Besta deildin: Þór/KA mætir Fram í Boganum í dag

Þór/KA tekur á móti Fram í 15. umferð Bestu deildarinnar í dag. Flautað verður til leiks kl. 17 í Boganum. Athugið að aðalinngangur verður lokaður og ganga áhorfendur inn um miðjudyrnar eins og í fyrstu leikjum sumarsins.

Fyrri leikur þessara liða fór fram á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal, heimavelli Fram. Þór/KA vann þann leik 3-1 með tveimur mörkum Söndru Maríu Jessen og einu frá Amalíu Árnadóttur. Að loknum 14 umferðum er Þór/KA í 5. sæti deildarinnar með 21 stig, en Fram í 7. sætinu með 15 stig. Þór/KA vann FHL í Boganum í síðustu umferð, 4-0, en Fram tapaði 2-5 fyrir Víkingi á heimavelli.

Þremur leikjum er nú þegar lokið í 15. umferðinni:

  • Valur - Breiðablik 0-3
  • FH - Þróttur 3-0
  • Tindastóll - Víkingur 1-5

Leikir í dag:

  • FHL - Stjranan kl. 14
  • Þór/KA - Fram kl. 17

Víkingur stökk upp í 6. sætið með sigrinum á Tindastóli, sem þýðir að Fram færðist niður í 8. sætið og Tindastóll í 9. sætið.

Við þéttum raðirnar og höldum áfram að berjast fyrir hverjum sigri eins og ávallt. Með góðum stuðningi okkar fólks er allt hægt. Það skiptir máli að mæta, láta vel í sér heyra og hvetja stelpurnar til sigurs.

Þess má geta að Fram hefur fengið undanþágu til að ná sér í nýjan markvörð þar sem Elaina LaMacchia og Þóra Rún Óladóttir eru báðar frá vegna meiðsla og þriðji samningsbundni markvörður félagsins hefur haldið utan til náms. Fram hefur því samið við hina bandarísku Ashley Brown Orkus.