Besta deildin: Stoðsendingaferna Huldu og þrenna Söndru

Stundum segja þjálfarar eða fjölmiðlafólk að leikur hafi verið leikur tveggja hálfleikja, en auðvitað eru allir knattspyrnuleikir það í sjálfu sér, innihalda fyrri og seinni hálfleik.

En stundum eru fyrri og seinni hálfleikur eins og svart og hvítt, annað liðið ræður för í þeim fyrri en hitt liðið snýr við blaðinu í þeim seinni. Að einhverju leyti má segja það um leik gærdagsins. Fljótlega í fyrri hálfleik kom í ljós að gestgjafarnir voru ekki á sínum besta degi og okkar konur gengu á lagið. Allt liðið virkaði vel saman, en tvær voru þó mest áberandi þegar kom að því að hnýta endahnút á sóknirnar og klára með mörkum. Tvívegis - og sennilega í þúsundasta skiptið í sumar - tætti Hulda Ósk Jónsdóttir upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir markið þar sem Sandra María Jessen var mætt og skallaði í markið. Í millitíðinni átti Hulda Ósk svo einnig stungusendingu inn á teiginn þar sem Sandra María stakk sér fram fyrir varnarmann Þróttar og þrumaði í markið. Þriggja marka forysta í leikhléi. Tvöföld þrenna, Sandra María með þrjú mörk og Hulda Ósk með þrjár stoðsendingar á tæpum hálftíma.

Sandra María hefur fengið fyrirsagnirnar í sumar og Hulda Ósk núna, en þó hér og annars staðar sé mörkum og stoðsendingum lýst og haldnar skrár yfir fjölda slíkra verður auðvitað að taka fram að áður en að stoðsendingunni og markskotinu kemur hefur vel þjálfað og vel samstillt lið sýnt í leik það sem æfingar þjálfaranna ganga meðal annars út á, að láta boltann ganga eftir ákveðnum leiðum, hlaupa á rétta staði án bolta, keyra á veikleika andstæðinganna og vera hluti af vel smurðu tannhjóli sem á endanum kemur liðinu á áfangastað. Samspil frá aftasta leikmanni til fremsta er oft grunnurinn að góðum mörkum þó sjaldnast séu talin upp nöfn þeirra sem komu við boltann á leiðinni. Það sama má segja um baráttu, hlaup, útsjónarsemi, liðsanda. Í hverju liði er leikmaður eða leikmenn sem skila alltaf gríðarlegu vinnuframlagi án þess að komast í fréttirnar. Án þeirra yrðu mörkin færri, eða mörk andstæðinganna fleiri. 

Seinni hálfleikurinn var að nokkru leyti eign Þróttara, en þó ekki að jafn miklu marki og sá fyrri var okkar. Þróttarar komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og skoruðu tvívegis, en á milli marka þeirra hélt Hulda Ósk uppteknum hætti og töfraði fram eina stoðsendinguna enn, að þessu sinni á Karen Maríu Sigurgeirsdóttur sem lék áfram inn í teiginn og skoraði. 

Tvívegis minnkuðu Þróttarar muninn í tvö mörk, en þrátt fyrir að frammistaðan hafi verið lakari hjá okkar konum í seinni hálfleiknum en þeim fyrri var hún þó nægilega góð til að hleypa gestgjöfunum ekki nær. Sigrinum raunar siglt nokkuð örugglega í höfn, þrjú stig í pokann, Þór/KA áfram í 3. sæti deildarinar og aftur komið þægilegra stigabil niður í 4. sætið.

Þróttur - Þór/KA 2-4 (0-3)

 

