Fiðringurinn, frammistaðan, frábær stuðningur og ferð til Húsavíkur

Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Jóhann Kristinn Gunnarsson.

Jóhann Kristinn Gunnarsson er með skilaboð til okkar eftir gærdaginn og reyndar líka spennandi fréttir um framtíðina, að minnsta kosti nánustu framtíð.

Frammistaðan inni á vellinum var því miður ekki í takt við fjölmennið og stuðninginn í stúkunni, spenna yfir fyrsta heimaleiknum sem ekki tókst að nýta á réttan hátt í leiknum. En nú er ekki tími fyrir afsakanir heldur snúa sér að næsta verkefni og takast á við það.

Í dag heldur æfingahópur meistaraflokks og 2. flokkur U20 til Húsavíkur þar sem tekin verður endurheimtaræfing með meistaraflokki Völsungs, en þær voru að spila sinn fyrsta leik í 2. deildinni í gær. Heimsóknin er til að innsigla samstarf sem hefur verið í gangi í tilraunaskyni í vetur og mun halda áfram.

Hér er pistill Jóhanns.

Bakslag

Það var frábært að sjá allt fólkið í stúkunni í gær og finna stuðninginn frá fólkinu okkar í Þór/KA. Kærar þakkir þið öll sem lögðuð leið ykkar á völlinn til að sjá liðið okkar spila. Vonandi sjáum við ykkur öll aftur næst!

Umgjörðin á leiknum var frábær og við í liðinu viljum þakka sjálfboðaliðum, stjórn og öllum sem komu að þessum degi kærlega fyrir að gera þetta svona glæsilegt. Við þökkum betur fyrir okkur á vellinum næst!

Það var fiðringur í maganum á okkur öllum að spila fyrsta heimaleikinn í sumar og við vildum svo innilega gera vel. Bæði fyrir baráttuna í deildinni og fyrir stuðningsfólkið okkar. Það er því miður þannig að ef maður gætir sín ekki og vandar sig þá vill það til að svona fiðringur getur orðið að smávegis hnút sem þvælist fyrir. Hann getur haft áhrif á okkur og hvernig við gerum hlutina. Jafnvel ákvarðanatökur. Nú erum við þegar farin að vinna í því að bæta okkur svo fiðringurinn verði bara áfram fiðringur og losi jákvæða orku í staðinn fyrir að vinna gegn okkur. Þetta er eitt af ótal mörgum hlutum sem við sem leikmenn og manneskjur þurfum að læra og kynnast betur. Mikilvæg og harkaleg lexía sem við fengum í þessum málum í gær.

Deildin verður sterk í sumar og við vorum svo sannarlega minnt á það. Við viljum ekki trúa því að við höfum vanmetið andstæðinginn fyrir leik en við kannski ofmátum aðstæður og gleymdum aðeins grunngildunum eftir góða byrjun á mótinu. Við gleymum því ekki aftur að til að fá eitthvað út úr leikjum þurfum við öll að leggja okkur 100% fram og berjast gegnum öll augnablik leiksins. Annars er okkur refsað og það getur orðið dýrt.

Við ætlum ekki að tína til afsakanir og varpa ábyrgðinni á eitthvað annað en okkur sjálf. Með þeim hætti vöxum við betur og döfnum sem leikmenn, lið og þjálfarar. Við vitum að við getum gert mikið betur en í gær og þetta var bakslag sem getur komið fyrir bestu lið. Nú er það okkar að passa að þetta sé bakslagið í sumar. Læra af því og setja það svo aftur fyrir okkur. Horfa fram á veginn.

Samstarf við Völsung

Í dag fer allur hópurinn okkar, meistaraflokkur og 2. flokkur (u20) til Húsavíkur og æfir þar með meistaraflokki Völsungs. Þannig innsiglum við formlega samstarf milli félaganna sem verður vonandi sem lengst.

Samstarfið snýst um að leikmenn frá okkur í Þór/KA leika með Völsungi í 2. deildinni og styrkja þar með liðið og ná sér í dýrmæta leikreynslu sem bætir þær og styrkir okkar lið í framtíðinni.

Þjálfurum Völsungs stendur til boða að kynna sér starfið og fylgjast með undirbúningi fyrir leik í Bestu deildinni. Samstarf og samvinna þjálfara félaganna verður virk og gegnum video og samráð verður vel fylgst með okkar leikmönnum sem taka þátt í leikjum Völsungs. Okkar leikmenn eru einnig gjaldgengar með U20 hjá Þór/KA í mótum sumarsins.

Leikmenn Völsungs sem eru í skóla á Akureyri eiga möguleika að æfa með Þór/KA.

Þegar efnilegir leikmenn Völsungs koma upp og þyrftu að máta sig við hærra getustig er Þór/KA þeirra fyrsta skref.

Allur hópurinn tekur þátt í endurheimt og fótboltaæfingu og býður Völsungur í mat á eftir og svo í sjóböðin (Geosea) áður en heim er haldið. Hópurinn sem fer saman í þetta telur um 40 stelpur. Tilvalin leið til að hrista af sér vonbrigði gærdagsins, þétta raðirnar og setja stefnuna á næsta leik!

Áfram Þór/KA!