Enn ein markaveislan og þriðji sigurinn

Þór/KA sigraði Þrótt í þriðja leik liðsins í Lengjubikarnum. Sandra María Jessen skoraði þrennu og átti tvær stoðsendingar.

Bríet Jóhannsdóttir skoraði tvívegis á fyrsta stundarfjórðungnum og Sandra María Jessen bætti við þriðja markinu áður en hálftími var liðinn. Öll mörkin í fyrri hálfleiknum komu eftir skyndisóknir. Þriggja marka forysta í leikhléi. Fljótlega í seinni hálfleiknum minnkuðu Þróttarar muninn, en ekki löngu síðar svöruðu Margrét Árnadóttir og Sandra María með mörkum á um þriggja mínútna millibili sem bæði komu eftir pressu frá Þór/KA á varnarmenn Þróttar. Sjötta markið kom svo eftir hornspyrnu þegar Sandra María kláraði þrennuna, en skömmu síðar minnkuðu Þróttarar muninn og þar með var átta marka veislu lokið með 6-2 sigri.

  • 1-0 - Bríet Jóhannsdóttir (8'). Stoðsending: Sandra María Jessen.
    Fyrsta mark leiksins kom á 8. mínútu. Þróttarar voru í sókn, fyrirgjöf sem Margrét Árnadóttir skallaði frá og Karen María Sigurgeirsdóttir sendi boltann fram vinstra megin þar sem Sandra María Jessen stakk varnarmann Þróttar af. Þegar hún kom inn í teig renndi hún boltanum fyrir markið þar sem Bríet Jóhannsdóttir var mætt og skoraði auðveldlega.
  • 2-0 Bríet Jóhannsdóttir (15'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
    Aftur v
    ann Þór/KA boltann í vörninni, hann barst fram undir miðju á Söndru Maríu sem lagði hann til baka þar sem Karen María Sigurgeirsdóttir átti sendingu í gegn og Bríet Jóhannsdóttir var aftur á ferðinni, fór inn í teig, lék á varnarmann Þróttar og skoraði sitt annað mark.
  • 3-0 Sandra María Jessen (29'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
    Karen María á sendingu fram hægri kantinn, Hulda Ósk tekur sprettinn og sendir hann í fyrstu snertingu fyrir markið, hárnákvæmt milli varnarmanna og markmanns, á Söndru Maríu sem skorar af stuttu færi.
  • 3-1 Sjálfsmark (49')
  • Þróttarar komast í skyndisókn upp hægra megin, sending fyrir markið fer í varnarmann Þórs/KA og þaðan í markið. Munaði reyndar mjög litlu að Harpa næði að verja.
  • 4-1 Margrét Árnadóttir (57'). Stoðaending: Sandra María Jessen.
    Margrét Árnadóttir fékk boltann eftir markspyrnu Þróttara, tók léttan þríhyrning með Söndru Maríu og átti svo gott skot vinstra megin úr teignum í fjærhornið.
  • 5-1 Sandra María Jessen (60'). 
    Sandra María Jessen fékk boltann frá varnarmanni Þróttar upp við vítateig eftir pressu, spilaði inn í teiginn og skoraði.
  • 6-1 Sandra María Jessen (81'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
    Karen María Sigurgeirsdóttir tók hornspyrnu, markvörður Þróttar sló boltann út í teiginn þar sem Sandra maría var klár og skoraði af stuttu færi.
  • 6-2 Freyja Karín Þorvarðardóttir (83'). Stoðsending: Ísabella Anna Húbertsdóttir.
    Þróttarar náðu að minnka muninn skömmu síðar. Þá kom fyrirgjöf frá hægri kanti, Ísabella Anna Húbertsdóttir lagði hann til hliðar og Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði af stuttu færi, munaði reyndar afar litlu að Harpa næði að verja.

Þór/KA - Þróttur 6-2 (3-0)

Þór/KA hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína í riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins og er á toppi riðilsins með níu stig. Sæti í undanúrslitum er þó ekki tryggt þó stigin hafi skilað sér og markatalan sé hreint ágæt, 18-2. Tvö efstu lið riðilsins fara í undanúrslit. FH og Víkingur eru með sex stig og Stjarnan með fjögur. Öll liðin hafa leikið þrjá leiki.

Tvær umferðir eru eftir og verða þær spilaðar um næstu og þarnæstu helgi. 

Næst

  • Mót: Lengjubikar kvenna, A-deild, riðill 2
  • Leikur: FH - Þór/KA
  • Staður: Skessan
  • Dagur: Laugardagur 9. mars
  • Tími: 14:00