Enn von um sæti í undanúrslitum

Þrátt fyrir tap gegn Þrótti í gær hefur Þór/KA það enn í sínum höndum að komast áfram í undanúrslit Lengjubikarsins.

Leikurinn gegn Þrótti í gær átti upphaflega að fara fram á heimasvæði Þróttar, en vegna kulda var hann færður í Egilshöllina og hófst ekki fyrr en kl. 21. 

Þór/KA byrjaði betur og náði með pressu að vinna boltann og skora strax á 7. mínútu. Sandra María komst þá inn í sending á milli varnarmanna Þróttar og skoraði. Þetta var áttunda mark hennar í mótinu. Markið var jafnframt það fyrsta sem Þróttur fær á sig í mótinu. Það leið þó ekki á löngu þar til Þróttarar jöfnuðu. Katherine Cousins fékk þá boltann í teignum eftir hornspyrnu og tilraun til að hreinsa frá og náði að þræða hann á milli fjölda leikmanna í teignum. Jafnt var í leikhléi, 1-1. Strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks kom Katla Tryggvadóttir Þrótturum í 2-1 og Sæunn Björnsdóttir kláraði leikinn með marki á 83. mínútu.

Með sigrinum tryggðu Þróttarar sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins, en Þór/KA á enn möguleika á sæti þar þrátt fyrir tapið. Þróttur er með 12 stig í efsta sætinu, Þór/KA með níu og síðan koma Valur, FH og Selfoss með þrjú stig hvert, en eiga leik til góða á efstu liðin. Tveir leikir verða í riðlinum á morgun. Valur tekur á móti FH og Selfoss tekur á móti KR. Lokaleikur Þórs/KA í riðlinum verður gegn Selfossi sunnudaginn 19. mars kl. 16:30.

Þróttur – Þór/KA 3-1 (1-1)
0-1 - Sandra María Jessen (7’)
1-1 - Katherine Cousins (13’)
2-1 - Katla Tryggvadóttir (47’)
3-1 - Sæunn Björnsdóttir (83’)

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Mörkin (VEO-upptaka)