Besta deildin: Tap gegn Val í 12. umferðinni

Leikmenn Þórs/KA fagna marki Söndru Maríu Jessen úr víti í leiknum. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -
Leikmenn Þórs/KA fagna marki Söndru Maríu Jessen úr víti í leiknum. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -

Þór/KA og Valur mættust í Boganum í gær í 12. umferð Bestu deildarinnar. Valur fór með sigur af hólmi og náði Þór/KA að stigum.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, en þrjú mörk litu dagsins ljós í þeim seinni. Jordyn Rhodes náði forystu fyrir Val á 71. mínútu, en átta mínútum síðar skoraði Sandra María Jessen úr víti. Valur fékk svo einnig víti, þar sem dæmd var hendi eftir hornspyrnu - hornspyrnu sem hefði reyndar aldrei átt að verða því í aðdraganda hennar var Sandra María toguð niður uppi við endamörk. Í stað aukaspyrnu á Val fengu gestirnir hornspyrnuna og víti í framhaldinu sem Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði úr.

Það er reyndar afar sjaldgæft að Þór/KA fái dæmda vítaspyrnu á andstæðinga, sama hvað á gengur. Það hlaut þó að koma að því í leiknum í gær enda segja fróðir menn sem horfðu á leikinn að liðið hefði átt að fá þrjár vítaspyrnur frekar en eina. Um það þýðir víst ekki að deila, en oft undrast stuðningmenn ákvarðanatöku í þessum efnumm.

Þór/KA situr enn í 4. sætinu þrátt fyrir tapið, eins og liðið hefur reyndar gert næstum allt mótið til þessa. Valur komst þó upp að hlið Þórs/KA með sigrinum í gær. Bæði lið eru með 18 stig, en Valur hefur leikið einum leik meira. Þór/KA er einnig með betri markamun.

Segja má að allt sé 50/50 hjá liðinu eins og staðan er núna, sex sigrar og sex töp, markatalan 20-20. Sex umferðir eru eftir af deildinni fyrir tvískiptingu og fullt af stigum í pottinum sem hægt er að sækja og full þörf á að Akureyringar standi með liðinu enda er það yfirleitt enn mikilvægara þegar á móti blæs. Þá reynir fyrir alvöru á leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn. Akureyringar hafa áður sýnt að allt er mögulegt með öflugum stuðningi, en ef til vill er þörf á því núna (og regluega) að minna á mikilvægi þess að styðja við liðið okkar í blíðu og stríðu. 

Þór/KA - Valur 1-2 (0-0)

  • 0-1 - Jordyn Rhodes (71')
  • 1-1 - Sandra María Jessen (v)(79')
  • 1-2 - Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir (v)(82')
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin

Næstu leikir:

  • 12. ágúst: FH - Þór/KA
  • 21. ágúst: Þór/KA - FHL
  • 30. ágúst: Þór/KA - Fram

Tölur og fróðleikur

  • 50 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 50. leik í efstu deild, en hún hefur samtals spilað 92 leiki í meistaraflokki fyrir Þór/KA, Hamrana og Völsung. Leikirnir fyrir Þór/KA eru orðnir 66.
  • 160 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 160. leik í efstu deild.
  • 160 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 160. leik fyrir Þór/KA, en hún á samtals að baki 212 leiki í meistaraflokki fyrir Þór/KA, Hamrana og Breiðablik.
  • 167 - Talning undir lok fyrri hálfleiks gaf okkur þessa tölu yfir fjölda áhorfenda. Við segjum alltaf satt og rétt frá fjölda á okkar leikjum.
  • 1080 - Fjórar úr leikmannahópnum hafa spilað allar mínútur í öllum 12 leikjum liðsins til þessa í Bestu deildinni; Hulda Björg Hannesdóttir, Jessica Berlin, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Sandra María Jessen.