Besta deildin: Þór/KA mætir Keflavík í Boganum í dag

Fimmta umferð Bestu deildarinnar hefst í dag og okkar lið tekur á móti Keflvíkingum í Boganum. Leikurinn hefst kl. 18. Grillið verður glamrandi heitt fyrir leik og borgararnir eftir því. 

Staða liðanna í deildinni er ólík, en segir þó ekki alla söguna því það verða engir auðveldir leikir í Bestu deildinni í sumar. Þór/KA hefur nú unnið þrjá leiki í röð og situr í 3. sætinu með níu stig, þremur stigum á eftir Breiðablik og Val sem eru  með fullt hús. Keflvíkingum hefur hins vegar ekki enn tekist að ná sér í stig, sitja á botni deildarinnar eftir fjórar umferðir. Keflvíkingar unnu fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í fyrra, 2-1, á Akureyri, en Þór/KA vann 1-0 sigur í Keflavík.

Til gamans má geta þess að þessi lið hafa mæst 16 sinnum í efstu deild Íslandsmótsins, fyrst í júní 2006 og síðast í júlí í fyrra. Þór/KA hefur oftar haft betur, unnið tíu sinnum, einu sinni hefur orðið jafntefli og Keflavík unnið fimm leiki.