Besta deildin: Þór/KA tryggði sætið í efstu deild

Þriðja markið í uppsiglingu. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir einhvers staðar þarna á bakvið þvöguna ti…
Þriðja markið í uppsiglingu. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir einhvers staðar þarna á bakvið þvöguna tilbúin að skalla boltann í markið. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -

Með 3-0 sigri á Tindastóli í Boganum í gær tryggði liðið okkar sér áframhaldandi sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili. 

Eftir erfiðan kafla með fjórum tapleikjum í röð og sjö tapleikjum í síðustu átta leikjum seig liðið hægt og bítandi niður töfluna og endaði í 7. sæti deildarinnar fyrir tvískiptingu, sem sagt í neðri hlutanum, með 21 stig úr 18 leikjum. Fram náði Þór/KA að stigum, en okkar lið með betri markamun. Tindastóll var fjórum stigum á eftir og níu stig í pottinum í neðri hlutanum. Þór/KA þurfti þó ekki nema sigur í fyrsta leiknum, gegn Tindastóli í gær, til að tryggja veru sína í Bestu deildinni og það tókst.

Liðið er núna að klára 20. tímabilið í röð í efstu deild.

Það kom auðvitað ekkert annað en sigur til greina í gær og greinilegt að allir sem að leiknum komu áttuðu sig á því, mætingin í Bogann var mjög góð og stuðningurinn eftir því. 

Þór/KA - Tindastóll 3-0 (2-0)

  • 1-0 - Ellie Moreno (5'). Stoðsending: Jessica Berlin.
  • 2-0 - Sonja Björg Sigurðardóttir (43'). Stoðsending: Henríetta Ágústsdóttir.
  • 3-0 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (69'). Stoðsending: Henríetta Ágústsdóttir.
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin - neðri hluti
  • Mörkin - Instagram Bestu deildarinnar
  • 1-0
    Löng sending fram frá varnarmanni Tindastóls, Jessica kemur út fyrir teiginn og dúndrar boltanum fram þar sem Ellie stingur sér fram fyrir varnarmann Tindastóls og á skot rétt innan við vítateigslínunnar. Markvörður Tindastóls nær að snerta boltann, en ekki nóg til að koma í veg fyrir mark. Fyrsta markið sem Ellie skorar fyrir Þór/KA.
  • 2-0
    Karen María tekur hornspyrnu, Hulda Björg nær að skalla, en í varnarmann og upphefst þá mikill darraðadans í markteig Tindastóls. Hulda Ósk reynir hælspyrnu að marki, en markvörður Tindastóls ver, Hulda Ósk reynir aftur skot en aftur í varnarmann, síðan á Henríetta skot í varnarmann og fær boltann aftur, rennir honum til hægri á Sonju Björg sem leggur boltann fyrir sig og nær hnitmiðuðu skoti með vinstri, aðþrengd af varnarmönnum, í stöng og inn. 
  • 3-0
    Há sending kom fram vinstri kantinn þar sem Ellie á í baráttu við leikmann Tindastóls vinstra megin við vítateiginn og uppsker aukaspyrnu. Henríetta tekur aukaspyrnuna, sendir háan bolta yfir að fjærstöng þar sem Kimberley Dóra er mætt og skallar í markið.

Genevieve Jae Crenshaw, markvörður Tindastóls, hafði í nógu að snúast í leiknum og greip ófáar fyrirgafir leikmanna Þórs/KA. Mynd: Ármann Hinrik.

Ágæt stemning myndaðist í Hamri fyrir leik með tónlistaratriði, ísveislu frá Kjörís, andlitsmálningu og sjóðheitu grilli. Þegar á reynir stíga fram sjálfboðaliðar sem taka að sér að skipuleggja og gera viðburð úr upphitun fyrir leik. Ekki skemmdi heldur fyrir að félagið hafði ákveðið að bjóða bæjarbúum á leikinn og þar að auki var boðið upp á happdrætti með veglegum vinningum frá Skautahöllinni, Sprettinum, Sýn, AKINN og Zip Line Akureyri. Þá var í leikhléi boðið upp á sláarkeppni og valdir tveir þátttakendur frá hvoru félagi. Einn þeirra hitti í þverslána og fær að launum ísvél frá ELKO að verðmæti rúmlega 30.000 krónur. 

Við færum öllum sem tóku þátt í því að gera úr þessu skemmtilegan viðburð okkar bestu þakkir, sem og þeim fyrirtækjum sem gáfu vinninga í happdrætti og sláarkeppnina.

Tölur og fróðleikur

  • 1 - Ellie Rose Moreno skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þór/KA þegar hún kom liðinu í 1-0 á 5. mínútu leiksins.
  • 30 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir spilaði í gær sinn 30. leik í efstu deild.
  • 50 - Bríet Jóhannsdóttir spilaði í gær sinn 50. leik í efstu deild.
  • 50  Emelía Ósk Krüger spilaði í gær sinn 50. leik fyrir Þór/KA, á 19 ára afmælisdaginn sinn.
  • 70 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði í gær sinn 70. leik í efstu deild.
  • 70 - Angela Mary Helgadóttir spilaði í gær sinn 70. leik í meistaraflokki. 
  • 110 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði sinn 110. leik fyrir Þór/KA þegar liðið mætti Breiðabliki á Kópavogsvelli í 18. umferð Bestu deildarinnar. Agnes varð fyrir því óláni að fá olnboga í ennið og þurfti að fara af leikvelli eftir 32 mínútur. Hún var hins vegar mætt galvösk í vörnina í gær með glóðarauga og ennisband og gaf gestunum engin grið.
  • 320 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 320. leik í meistaraflokki í leiknum gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. 
  • 350 - Leikurinn gegn Tindastóli í gær var sá best sótti af heimaleikjum liðsins í sumar, 350 manns mættu í Bogann (talið skömmu fyrir leikhlé), og var góð stemning bæði fyrir leik í félagsheimilinu sem og á leiknum sjálfum. Stelpurnar voru vel studdar af Akureyringum og fyrir það erum við þakklát. Gaman væri að fá oftar þennan fjölda á leikina okkar.