Karfan er tóm.
Stjórn Þórs/KA hefur samið við Birgittu Rún Finnbogadóttur (2008) um að leika með liðinu næstu þrjú árin. Birgitta Rún kemur til félagsins frá Tindastóli þar sem hún hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið undanfarin fjögur ár og ein af lykilleikmönnum liðsins undanfarin tvö ár.
Birgitta Rún er ein af efnilegustu leikmönnum á landinu og hefur nú þegar öðlast góða reynslu og sannað sig í efstu deild þrátt fyrir að vera aðeins á 18. aldursári. Hún er kröftugur sóknarmaður, baráttuglöð, sterk og sparkviss, ásamt fleiri kostum sem gera hana að áhugaverðri og öflugri knattspyrnukonu. Hún mun án efa styrkja Þór/KA með komu sinni til félagsins.
Birgitta Rún er Skagstrendingur, en lék með yngri flokkum Kormáks á Hvammstanga áður en hún skipti í Tindastól og hóf að leika á Sauðárkróki 2022, þá á 14. aldursári. Hún á að baki 64 leiki í meistaraflokki með Tindastóli í deild, bikar og deildabikar og hefur skorað tíu mörk í þeim leikjum. Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki með Tindastóli í ársbyrjun 2022, en spilaði fyrst í Bestu deildinni sumarið 2023. Birgitta Rún spilaði alla leiki Tindastóls í Bestu deildinni í fyrra, samtals 21 leik, og skoraði sjö mörk. Hún hefur leikið samtals 51 leik í efstu deild og skorað átta mörk. Þá á hún að baki tíu landsleiki með U19 og U18 landsliðum Íslands.

Birgitta Rún í leik með Tindastóli gegn Þór/KA í Boganum síðastliðið haust, í baráttu við Huldu Björg Hannesdóttur (24) og Henríettu Ágústsdóttur (27). Mynd: Ármann Hinrik.
Birgitta Rún var kjörin íþróttakona Ungmennasambands Austur-Húnavatnssýslu árið 2025 og var í öðru sæti í kjörinu árið áður.
Stjórn Þórs/KA fagnar komu þessa efnilega og spennandi leikmanns í okkar raðir og býður Birgittu Rún velkomna í okkar öfluga hóp. Félagið væntir mikils af henni í framtíðinni og verður spennandi að fylgjast með framgöngu hennar á nýjum vettvangi.