Fjórar Þór/KA-stelpur með U-landsliðum

Krista Dís Kristinsdóttir og Angela Mary Helgadóttir æfa með U17 landsliðinu í janúar.
Krista Dís Kristinsdóttir og Angela Mary Helgadóttir æfa með U17 landsliðinu í janúar.

Tvær frá Þór/KA eru í æfingahópi U17 landsliðsins og tvær í úrtakshópi U15 landsliðsins.

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U17, hefur valið 24 leikmenn fyrir æfingar sem fram fara í Miðgagði í Garðabæ og á Kópavogsvelli dagana 8.-11. janúar. Fram undan eru næg verkefni hjá U17 landsliðinu, en æfingarnar núna eru liður í undirbúningi liðsins fyrir verkefni á fyrri hluta ársins, að því er fram kemur í frétt á vef KSÍ. U17 landsliðið fer nefnilega á æfingamót í Portúgal 2.-8. febrúar þar sem liðið mætir Portúgölum, Englendingum og Finnum. Í mars er svo komið að seinni umferð undankeppni EM 2023 þar sem Ísland mætir Albaníu og Lúxemborg.

Í hópnum sem kemur saman til æfinga núna í janúar eru tvær frá Þór/KA, Angela Mary Helgadóttir og Krista Dís Kristinsdóttir.

Tvær í U15

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U15 landsliðs kvenna, hefur einnig valið 30 leikmenn til að koma saman á úrtaksæfingum sem fram fara í Miðgarði í Garðabæ dagana 11.-13. janúar. Í þessum hópi eru tvær stelpur frá Þór/KA, þær Bríet Kolbrún Hinriksdóttir og Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir.

Hópinn má sjá í frétt á vef KSÍ.