Karfan er tóm.
Valur hafði betur í viðureign sinni við Þór/KA í 3. umferð Bestu deildarinnar þegar liðin mættust að Hlíðarenda í gær. Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, en Valur skoraði þrisvar í þeim seinni.
Leikurinn var nokkuð jafn lengst af, Þór/KA nokkuð meira með boltann á köflum, en segja má að öll mörkin hafi orðið til upp úr skyndisóknum Vals. Þétt og fjölskipuð vörn Vals eftir fyrsta markið kom í veg fyrir að Þór/KA næði inn jöfnunarmarki, en í staðinn komu hættulegar skyndisóknir sem skiluðu mörkum.
Mögulega orka ákvarðanir tvímælis og áhugavert að velta fyrir sér hvernig niðurstaðan yrði ef til staðar væri myndbandadómgæsla, annars vegar varðandi vítaspyrnudóminn, hvort leikmaðurinn var innan teigs og hver staða handleggsins var þegar boltinn fór í hann, og hins vegar hvort leikmaður Vals var í rangstöðu þegar boltinn var sendur upp hægri kantinn í skyndisókn sem skilaði öðru marki Vals. Þar er líka áhugavert að skoða staðsetningu aðstoðardómara.
Þetta eru vangaveltur um ákvarðanir, en breyta úr því sem komið er ekki niðurstöðu leiksins.
Um svona atriði væri líka mjög áhugavert að fá betur ígrundaðar yfirferðir og dýpri umræður í markaþáttum deildarinnar, eins og iðulega er gert í leikjum Bestu deildar karla. Líklega ekki sanngjarnt að gera kröfur um slíkt þegar um eina tökuvél er að ræða á leikjum á móti sex tökuvélum í leik eða leikjum í Bestu deild karla. Hvað eru knattspyrnukonur svo sem að biðja um sanngirni? Þurfa þær ekki bara að vera duglegri og þakklátari fyrir það sem þær fá?
Valur - Þór/KA 3-0 (0-0)