EM: Fyrsti leikur Íslands í dag kl.16

Sandra María Jessen verður vonandi í eldlínunni í dag þegar Ísland mætir Finnlandi í fyrsta leik liðsins á EM í Sviss. Leikurinn hefst kl. 16 og verður í beinni á Rúv.

Leikur Íslands og Finnlands er opnunarleikur mótsins, en gestgjafarnir í Sviss mæta Noregi kl. 19. Búast má við jafnri og spennandi keppni í riðli Íslands á EM þar sem mótherjarnir eru gestgjafarnir í Sviss ásamt Finnum og Norðmönnum. Ísland er efst þessara þjóða á nýjasta styrkleikalista FIFA, er í 14. sæti listans og fellur um eitt sæti frá næsta lista á undan. Noregur er í 16. sæti, Sviss í 23. sæti og Finnland í 26. sæti. 

Allir leikir mótsins verða í beinni hjá Sjónvarpinu – RÚV og RÚV2 – og ítarlega umfjöllun má einnig finna á vef Rúv.

Sextán þjóðir taka þátt í lokamóti EM. Spilað er í fjórum fjögurra liða riðlum og fara tvö efstu lið hvers riðils áfram í átta liða úrslit.

Riðlarnir:

  • A: Ísland, Noregur, Sviss, Finnland
  • B: Belgía, Ítalía, Portúgal, Spánn
  • C: Danmörk, Þýskaland, Pólland, Svíþjóð
  • D: England, Frakkland, Holland, Wales

Leikir Íslands í riðlinum:

  • Miðvd. 2. júlí kl. 16 - Arena Thun
    Ísland - Finnland

  • Sunnud. 6. júlí kl. 19 - Wankdorf Stadium
    Sviss - Ísland

  • Fimmtud. 10. júlí kl. 19 - Arena Thun
    Noregur - Ísland

Fyrsti leikur, fyrsta snerting, fyrsta mark

Sandra María á að baki 54 A-landsleiki og skoraði sitt sjöunda landsliðsmark í 3-1 sigri á Serbíu í æfingaleik í lok júní. Hún hefur reyndar spilað allmarga landsleiki sem bakvörður eða vængbakvörður, en hefur verið í framlínunni í leikjum liðsins á þessu ári.

Sandra María kom í fyrsta skipti við sögu í landsleik þegar hún kom inn af varamannabekknum á 72. mínútu í 1-1 jafntefli í æfingaleik gegn Skotum á Cappielow Park í Skotlandi 4. ágúst 2012. Þremur mínútum síðar skoraði hún sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið með sinni fyrstu snertingu í leiknum. Í leikmannahópi Íslands í þessum leik 2012 voru tvær sem einnig eru með landsliðinu á EM í Sviss. Glódís Perla Viggósdóttir var í byrjunarliðinu og Dagný Brynjarsdóttir varamaður eins og Sandr aMaría.

EM í Sviss er annað stórmótið sem Sandra María fer á með landsliðinu, en hún var einnig í A-landsliðshópnum á EM 2017 sem fram fór í Hollandi. Hún kom reyndar lítið við sögu í leikjum liðsins á EM 2017, kom inn af varamannabekknum á 83. mínútu í lokaleik liðsins í riðlakeppninni, 0-3 tapleik gegn Austurríki. Nokkrum mánuðum áður meiddist hún í landsleik á Algarve Cup, á 25. mínútu í fyrsta leik liðsins á mótinu, og stóð tæpt að hún næði að komast aftur af stað í tíma til að eiga möguleika á landsliðssæti. Hún missti af þremur fyrstu leikjum Þórs/KA í Íslandsmótinu vegna meiðslanna sem hún hlaut í landsleiknum. Hún missti reyndar alveg af EM 2013 eftir krossbandaslit í mars á því ári, en hafði þá þegar spilað fjóra landsleiki á árinu.

Af landsleikjunum 54 sem Sandra María hefur spilað er tæplega helmingur, 23 leikir, á undanförnum þremur árum, 2023-2025. Tvö árin þar á undan spilaði hún enga landsleiki þar sem hún var í barnsburðarfríi frá fótboltanum, en hefur komið tvíefld aftur inn í landsliðið og auðvitað hópinn hjá Þór/KA einnig. Árið 2025 gæti því orðið metár hjá Söndru Maríu í fjölda A-landsleikja því vonandi á hún eftir að bæta að minnsta kosti þremur leikjum við í Sviss, vonandi fleirum, auk þess sem landsliðið mætir Norður-Írlandi í tveimur umspilsleikjum í Þjóðadeildinni í október. 

Landsleikir Söndru Maríu eftir árum:

  • 2012: 3
  • 2013: 4
  • 2014: 0
  • 2015: 4
  • 2016: 6
  • 2017: 3
  • 2018: 4
  • 2019: 4
  • 2020: 3
  • 2021: 0
  • 2022: 0
  • 2023: 7
  • 2024: 9
  • 2025: 7

Sandra María Jessen er klár í slaginn á EM. Mynd: KSÍ.

MARK! Sandra María skoraði eitt þriggja marka Íslands í sigri á Serbum í lokaleik liðsins í undirbúningi fyrir EM. Vonandi fáum við að sjá þessa mynd reglulega á samfélagsmiðlum á næstu dögum. Mynd: KSÍ.