Karfan er tóm.
Því miður byrjaði fyrsti leikur eftir EM-hléið ekki eins og ætlunin var og tveggja marka tap á Sauðárkróki niðurstaðan. Tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungnum dugði heimaliðinu til sigurs.
Þór/KA sótti Tindastól heim á Sauðárkróksvöll í gær í 11. umferð Bestu deildarinnar. Heimaliðið mætti af meiri krafti til leiks og náði að skora tvö mörk áður en stundarfjórðungur var liðinn. Tveggja marka forysta Tindastóls í leikhléi dugði þeim til sigurs því hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleiknum.
Niðurstaðan vonbrigði eftir gott EM-hlé, en því miður tókst ekki að koma boltanum í mark andstæðinganna. Stundum vantaði þó ekki mikið upp á og mögulega hefði það breytt miklu um gang leiksins í fyrri hálfleiknum ef Sandra María hefði fengið dæmt víti í stað þess að hún var sjálf dæmd brotleg gegn markverði Tindastóls. Því miður eru slíkar ákvarðanir ekki í okkar valdi.
Tindastóll - Þór/KA 2-0 (2-0)
Þór/KA er áfram í 4. sæti deildarinnar með 18 stig að loknum 11 umferðum. Nú kemur aftur smá hlé því fram undan eru undanúrslit í Mjólkurbikarkeppninni og þau lið sem ekki spila þar eru í fríi á meðan. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Val í Boganum fimmtudaginn 7. ágúst kl. 18.