Karfan er tóm.
Þór/KA spilar síðasta útileik sinn á þessu tímabili í dag þegar liðið heldur austur á Reyðarfjörð og mætir FHL í Fjarðabyggðarhöllinni kl. 16:30. Leiktíma hefur verið breytt frá upphaflegri tímasetningu.
Fyrir leikinn í dag er Þór/KA í 7. sætinu og hefur nú þegar tryggt sér áframhaldandi veru í Bestu deildinni. FHL fær það hlutskipti að spila aftur í Lengjudeildinni eftir eins árs veru í efstu deild.
Fyrri leikur liðanna í deildinni í sumar, fyrir tvískiptingu, fór fram í Fjarðabyggðarhöllinni snemma í maí og var fjörugur. Lokatölur urðu 5-2 Þór/KA í vil þar sem Sandra María Jessen skoraði þrennu og þær Karen María Sigurgeirsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir eitt mark hvor. Liðin mættust síðan í Boganum í ágúst og þar hafði Þór/KA einnig sigur, 4-0, þar sem Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Sandra María Jessen og Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoruðu mörkin.