Molar og fróðleikur

 • 3 - Þrjú stig í pokann, Þór/KA í 3. sæti þegar tveimur þriðju hlutum 18 leikja deildarkeppninnar fyrir tvískiptingu er lokið. Hulda Ósk Jónsdóttir fékk þrjú M hjá lýsanda mbl.is.
 • - Hulda Ósk Jónsdóttir átti stoðsendinguna í öllum mörkum liðsins í leik gærdagsins. Gaman væri að heyra frá lesendum sem muna eftir öðrum leikjum, hérlendis eða erlendis, þar sem sami leikmaður á fjórar stoðsendingar í leik. Hulda Ósk fer oft ótroðnar slóðir og þegar hún var að taka til nestisgrautinn sinn í gærmorgun vantaði hana ílát. Tóm mjólkurferna var hendi næst og í hana fór hafragrautur eða einhver orkublanda. Er það tilviljun að hún tók með sér FERNU í ferðlagið í Laugardaginn? Nei, engar tilviljanir. Af því að um það var spurt í viðtali þá er rétt að nefna það hér að fyrir leikinn í dag hafði Hulda Ósk átt tvær stoðsendingar í mörkum liðsins í Bestu deildinni í sumar og þær því orðnar sex. 
 • 5 - Þrenna Söndru Maríu Jessen er sú fimmta sem hún gerir í efstu deild og Þróttur fjórða félagið sem fær að kenna á þrennusækni Söndru. Áður hafði hún skorað þrennu gegn Selfyssingum 2012, ÍA 2016 og Grindavík tvö ár í röð, 2017 og 2018. Auðvitað gerði hún einnig þrennu þegar hún skoraði fernuna gegn FH í vor þannig að segja má að þrennurnar séu orðnar sex.
 • 7 - Toppliðin tvö, Breiðablik og Valur, eru bæði með sjö stigum meira eftir 12 umferðir af deildinni í sumar en þau voru með eftir jafn marga leiki í fyrra. Bæði eru núna með 33 stig, en voru með 26 stig í fyrra. Þór/KA er með fimm stigum meira nú en á sama stað í deildinni í fyrra, 24 núna, 19 stig eftir 12 leiki í fyrra.
 • 10 - Leikurinn í gær var tíundi leikur Shelby Money fyrir Þór/KA. Þar af eru sjö í Bestu deildinni og þrír í Mjólkurbikarnum. Öfugt við marga unga útileikmenn sem eru að koma inn í hóp og spila sína fyrstu leiki hefur Shelby verið í byrjunarliðinu í öllum sínum leikjum og spilað heilar 90 mínútur í hverjum leik, eðlilegt fyrir markvörð.
 • 10 - Hildur Anna Birgisdóttir kom í gær við sögu í sínum 10. leik í efstu deild þegar hún kom inn á og spilaði síðasta stundarfjórðunginn eða svo.
 • 11 - Ef og hefði vinnur engin verðlaun í íþróttum, en hins vegar áhugavert að velta fyrir sér mikilvægi sigra og stiga. Ef Þór/KA hefði tekist að vinna FH væri liðið núna með 27 stig og FH 16, það er 11 stiga bil frá 3. sæti niður í 4. En raunveruleikinn er annar því stigin þrjú fóru í Hafnarfjörðinn, Þór/KA því með 24 stig og FH 19, sem sagt fimm stiga munur.
 • 15 - Sandra María er enn langmarkahæst í deildinni það sem af er og bilið breikkar. Hún hefur skorað 15 mörk í 12 leikjum, en þó ekki skorað í öllum leikjum. Mörkin fimmtán hafa komið í átta leikjum, þar af 11 í útileikjum og þrjú í Boganum. Fimm markanna eru gegn Þrótti, fjögur gegn FH. Tvívegis hefur Þór/KA ekki tekist að skora, bæði skiptin á heimavelli, gegn Breiðabliki og FH, auk þess sem Sandra María skoraði ekki í heimaleikjunum gegn Fylki og Val. Hún hefur hins vegar skorað í öllum útileikjum liðsins. Þrjár koma næstar á eftir henni á markalistanum með sjö mörk hver. 
 • 40 - Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði í gær sitt 40. mark í meistaraflokki og eru þá taldir leikir í deildakeppni, bikar, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppnum, en þar af eru 27 mörk fyrir Þór/KA, 11 fyrir Hamrana og tvö fyrir Breiðablik.
 • 50 - Þór/KA hefur skorað 30 mörk í deildinni í sumar og Sandra María því með 50% marka liðsins í deildinni. Mörkin sem Þór/KA hefur fengið á sig eru jafn mörg og mörkin sem Sandra María hefur skorað, fimmtán.
 • 104 - Sandra María komst í hóp 15 knattspyrnukvenna á dögunum þegar hún skoraði 100. markið sitt í efstu deild hér á landi. Nú er hún komin í 104 mörk og komin í 14.-15. sæti með jafnmörg mörk og Kristín Ýr Bjarnadóttir. Listann yfir þessar 15 má finna í umfjöllun mbl.is eftir 100. markið.
 • 766 - Faðir leikmanns, afi leikmanns og einn þjálfari óku þessa vegalengd að heiman og heim og eins og stundum áður, eitt stig í hverjum bíl á heimleiðinni. Einn þjálfari svo gott betur, en heimasíðan hefur ekki fengið staðfest hvort Jóhann Kristinn ók heim til Húsavíkur eða áfram í bústað eftir að heim var komið.