Karfan er tóm.
Bríet Fjóla Bjarnadóttir hefur verið valin í landsliðshóp U17 sem fer til Slóveníu í nóvember til þátttöku í fyrstu umferð undankeppni EM 2025. Vikuna fyrir verkefnið með U17 landsliðinu verður hún við æfingar hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu IFK Norrköping.
Margrét Magnúsdóttir, þjálfari U17 landsliðsins, valdi 31 leikmann í æfingahóp sem kom saman til æfinga í lok liðinnar vikur og valdi í framhaldi af því 20 leikmenn sem fara með U17 landsliðinu til Slóveníu til þátttöku í undankeppni EM 7.-12. nóvember. Ísland mætir Færeyjum 8. nóvember og Slóveníu 11. nóvember. Bríet Fjóla var sú eina af stelpunum frá Akureyri í æfingahópnum sem var valin áfram í hópinn fyrir leikina í Slóveníu.
Áður en að þessu verkefni með U17 landsliðinu kemur er Bríet Fjóla hins vegar á leið til Svíþjóðar í nokkra daga til æfinga hjá úrvalsdeildarfélaginu IFK Norrköping. Bríet Fjóla fer út ásamt Jóhanni Kristni Gunnarssyni, fyrrverandi þjálfara Þórs/KA, og föður sínum Bjarna Frey Guðmundssyni.
Norrköping hefur fylgst vel með Bríeti Fjólu og hefur verið í sambandi við Jóhann Kristin og foreldra hennar og er nokkuð síðan að ákveðið var að hún færi út til æfinga hjá sænska félaginu.
Jóhann Kristinn segir heimsóknina til Norrköping enn eitt flotta skrefið á ferli Bríetar Fjólu. „Það er auðvitað merkilegt að fá boð frá sænsku úrvalsdeildarfélagi um að koma á reynslu. Bríet Fjóla hefur eðlilega vakið athygli enda hæfileikarnir miklir og framtíðin er hennar. En hún er auðvitað enn ung að árum og mikilvægt að taka öll þrepin í stiganum og flýta sér ekki of mikið. Þetta veit hún og þessi reynslutími með Norrköping er enn eitt flotta skrefið á hennar leið. Fá að máta sig við sterka atvinnumenn á æfingum með aðalliði félagsins,“ segir Jóhann Kristinn, spurður um væntanlega Svíþjóðarheimsókn.
IFK Norrköping á eftir tvo leiki í Damallsvenskan, sænsku úrvalsdeildinni, en keppni þar lýkur 8. nóvember. Liðið er í 5. sæti deildarinnar með 43 stig eftir 23 umferðir, stigi á eftir Djurgården. Meðal leikmanna sem eru á samningi hjá IFK Norrköping er Sigdís Bárðardóttir.

Bríet Fjóla Bjarnadóttir í leik gegn Stjörnunni í Boganum í sumar. Mynd: Ármann Hinrik.
Bríet Fjóla kom við sögu í 17 leikjum með Þór/KA í Bestu deildinni í á nýafstöðnu tímabili, auk tveggja leikja í Mjólkurbikarnum og sex leikja í Lengjubikar. Hún skoraði þrjú mörk í Bestu deildinni og eitt í Bikarkeppninni. Hún hefur nú þegar komið við sögu í 32 leikjum í Bestu deildinni og skorað þrjú mörk, og samtals 46 leikjum í meistaraflokki. Þá á hún að baki tíu leiki með yngri landsliðum Íslands, U15, U16 og U17.
Bríet Fjóla er fædd 2010 og er því einnig gjaldgeng með U16 landsliðinu. Hún var í lok tímabilsins verðlaunuð sem efnilegasti leikmaður meistaraflokks Þórs/KA.