Besta deildin: Þolinmæði og þrausegja skiluðu þremur stigum

Þór/KA sigraði Tindastól í 2. umferð Bestu deildarinnar í Boganum í gær, 2-1. Karen María Sigurgeirsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir skoruðu mörk liðsins.

Stigin eru orðin sex eftir tvo fyrstu leikina og Þór/KA í efsta sæti deildarinnar þegar tveimur leikjum er lokið í 2. umferðinni. Þrír leikir fara fram í kvöld og möguleiki að þá verði annaðhvort Breiðablik eða Þróttur einnig komin með sex stig.

Þór/KA - Tindastóll 2-1 (0-1)

  • 0-1 - Makala Woods (4'). Stoðsending: Elísa Bríet Björnsdóttir.
  • 1-1 - Karen María Sigurgeirsdóttir (52'). Stoðsending: Sandra María Jessen eða Bríet Fjóla Bjarnadóttir.
  • 2-1 - Bríet Jóhannsdóttir (88'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin

 

Fróðleikur og tölfræði

  • 1 - Markið sem Makala Woods skoraði á 5. mínútu leiksins er fyrsta mark Tindastóls gegn Þór/KA á Akureyri í Bestu deildinni. Áður hafði Þór/KA unnið 1-0 sumarið 2021 á Þórsvellinum, 5-0 sumarið 2023 á Þórsvellinum og 5-0 í Boganum í fyrra.
  • - Tveir bræður munduðu myndavélar á leiknum í gær. Annar tók lifandi myndir og hinn kyrrmyndir. Björgvin Kolbeinsson stóp uppi á vinnulyftu með tökuvél og sá til þess að fólk gæti horft á leikinn í beinni útsendingu í sjónvarpi á meðan Ármann Hinrik bróðir hans var á vappi með ljósmyndavél og stóra linsu að mynda það sem fram fór á vellinum. 
  • - Stigin í pokanum eru orðin sex eftir tvo fyrstu leikina. Undanfarin fjögur tímabil hefur Þór/KA unnið annan af fyrstu tveimur leikjum sínum. Síðast vann liðið tvo fyrstu leikina sumarið 2020, báða á heimavelli, 4-0 gegn ÍBV og 4-1 gegn Stjörnunni, en mótið fór loks af stað þann 13. júní það sumarið, út af dálitlu. Nú hefur liðið unnið tvo fyrstu leikina og er það aðeins í annað skiptið sem liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki Íslandsmótsins undir stjórn núverandi þjálfara, Jóhanns Kristins Gunnarssonar. Fyrra skiptið var 2012 þegar Þór/KA vann Stjörnuna heima 3-1 og svo KR úti 1-0. Sumarið endaði svo með Íslandsmeistaratitli, sællar minningar.
  • 7 - Karen María Sigurgeirsdóttir hefur verið iðin við að skora mörk á heimavelli gegn Tindastóli, og reyndar útivelli einnig. Hún hefur nú skorað sjö mörk á móti Tindastóli í deild og bikar á tæpum fjórum árum. Fyrsta ár Tindastóls í efstu deild vann Þór/KA 1-0 sigur 17. ágúst 2021. Karen María skoraði. Sumarið 2023 vann Þór/KA 5-0 sigur á heimavelli. Karen María skoraði eitt markanna fimm. Vorið 2024 vann Þór/KA aftur 5-0 sigur á heimavelli, í það skiptið í Boganum. Karen María skoraði eitt markanna fimm. Karen María skorar líka á móti Tindastóli á útivelli. Í fyrrasumar skoraði hún tvö mörk í 3-3 jaftefli á Sauðárkróksvelli og svo eitt mark í 2-1 sigri í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar. Sá leikur fór fram á Dalvíkurvelli. Sjöunda markið kom svo í 2-1 sigrinum í gær.
  • 25 - Títt nefnd Karen María skoraði sitt 25. mark í efstu deild í leiknum í gær.
  • 30 - Hildur Anna Birgisdóttir (2007) spilaði sinn 30. leik í meistaraflokki. Þar af er 21 leikur í efstu deild.
  • 40 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 40. leik í efstu deild og 80. leik í meistaraflokki. Þar af eru 54 fyrir Þór/KA, en hún spilaði 16 leiki fyrir Hamrana og tíu leiki fyrir Völsung.
  • 150 Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 150. leik í efstu deild. Samanlagt hefur hún spilað 217 leiki í meistaraflokki, alla fyrir Þór/KA.
  • 225 - Leikurinn var vel sóttur 225 manns á staðnum og heyrðist í stuðningsmönnum beggja liða í stúkunni, ef það er réttnefni á bekkjunum í Boganum.

Næstu leikir

  • Sunnudagur 27. apríl kl. 17 að Hlíðarenda
    Valur - Þór/KA
  • Laugardagur 3. maí kl. 14:30 í Boganum
    Þór/KA - FH
  • Fimmtudagur 8. maí kl. 18:00 í Fjarðabyggðarhöllinni
    FHL - Þór/KA
  • Laugardagur 17. maí kl. 16:15 á Lambhagavellinum
    Fram - Þór/KA