Þór/KA bikarmeistarar 3. flokks

Bikarmeistararnir. Fremri röð frá vinstri: Júlía Margrét Sveinsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Emelía Ó…
Bikarmeistararnir. Fremri röð frá vinstri: Júlía Margrét Sveinsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Emelía Ósk Kruger, Tinna Sverrisdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Angela Mary Helgadóttir, Rut Marín Róbertsdóttir, Karlotta Björk Andradóttir og Krista Dís Kristinsdóttir.

Aftari röð frá vinstri: Birkir Hermann Björgvinsson, Pétur Heiðar Kristjánsson, Bríet Jóhannsdóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Elísabet A. Stefánsdóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Amalía Árnadóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Emilía Björk Óladóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Katla Bjarnadóttir, Tiffany McCarty, Sonja Björg Sigurðardóttir og Ágústa Kristinsdóttir.

Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net

- - -

Þór/KA vann 2-0 sigur á Breiðabliki/Augnabliki í bikarúrslitaleik 3. flokks í dag.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni er kastað upp á (eða dregið um) hvar slíkir leikir fara fram og má því segja að Þór/KA hafi unnið hlutkestið því heimavöllur skiptir alltaf máli. Vel var mætt í stúkuna frá báðum félögunum og ágætis stemning, þrátt fyrir að september hafi skyndilega ákveðið að verða dálítið kuldalegur. Lagt var upp með að umgjörð leiksins yrði sem best, nánast eins og á meistaraflokksleikjum, með boltasækjum, vallarþul, opinni sjoppu og beinu streymi á Þór TV. Úr þessu varð hin ágætasta skemmtun fyrir áhorfendur þótt djúpt hafi verið á mörkum. Því miður var þó hökt á útsendingunni mestallan fyrri hálfleikinn og biðjumst við afsökunar á því.

Þór/KA var lengst af ívið sterkara liðið og meira ógnandi, en gestirnir í Breiðabliki/Augnabliki áttu þó sínar sóknir og fengu færi. Þór/KA átti þó bestu færin í fyrri hálfleik, eiginlega tvö dauðafæri, og hefðu hæglega getað náð forystunni, en sóknarmönnum voru eitthvað mislagðir fætur lengi vel. Markalaust í leikhléinu. 

Bæði lið sköpuðu sér færi í seinni hálfleiknum, Þór/KA heldur hættulegri, en gestirnir voru þó nálægt því að skora seint í leiknum þegrar þær áttu skot í þverslána á marki Þórs/KA. Það stefndi reyndar allt í framlenginu því venjulegur leiktími í seinni hálfleiknum var um það bil að renna út þegar okkar stelpum tókst loks að brjóta ísinn. Þór/KA hafði þá sótt nokkuð stíft og að lokum var það Hildur Anna Birgisdóttir, sem hafði komið inn sem varamaður ekki löngu áður, sem fékk boltann fyrir utan vítateig, lagði hann fyrir sig með hægri og átti glæsilegt skot með vinstri upp í markhornið fjær. Eftir markið lögðu gestirnir allt í sóknina, án þess þó að ná að skora, en rúmri mínútu eftir markið staðfesti Amalía Árnadóttir sigurinn þegar hún fékk boltann rétt utan markteigs eftir misheppnaða sendingu varnarmanna til baka og átti Amalía ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum í netið, 2-0, og sigurinn innsiglaður.

Í heildina var Þór/KA sterkara liðið, skoruðu tvö góð mörk og fyllilega verðskuldað krýndar bikarmeistarar í 3. flokki 2022 að leik loknum. Heimasíðan óskar stelpunum og þjálfurum innilega til hamingju með þennan titil. Þjálfarar 3. flokks eru Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Herman Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristinsson. Þeim til aðstoðar er einnig Tiffany McCarty.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Við auglýstum eftir myndum frá foreldrum og aðstandendum eftir leikinn og fengum frá nokkrum - birtum þær saman í myndaalbúmi - sjá hér.
Skapti Hallgrímsson, ritstjóri og eigandi akureyri.net, var á leiknum og tók þar skemmtilegar myndir sem sjá má í frétt hans á akureyri.net.

Mörkin má sjá á Instagram-síðu félagsins, í dag úr upptöku frá Þór TV og klippt af markverði liðsins, Tinnu Sverrisdóttur.

Syrpa úr leiknum frá verðlaunaafhendingu og fögnuði - með það að leiðarljósi að betra er að geyma of mikið en of lítið.