Félag fullt af meisturum: 3. flokkur 2023

Næstum allar mættar! Alls kom 41 leikmaður úr árgöngum 2007 og 2008 við sögu í leikjum liðanna þrigg…
Næstum allar mættar! Alls kom 41 leikmaður úr árgöngum 2007 og 2008 við sögu í leikjum liðanna þriggja sem Þór/KA tefldi fram í 3. flokki. Af þeim voru 38 mættar á lokahófið.

Þór/KA sendi þrjú lið til keppni á Íslandsmótinu í 3. flokki, eitt í keppni A-liða og tvö í keppni B-liða. Liðin okkar spiluðu samtals 49 leiki í Íslandsmóti og bikarkeppni á tímabilinu.

Þessi samantekt er til gamans gerð (af tölfræðisjúkum fréttaritara) og eins og áður ber að hafa í huga að þó hér sé meðal annars farið yfir það hvaða leikmenn skoruðu mest er ekki þar með ætlunin að gera minna úr þeim sem ekki skora mörkin. Það að spila – og vinna – fótboltaleik felst í svo mörgu öðru en bara því hver á spyrnuna sem kemur boltanum í markið. Liðin okkar eru full af frábærum leikmönnum með mismunandi hæfileika fyrir mismunandi stöður á vellinum – allt saman meistarar á einhverju sviði þegar vel er að gáð. Tölfræðin er kremið á kökuna, skreyting að loknu skemmtilegu tímabili.

Sá skemmtilegi endir varð á keppnistímabili B-liðanna okkar að þau mættust í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil B-liða. Úrslitaleikurinn varð hin besta skemmtun og endaði með 3-2 sigri B1-liðsins, en segja má að félagið í heild hafi verið sigurvegarinn.

Hér hafa verið klippt saman mörkin og verðlaunaafhendingin:

Upptaka af úrslitaleik liðanna tveggja er aðgengileg á YouTube-rásinni okkar:

Góðvinur Þórs/KA, Egill Bjarni Friðjónsson, mætti á úrslitaleikinn og myndaði bæði í leiknum sjálfum og svo verðlaunaafhendinguna - myndaalbúm.

Æfingafélagar alla daga, keppinautar um titilinn, sameinaðar í leikslok. Aftari röð frá vinstri: Ágústa Kristinsdóttir þjálfari, Anna Lovísa Arnarsdóttir, Kristín Emma Hlynsdóttir, Marsibil Stefánsdóttir, Sunneva Elín Sigurðardóttir, Gyða Rún Alfreðsdóttir, Dagbjört Rós Hrafnsdóttir, Stefani Gusic, Elsa Dís Snæbjarnardóttir, Arney Elva Valgeirsdóttir, Eva S. Dolina-Sokolowska, Erika Rakel Melsen Egilsdóttir, Þórhildur Stefánsdóttir, Dagmar Eva Þorbjörnsdóttir, Margrét Árnadóttir þjálfari og Hulda Björg Hannesdóttir þjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Sunna Þórveig Guðjónsdóttir, Karítas Anna Fossberg Leósdóttir, Eva Hrund Hermannsdóttir, Edda Júlíana Jóhannsdóttir, Inga Sóley Jónsdóttir, María Elísabet Gestsdóttir, Rósa Signý Guðmundsdóttir, Tinna Dís Hafdal Axelsdóttir, Katia Marína Da Silva Gomes, Auðbjörg Eva Häsler, Júlía Karen Magnúsdóttir, Ásdís Hannesdóttir, Rósa María Hjálmarsdóttir, Rakel Eva Guðjónsdóttir og Sóley Eva Guðjónsdóttir. Vantar á mynd: Karen Dögg Birgisdóttir. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Lokahóf og verðlaunahafar

Nýlega komu stelpurnar í 3. flokki saman ásamt þjálfurum í létt lokahóf þar sem meðal annars voru afhent verðlaun, besti leikmaður og leikmaður leikmannanna í hverju liði fyrir sig. Hér að neðan er dálítil samantekt og tölfræði eftir tímabilið.

Alls komu 52 leikmenn við sögu í leikjum liðanna í 3. flokki í sumar. Þar af voru 11 fæddar 2009 og 2010 og spiluðu einnig með 4. flokki hjá Þór og KA.

  • A - besti leikmaður: Hildur Anna Birgisdótti
  • A - leikmaður leikmannanna: Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir
  • B1 - besti leikmaður: Eva S. Dolina-Sokolowska
  • B1 - leikmaður leikmannanna: Eva Hrund Hermannsdóttir
  • B2 - besti leikmaður: Rakel Eva Guðjónsdóttir
  • B2 - leikmaður leikmannanna: Erika Rakel Melsen Egilsdóttir

 


Fimm af sex verðlaunahöfum í 3. flokki. Hildur Anna Birgisdóttir, Rakel Eva Guðjónsdóttir, Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Eva Hrund Hermannsdóttir og Erika Rakel Melsen Egilsdóttir. Eva S. Dolina-Sokolowska var fjarverandi.

