Besta deildin: Þór/KA sækir FHL heim í dag

Þór/KA mætir liði FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í dag kl. 18 í 5. umferð Bestu deildarinnar.

Þessi lið hafa aldrei áður mæst í efstu deild enda var FHL sem félag stofnað fyrir örfáum árum og er nú á sínu fyrsta tímabili í Bestu deildinni. Fyrir leikinn í dag er Þór/KA í 5. sæti deildarinnar með sex stig, eftir tvo sigra og tvö töp, en FHL hefur ekki tekist að ná í stig ennþá. Þór/KA hefur unnið Víking og Tindastól, en tapað fyrir Val og FH. FHL hefur tapað fyrir Tindastóli, FH, Val og Fram.

Áður með liðum af Austurlandi í efstu deild

Þó Þór/KA og FHL hafi ekki mæst í efstu deild áður hafa lið frá Akureyri, bæði þau félög sem standa að Þór/KA og svo sameiginlegt lið félaganna undir heiti ÍBA mætt liðum af Austurlandi í efstu deild Íslandsmótsins áður. En það er nokkuð síðan það gerðist. 

  • Þór og KA voru með Hetti frá Egilsstöðum og Súlunni frá Stöðvarfirði í B-riðli 1. deildar 1984, sem þá var efsta deild. Þór vann riðilinn og fór í úrslitaleik gegn ÍA.
  • Þór og KA voru með Þrótti frá Neskaupstað í 1. deild (efstu deild) 1991. Þróttur var þá þrjú tímabil í efstu deild. Árið eftir voru Þór og Þróttur saman í efstu deild og árið 1993 voru ÍBA og Þróttur N. saman í efstu deild. Árið 1994 var svo Höttur í efstu deild, en þá var ekkert lið frá Akureyri í deildinni.
  • Þór, KA og ÍBA hafa samanlagt spilað 18 leiki gegn liðum af Austurlandi, Hetti, Súlunni og Þrótti N.
  • Lið FHL er núna í fyrsta skipti í efstu deild, en skammstöfunin stendur fyrir Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir. Lið Fjarðabyggðar samanstóð áður af Austra frá Eskifirði, Val frá Reyðarfirði og Þrótti úr Neskaupstað.

Leikir 5. umferðar

08.05. - Tindastóll - Breiðablik
08.05. - Valur - Þróttur R.
08.05. - FHL - Þór/KA
09.05. - Víkingur - Fram
09.05. - FH - Stjarnan

Staðan í Bestu deildinni