Bestu þakkir til sjálfboðaliða!

Dagurinn í dag, 5. desember, er helgaður sjálfboðaliðum um allan heim. Af því tilefni hefur átakinu Alveg sjálfsagt verið hrint af stað.

Það þarf varla að fjölyrða um það hér að rekstur íþróttafélaga og -liða væri hreinlega ekki mögulegur ef ekki kæmi til gríðarlega mikil vinna fjölmargra sjálfboðaliða sem taka þátt í starfinu, hvort sem það er að fara í vesti og sinna gæslu á leikjum, vera í stjórn, afgreiða í sjoppu, vera í miðasölunni, sinna aðbúnaði liðsins á ýmsan hátt og selja alls konar varning svo eitthvað sé nefnt. Þór/KA byggir rekstur sinn og tekjur einnig mjög á framlagi iðkenda, foreldra og annarra velunnara með sjálfboðastarfi í fjáröflunarverkefnum á borð við vörutalningar, þrif á íbúðum og fleira í þeim dúr. Án þessarar vinnu gætum við beinlínis lagt félagið niður, hreinlega hætt starfinu, því þessi vinna gerir okkur kleift að halda úti því öfluga starfi sem við gerum.

Stjórn Þórs/KA sendir því ykkur öllum, okkar besta fólki sem gerir Þór/KA mögulegt að vera til, okkar bestu kveðjur í tilefni dagsins og þökkum ykkur ómetanlegt framlag ykkar til félagsins.

Í tilefni dagsins hefur mennta-og barnamálaráðuneytið ýtt úr vör átaki þar sem athygli er vakin á framlagi sjálfboðaliða hjá íþrótta- og félagasamtökum. Átakið heitir Alveg sjálfsagt, en nánar er fjallað um það í frétt á vef ÍSÍ - sjá hér.

Við grömsuðum í nokkrum myndaalbúmum og látum hér fylgja af handahófi myndir af nokkrum sjálfboðaliðum úr starfinu hjá Þór/KA á undanförnum árum. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi safn og ekki meint til að gera einhverjum hærra undir höfði en öðrum - bara myndir sem fljótlegt var að grípa til. 


Ljósmyndarar hafa verið okkur hliðhollir í áraraðir. Hér eru Sævar Geir Sigurjónsson og Skapti Hallgrímsson að bera saman bækur sínar. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

 


Heimsfaraldur og samkomutakmarkanir kölluðu á aukna vinnu sjálfboðaliða við sóttvarnir. Hér eru hjónin Ólína Freysteinsdóttir og Viðar Ólason, ásamt dótturinni Heiðu Ragney. Mynd: Palli Jóh.


Nói brá sér í hlutverk boltasækis á leik hjá 2. flokki. Mynd: Palli Jóh.


Stjórnin 2021-2022.


Heilsa og heilbrigði leikmanna skiptir verulegu máli og þar eiga þessar stóran þátt á undanförnum árum. Myndin var tekin á lokahófi haustið 2021. Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir, Anna Catharina Gros og Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net


Goðapylsurnar hvorki grilla sig né borða sig sjálfar. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson


Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson


Gæsla, fánaberar, boltasækjar og alls konar. Allt saman nauðsynlegur hluti af leiknum. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson


Stjórn Þórs/KA 2022-2023.


Kátir á lokahófi. Árni Jóhannesson og Rainer Jessen. Mynd: Þórir Tryggva


Þessi voru heiðruð á lokahófi 2022. Nói Björnsson og Jórunn Jóhannesdóttir. Mynd: Þórir Tryggva


Jói Páls hefur eldað óteljandi máltíðir ofan í stelpurnar í Þór/KA, aðstandendur og velunnara í gegnum tíðina. Leiðin að hjartanu liggur að sjálfsögðu í gegnum magann.
Mynd: Þórir Tryggva


Palli Jóh hefur mætt á næstum alla heimaleikina hjá Þór/KA í áraraðir. Við erum hætt að telja ... Mynd: Þórir Tryggva


Guðni Þór Ragnarsson og Rainer Jessen gæta Bestu deildar-skiltisins. Það fauk reyndar um koll síðar um sumarið og brotnaði. Mynd: Þórir Tryggva