Besta deildin: Þór/KA og FH mætast í Boganum

Fjórða umferð Bestu deildarinnar er að hefjast og í dag tekur Þór/KA á móti FH í Boganum. Leikurinn hefst kl. 14:30.

Þór/KA er í 5. sæti deildarinnar með sex stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar, hefur unnið tvo leiki og tapað einum. Liðin fjögur fyrir ofan eru öll með sjö stig og andstæðingar dagsins, FH, þar á meðal. FH hefur unnið Fram á útivelli og FHL á heimavelli, en liðið gerði einnig markalaust jafntefli við Val á útivelli í fyrstu umferðinni. 

Enn og aftur skal á það minnt að öflugur stuðningur úr stúkunni skiptir máli og getur í jöfnum leikjum gert útslagið um það hver niðurstaðan verður. Þetta á ekki síst við um Bogann þar sem áhorfendur eru í mikilli nánd við leikmenn inni á vellinum og auðvelt að magna upp öfluga stemningu. 

Liðin hafa mæst 26 sinnum í efstu deild og Þór/KA haft betur í 18 leikjum. Fjórum sinnum hefur orðið jafntefli og fjórum sinnum hafa FH-ingar sigrað. Þrír af sigurleikjum FH hafa komið á Þórsvellinum á allra síðustu árum, 2024, 2023 og 2020. Þór/KA vann hins vegar síðustu viðureign liðanna á Akureyri, 1-0, þegar þau mættust í efri hluta deildarinnar í lok síðasta tímabils.

Breyting á aðgengi í Boganum

Athugið: Til að uppfylla öryggisreglur vegna leikmanna og dómara hefur aðgengi áhorfenda á leiki í Boganum verið breytt. Aðalinngangurinn verður lokaður fyrir leik og á meðan á leik stendur, en áhorfendur ganga inn um dyr á suðurhlið Bogans, rétt við girðinguna hjá framkvæmdasvæðinu á Ásnum. Sjá mynd. Gestir geta að sjálfsögðu einnig lagt á bílastæði við austurenda Bogans (á meðan þar er pláss) og gengið innum dyr á suðausturhorninu. 

Að sama skapi gilda áfram sömu reglur varðandi undirgöngin og salernin á neðri hæðinni í Hamri (við búningsklefa). Aðeins leikmenn, starfsfólk leiksins og starfsfólk hússins hefur aðgengi að undirgöngunum. Til að komast á salerni neyðast gestir leiksins því til að fara út um miðjudyrnar, ganga inn um aðalinngang Hamars og fara þar á salernið. Undanþága er að sjálfsögðu gerð fyrir hreyfihamlaða, sem geta fengið fylgd á salernin á neðri hæðinni.