Mismargir leikir A og B-liða

Liðunum í Íslandsmóti B-liða var skipt í þrjá riðla og voru því miður ekki jafn mörg lið í öllum riðlunum, sjö í einum og sex í tveimur. Leikin var tvöföld umferð í riðlunum og síðan úrslitakeppni fjögurra liða (1A, 2A, 1B og 1C). Leikir B-liðanna urðu því ekki margir og mætti KSÍ að ósekju huga að uppsetningu mótsins með það í huga að lið sem ekki komust upp úr B- og C-riðlum fengu aðeins tíu mótsleiki í sumar. Okkar stelpur fengu örlítið fleiri þar sem þær fóru alla leið í úrslitaleikinn. Þór/KA (B1) spilaði 12 leiki í riðlinum og tvo í úrslitakeppninni, en Þór/KA2 (B2) spilaði tíu leiki í riðlinum og tvo í úrslitakeppninni.

Bæði B-liðin unnu sína riðla

Þór/KA (B1) vann tíu leiki af 12 í riðlinum, gerði eitt jafntefli og tapaði einum. Jafnteflið og tapleikurinn komu reyndar á móti sama liðinu, HK. Þór/KA vann riðilinn með yfirburðum, endaði með 31 stig, en næstu tvö lið voru með 18 stig. Stelpurnar unnu lið Breiðabliks/Augnabliks2 í undanúrslitunum, 3-0, og tryggðu sér Íslandsmeistaratitil B-liða með 3-2 sigri á Þór/KA2 í úrslitaleik sem fram fór í Boganum 28. september.

Samtals skoruðu stelpurnar í B1 67 mörk, þar af 61 mark í riðlinum og sex mörk í úrslitakeppninni. Liðið fékk á sig aðeins 18 mörk í 14 leikjum. Alls voru það 14 leikmenn sem skoruðu mörkin fyrir B1 í sumar.

Eva S. Dolina-Sokolowska raðaði hreinlega inn mörkunum fyrir Þór/KA í A-riðlinum, skoraði 19 mörk, þar af í 17 í riðlinum og tvö í úrslitakeppninni, markadrottning Íslandsmóts B-liða. Eva Hrund Hermannsdóttir skoraði 11 mörk fyrir B1. Karítas Anna F. Leósdóttir skoraði sjö mörk fyrir B1, en hún spilaði leiki með báðum liðum og skoraði 11 mörk fyrir B2, samtals 18 í Íslandsmóti B-liða.

Þór/KA2 (B2) vann níu leiki af tíu í riðlinum, markatalan 37-12, og endaði með 27 stig. Næsta lið var Völsungur/Einherji með 18 stig. Eini tapleikur liðsins kom einmitt á móti Völsungi/Einherja í Boganum, 0-2. Liðið vann Gróttu/KR 3-0 í undanúrslitum en tapaði 3-2 fyrir Þór/KA (B1) í úrslitaleiknum sem fram fór í Boganum 28. september.

Samtals skoraði B2-liðið 42 mörk á tímabilinu, 37 í riðlinum og fimm mörk í úrslitakeppninni. Liðið fékk á sig samtals 15 mörk í 12 leikjum.

Karítas Anna F. Leósdóttir var markahæst hjá B2 eins og áður sagði, skoraði átta mörk, Rósa Signý Guðmundsdóttir kom næst með sex mörk og Júlía Karen Magnúsdóttir fjögur. Gaman að segja frá því að 16 leikmenn skoruðu fyrir B2 í sumar.

Unnu eina lotu af þremur

Keppni A-liða fer fram í þremur lotum þar sem lið færast upp og niður á milli A, B og C-riðils eftir árangri í hverri lotu fyrir sig og sigurvegari þriðju lotu í A-riðli er Íslandsmeistari.

Þór/KA vann fyrstu lotuna í A-riðli, vann sex leiki og gerði eitt jafntefli, endaði lotuna með 19 stig. Því miður tókst ekki að fylgja þessari góðu byrjun eftir og í lotu 2 endaði liðið í 4. sæti með fjóra sigra og þrjú töp, eða 12 stig. Í þriðju lotu komu tveir sigrar, eitt jafntefli og fjögur töp og endaði liðið í 6. sæti.

Þór/KA átti eitt lið í bikarkeppni KSÍ og komust stelpurnar í átta liða úrslit.

Í samtals 23 leikjum A-liðsins í þremur lotum Íslandsmótsins og bikarkeppninni skoraði Ísey Ragnarsdóttir mest fyrir Þór/KA, 20 mörk. Bríet Fjóla Bjarnadóttir, sem einnig lék með 4. flokki KA í sumar, skoraði 18 mörk með A-liði 3. flokks.