varnarmaður FHL potaði í boltann sem barst í staðinn til Emelíu, hún lagði boltann fyrir sig og skoraði.

Enn var þó nóg eftir af mörkum og komu alls þrjú mörk á um fjögurra til fimm mínútna kafla á lokamínútunum og í viðbótartímanum.

Alexia Marin Czerwien minnkaði muninn í 1-2 á 89. mínútu, en um mínútu síðar slapp Sigyn Elmarsdóttir í gegnum vörn FHL eftir sendingu frá Henríettu og kláraði af öryggi framhjá markverðinum. Í fyrstu fannst einhverjum vera rangstöðulykt af því marki, en við skoðun á upptöku af leiknum sést að ekki var um rangstöðu að ræða. Sigyn kom inn af varamannabekknum þegar örstutt var eftir af leiknum, en þetta er í annað skipti sem hún kemur við sögu með meistaraflokki, og hennar fyrsta mark jafnframt. Halldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem kom einnig inn af bekknum á sama tíma og Sigyn, en þetta er fyrsta innkoma Halldóru í meistaraflokki. Þær eru báðar fæddar 2010.

Markaregninu var þó ekki lokið því Alexia bætti við öðru marki FHL með síðustu spyrnu leiksins, sem var reyndar kollspyrna, og niðurstaðan 3-2 sigur hjá okkar konum og þrjú stig heim til Akureyrar. 

FHL - Þór/KA 2-3 (0-1)

  • 0-1 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (17'). Stoðsending: Amalía Árnadóttir.
  • 0-2 - Emelía Ósk Krüger (78'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 1-2 - Alexia Marin Czerwien (89')
  • 1-3 - Sigyn Elmarsdóttir (90+2'). Stoðsending: Henríetta Ágústsdóttir.
  • 2-3 - Alexia Marin Czerwien (90+3')
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin - neðri hluti

Smásaga um leiktíma og samgöngutruflanir

Þór/KA hefur í nokkuð mörg ár átt í farsælu samstarfi við Norlandair og flýgur oft í einn eða tvo leiki á hverju sumri með flugfélaginu.

Þar sem um síðasta útileikinn á tímabilinu var að ræða var hugmyndin að fljúga frá Akureyri til Egilsstaða og keyra niður á Reyðarfjörð. Upphaflega planið var að sjálfsögðu að vera í efri hluta Bestu deildarinnar og nýta flugið í einhvern af síðustu leikjunum þar, mögulega síðasta leik ef það yrði útileikur og vinna þyrfti tíma til að komast á lokahóf. En það gekk reyndar ekki eftir eins og kunnugt er. Neðri hlutinn varð okkar hlutskipti og þá er bara að taka því verkefni.

Flugið austur átti að vera fararmáti 17 leikmanna í leikinn, en ein úr hópnum ætlaði að koma með Icelandair frá Reykjavík og hitta hópinn á Egilsstöðum. Einn þjálfari og tveir aðstoðarmenn fóru hins vegar af stað á bíl frá Akureyri snemma að morgni, með farangur liðsins, og hittu Húsvíkinginn í þjálfarateyminu við Mývatn. Þá fóru að berast þær fregnir að öllu flugi hefði verið frestað vegna mikils vinds á Norður- og Austurlandi, en flug væru í athugun um eða upp úr hádeginu. Óvissa um framhaldið varð til þess að flugið var slegið af enda ekki gott að bíða bara og sjá til og eiga að mæta austur á Reyðarfjörð síðdegis. 

Þá voru góð ráð dýr. Ljóst var að hópurinn sem beið á Akureyri eftir að geta flogið austur myndi ekki ná í tæka tíð fyrir settan leiktíma með nægjanlegan undirbúningstíma á leikstað. Fyrsta hugsun var að snúa við og reyna að fá leiknum frestað til morguns. Það var því miður ekki hægt þannig að gripið var til þess ráðs að útvega bílaleigubíla og þrjá bílstjóra til að bruna af stað austur og var tekin ákvörðun um að seinka leiknum um 90 mínútur, til 16:30.

