„Ekki hægt að biðja um betri byrjun á þessu móti“

Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari sagði eftir leik að þetta hafi verið fullkomin byrjun á mótinu, þrjú stig, mark skorað og fengu ekki mark á sig. Sandra María Jessen fyrirliði segir liðið vera á góðum stað og sigurinn gefa góðan tón fyrir sumarið.

„Ég hrósa leikmönnum fyrir leikstjórn. Þær stýrðu leiknum og tempóinu stærstan hluta leiksins. Leikstjórnin hjá okkar stelpum hér á erfiðum útivelli, þrátt fyrir ungan aldur hjá stórum hluta liðsins, mér fannst hún til fyrirmyndar. Þar voru þær spila langt umfram aldur,“ sagði Jóhann Kristinn þjálfari áður en hann yfirgaf Garðabæinn. Hann segir stigin þrjú algjörlega og fyllilega verðskulduð, liðið hafi haldið hreinu og skorað gott mark. „Við hefðum getað sett fleiri mörk og vorum ekki að gefa mörg færi á okkur. Það er ekki hægt að biðja um betri byrjun á þessu móti.“

Sandra María Jessen hefur verið mikið í umræðunni í fjölmiðlum í aðdraganda mótsins, ekki að ástæðulausu þar sem hún er í frábæru formi, hefur raðað inn mörkum í vetur og átti endurkomu inn í landsliðshópinn fyrr í mánuðinum. Hún hélt uppteknum hætti og skoraði eina mark leiksins í gær.

„Ég er fyrst og fremst bara rosalega stolt af liðinu. Þetta var mikill og góður iðnaðarsigur sem við unnum fyrir með góðri baráttu og liðsheild,“ sagði Sandra María í rútunni áður en lagt var af stað heim. „Við lögðum klárlega 110% í þetta og það skilaði sigrinum. Það er ekki annað hægt en að vera sátt með að ganga frá Garðabæ og vera með þrjú stig. Þetta setur góðan tón fyrir sumarið og nú verður bara spennandi að undirbúa sig fyrir næsta leik og gera hann líka vel. Ég held að hópurinn sé bara á góðum stað.“

Hún tók líka undir með fréttaritara um að sigurinn hafi verið verðskuldaður. „Jú, þetta var verðskuldað. Sigur er alltaf sigur. Leikurinn snýst um að skora fleiri mörk og við skoruðum fleiri mörk en þær.“