Karfan er tóm.
Dagurinn í dag, 5. desember, er helgaður sjálfboðaliðanum. Í öllu íþróttastarfi eru sjálfboðaliðar ómissandi og ómetanlegir. Framlag þeirra heldur uppi íþróttastarfinu í landinu, jafnt hjá Þór/KA sem og hjá öðrum félögum og í hinum ýmsu íþróttagreinum.
Þór/KA reiðir sig mjög á störf sjálfboðaliða, eins og önnur félög, og gæti í raun ekki starfað án þeirra. Það er ekki flóknara en það. Félaginu er stjórnað af sjálfboðaliðum sem leggja á sig ómælda vinnu til að tryggja eðlilegt og áhugavert rekstrarumhverfi í kringum knattspyrnukonurnar okkar og liðin. Í kringum æfingar, leiki, ferðalög og allt sem gerist í kringum og í félaginu okkar eru alltaf starfandi sjálfboðaliðar sem halda starfinu gangandi, vinna alls konar vinnu og hjálpa til við hin ýmsu verkefni sem verða ekki talin upp hér í smáatriðum. Sjálfboðaliðar vinna líka hin ýmsu verk í fjáröflunarskyni fyrir félagið til að gera mögulegt að halda rekstrinum gangandi. Vinnustundirnar eru óteljandi, áhuginn óþrjótandi og mikilvægið ómetanlegt.
Sjálfboðaliðar, það er ykkur að þakka að Þór/KA er til. Þúsund þakkir fyrir ykkar framlag.
Á vef ÍSÍ er hægt að senda inn tilnefningar fyrir valið á Íþróttaeldhuga ársins 2025 og er dagurinn í dag lokadagur sem tekið er við tilnefningum. Á vef ÍSÍ segir meðal annars:
Um allt land leggja þúsundir sjálfboðaliða á sig ómælda vinnu, allt árið um kring til að halda starfi íþróttafélaga, íþróttahéraða og sérsambanda gangandi. Þetta eru hinir einu sönnu íþróttaeldhugar.
Til stendur að heiðra einstakling sem verið hefur eldhugi, samhliða vali á íþróttamanni ársins. Nefnast verðlaunin Íþróttaeldhugi ársins. Tilgangurinn er að vekja athygli á þeim einstaklingum sem gefið hafa tíma sinn til að efla íþróttastarfið og halda því gangandi. Leitað er eftir framúrskarandi sjálfboðaliðum sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarf, t.d. með því að vinna að framkvæmd móta/leikja, safna fjármunum, bæta aðstöðu, sitja í stjórnum eða auka þátttöku hvar á landinu sem er.