Þegar á reynir eigum við góða að. Feður tveggja leikmanna og afi einnar stukku til og settust undir stýri, en fyrst hafði Bílaleiga Akureyrar auðvitað brugðist skjótt við með bíla frá Akureyri (í stað Egilsstaðaflugvallar). Feðurnir og afinn skiluðu stelpunum austur, sumir með naumindum þó því (erlendur) ferðamaður olli næstum árekstri og stórslysi með einsöku gáleysi á gatnamótum við Goðafoss, uggði ekki að sér og hugsaði greinilega ekki út í biðskyldu inn á þjóðveg eitt.

Þetta slapp þó til.

Allar komust þær austur, ungar sem eldri, eða reyndar ekki alveg allar. Sú sem átti flugið frá Reykjavík varð af leiknum, sem og ein sem var reyndar tæp fyrir leikinn og hefði mögulega ekki spilað mikið, hún varð eftir heima. Leiknum var seinkað um 90 mínútur og svo kláraðist hann með sigri og þremur stigum, en þá tók nýtt verkefni við. Nokkrar úr hópnum þurftu að komast með hraði aftur heim til Akureyrar því þar voru á dagskrá tónleikar með Jóa P og Króla. 

Tölur og fróðleikur

  • 1 - Halldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem (2010) kom inn af varamannabekknum, en þetta er hennar fyrsta innkoma í meistaraflokki.
  • 1 - Sigyn Elmarsdóttir (2010) skoraði þriðja mark Þórs/KA og sitt fyrsta mark í meistaraflokki.
  • 19 - Sú elsta sem skoraði mark fyrir Þór/KA í gær er nýorðin 19 ára, en hinar tvær eru fæddar 2010 og því 15 ára gamlar. Emelía Ósk Krüger (2006) skoraði í gær sitt annað mark í efstu deild og sjöunda mark sitt í meistaraflokki. Bríet Fjóla Bjarnadóttir (2010) skoraði sitt þriðja mark í efstu deild, en mörkin eru orðin sex í meistaraflokki. Sigyn Elmarsdóttir (2010) á að baki tvo leiki í meistaraflokki, báða í Bestu deildinni, og skoraði í gær sitt fyrsta mark. Mínúturnar eru þó ekki margar því hún kom inn af bekknum á 89. mínútu í leiknum gegn Þrótti í Boganum í september og á 88. mínútu á móti FHL í gær. Þetta eru því þrjár mínútur ásamt viðbótartíma leikjanna og samanlagt innan við tíu mínútur, en samt búin að skora sitt fyrsta mark. 
  • 89 - Ekki aðeins minnkuðu heimakonur muninn í 1-2 á 89. mínútu heldur liðu aðeins 89 sekúndur frá því að leikurinn hófst að nýju - og þær Sigyn og Halldóra Ósk komu inn á af varamannabekknum - þar til Sigyn skoraði þriðja markið. Frá því að FHL byrjaði aftur á miðju leið síðan 101 sekúnda þar til þær höfðu aftur minnkað muninn, en það var með síðustu spyrnu leiksins því um leið og Þór/KA byrjaði aftur á miðju var flautað til leiksloka.
  • 100 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 100. leik í meistaraflokki. Amalía hefur spilað 74 leiki fyrir Þór/KA, þar af 58 í efstu deild. Hún á einnig að baki 16 leiki með Hömrunum og tíu með Völsungi. Samanlagt eru þetta 100 leikir í meistaraflokki.
  • 100 - Henríetta Ágústsdóttir spilaði 100. leik sinn í meistaflokki. Þar af eru 14 leikir fyrir Þór/KA, en Henríetta hefur einnig spilað fyrir HK og Stjörnuna.
  • 110 - Harpa Jóhannsdóttir varði mark Þórs/KA í 110. leik sínum fyrir félagið.