Aldís Guðlaugsdóttir í marki FH varði nokkrum sinnum mjög vel, bæði í fyrri og seinni hálfleik, og kom í veg fyrir að Þór/KA tækist að skora. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -
Þór/KA tapaði fyrir FH á heimavelli í 4. umferð Bestu deildarinnar í gær, 0-3. Þór/KA er í 5. sæti deildarinnar með sex stig úr fyrstu fjórum leikjunum.
Þrátt fyrir kröftuga byrjun og nokkur mjög góð marktækifæri í upphafi leiks gegn FH í gær tókst Þór/KA ekki að skora. Gestirnir svöruðu hins vegar með þremur mörkum á rúmum 15 mínútum og hirtu öll stigin. Hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleiknum þrátt fyrir ágætis færi.
Þór/KA er í 5. sætinu með sex stig eftir fyrstu fjórar umferðinar, jafn mörg stig og Stjarnan. Fyrir ofan eru Breiðablik, FH og Þróttur með tíu stig og Valur með sjö.
Þór/KA - FH 0-3 (0-3)
- 0-1 - Valgerður Ósk Valsdóttir (22')
- 0-2 - Berglind Freyja Hlynsdóttir (27')
- 0-3 - Elísa Lana Sigurjónsdóttir (37').
- Leikskýrslan
- Besta deildin
Næsti leikur liðsins er útileikur gegn FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði fimmtudaginn 8. maí kl. 18.
Fróðleikur og tölur
- 1 - Þær nýjustu í hópnum okkar, Ellie Moreno og Henríetta Ágústsdóttir, spiluðu báðar sinn fyrsta leik fyrir Þór/KA og Ellie jafnframt sinn fyrsta leik hér á landi. Elli kom inn sem varamaður á 72. mínútu og Henríetta spilaði allan seinni hálfleikinn, en hún hefur spilað 24 leiki í efstu deild með Stjörnunni og samtals 83 meistaraflokksleiki í KSÍ-mótum fyrir Stjörnuna og HK.
- 10 - Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði sinn 10. leik í efstu deild. Hún var í gær að spila sinn fyrsta leik í deildinni á tímabilinu eftir að hafa meiðst í leik með U19 landsliðinu í apríl.
- 10 - Kolfinna Eik Elínardóttir spilaði einnig sinn 10. leik í efstu deild, en hún hefur leikið 19 leiki samanlagt í meistaraflokki.
- 20 - Þór/KA nýtti sér í fyrsta skipti breytingu á reglu þar sem varamönnum var fjölgað og leyfilegt að vera með níu varamenn á skýrslu. Það voru því 20 leikmenn á skýrslu hjá félaginu í leiknum.
- 20,22 - Meðalaldur varamannanna níu er 20,22 ár.
- 22,25 - Meðalaldur þeirra 20 sem voru í hóp er 22,25 ár.
- 23,9 - Meðalaldur byrjunarliðsins er 23,9 ár.
- 180 - Sandra María Jessen spilaði sinn 180. leik í efstu deild á Íslandi.

Henríetta Ágústsdóttir kom til Þórs/KA fyrir nokkrum dögum á lánssamningi frá Stjörnunni og spilaði í gær í fyrsta skipti fyrir Þór/KA. Mynd: Ármann Hinrik.

Ellie Moreno kom til félagsins í apríl og kom inn undir lok leiks í gær í sínum fyrsta leik með Þór/KA. Mynd: Ármann Hinrik.