Bráðfjörugt jafntefli, Sandra María komin í 100 mörk

Sandra María Jessen ásamt dóttur sinni, Ellu Ylví, sem er nýorðin eins árs.
Sandra María Jessen ásamt dóttur sinni, Ellu Ylví, sem er nýorðin eins árs.

Þór/KA og ÍBV gerðu 3-3 jafntefli í 15. umferð Bestu deildarinnar í kvöld. Sandra María Jessen skoraði tvö mörk og var maður leiksins.

Gestirnir voru aðgangsharðari á fyrstu mínútunum. Fyrsta markið kom á 15. mínútu þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði fyrir ÍBV. Það liðu hins vegar ekki margar sekúndur frá því að Þór/KA byrjaði aftur á miðju og hafði jafnað í 1-1. Sandra María Jessen fékk þá boltann upp vinstri kantinn kom sér upp að endamörkum og sendi fastan jarðarbolta fyrir sem fyrirliði ÍBV sendi í eigið net. Jafnt eftir fyrri hálfleikinn.

Eftir aðeins um eina og hálfa mínútu í seinni hálfleiknum komust gestirnir aftur yfir, en þá var það Madison Wolfbauer sem skoraði með skoti utan úr teig eftir hornspyrnu og tilraun leikmanna Þórs/KA til að koma boltanum frá.

Stelpurnar í Þór/KA voru þó ekkert á því að gefast upp og Sandra María Jessen jafnaði í 2-2 með glæsilegu vinstrifótarskoti. Gestirnir hrifsuðu hins vegar forystuna aftur aðeins tveimur mínútum eftir mark Söndru, þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði sitt annað mark.

Þór/KA sótti án afláts undir lokin og loksins skilaði það marki – fyrst þegar Tiffany McCarty skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Unni Stefánsdóttur, en aðstoðardómari flaggaði Tiffany rangstæða. Forvitnilegt að sjá það á myndbandi.

Leikmenn Þórs/KA sýndu virkilega mikinn viljastyrk og karakter því þær gáfust ekki upp við þetta heldur héldu áfram að sækja og aftur kom fyrirgjöf frá hægri, nú frá Tiffany, og nú var það Sandra María Jessen sem skallaði boltann í markið.

Þarna voru um fimm mínútur eftir af venjulegum leiktíma og augljóst að leikmenn Þórs/KA vildu öll stigin því þær börðust áfram eins og ljón og reyndu að skapa sér færi, en mörkin urðu þó ekki fleir.

100 mörk Söndru Maríu, eða meira, eða minna

Sandra María hefur skorað mikið fyrir Þór/KA í gegnum tíðina og hefur nú skorað 81 mark í efstu deild. Það fer svo eftir því hvernig er talið hvort við segjum að seinna markið í kvöld hafi verið hennar 100 mark í mótsleikjum hér á landi eða ekki. Þurfum kannski að fara betur yfir tölfræðina.

Samkvæmt tölfræði á vef KSÍ skiptast mörk Söndru Maríu skiptast þannig:
A-deild - 81
Bikarkeppni - 11
Deildabikar - 4
Annað/óskilgreint - 2
Evrópukeppni - 1
Meistarakeppni KSÍ - 1

*Ef leikjalistinn er skoðaður koma þó aðeins þrjú mörk fram í leikjum í deildabikar. 
*Annað óskilgreint eru Kjarnafæðismótið og Faxaflóamótið.

Þessu til viðbótar hefur hún skorað sex mörk með A-landsliðinu. Sandra María hefur spilað auk þess spilað bæði í Tékklandi og Þýskalandi eins og kunnugt er, en við erum ekki með handbærar upplýsingar um markaskorun hennar þar.

Það var því vel við hæfi þegar hún var í leikslok valin okkar besta og fékk að launum gjafabréf frá Sprettinum.

Egill Bjarni Friðjónsson var á leiknum og mundaði myndavélina eins og oft áður. Hann sendi okkur 56 myndir sem komnar eru í myndaalbúm - sjá hér. 

Þrír mikilvægir leikir eftir

Þór/KA situr áfram í 8. sætinu eftir jafnteflið, nú með 14 stig, tveimur stigum meira en næsta lið.
Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef KSÍ.
Leikskýrslan á vef KSÍ.

Næsti leikur er gegn Keflavík á útivelli og hefst sá leikur kl. 14 sunnudaginn 18. september. Áfram eru allir leikir liðsins gríðarlega mikilvægir því hvert stig er dýrmætt. Nú eru aðeins tvö stig niður í fallsæti, en enn eru níu stig í pottinum.