Bikardagur hjá lánsleikmönnum

Una Móeiður Hlynsdóttir í leik með Þór/KA gegn Völsungi fyrr í vetur. í dag klæðist hún grænu treyju…
Una Móeiður Hlynsdóttir í leik með Þór/KA gegn Völsungi fyrr í vetur. í dag klæðist hún grænu treyjunni. Mynd: Þórir Tryggva

Fjórar Þór/KA-stelpur verða í eldlínunni í dag í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins - með Völsungi og Tindastóli.

Þrjár stelpur sem eru samningsbundnar Þór/KA eru í láni hjá Völsungi og hafa staðið sig vel, en það eru þær Amalía Árnadóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir. Liðið er komið í úrslitaleik C-deildar Lengjubikarsins þar sem Völsungur mæti ÍA þann 19. maí.

En í dag er það Mjólkurbikarinn, fyrsta umferð. Völsungur fær þá Einherja frá Vopnafirði í heimsókn til Húsavíkur.

Eins og fram kom í frétt hér fyrr í dag hefur Arna Kristinsdóttir verið lánuð til Tindastóls og þar á bæ er einnig á dagskrá leikur í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins, þegar Tindastóll tekur á móti liði HK úr Kópavogi. Í liði HK eru svo einnig leikmenn sem tengjast Þór/KA en í herbúðum Kópavogsliðsins eru þær Amanda Mist Pálsdóttir, Arna Sól Sævarsdóttir, Lára Einarsdóttir og Magðalena Ólafsdóttir, sem allar eiga að baki leiki með Þór/KA og/eða Hömrunum.