Karfan er tóm.
Hafdís Nína Elmarsdóttir skoraði þrennu með U15 landsliðinu í stórsigri á Færeyingum í gær. Bríet Fjóla Bjarnadóttir lagði upp eitt marka Hafdísar. Tveir glæsilegir fulltrúar okkar í U15 landsliðinu.
Ísland mætti Færeyjum í æfingaleik U15 landsliða kvenna í gær og mætast liðin aftur kl. 13 á morgun. Leikirnir fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Fulltrúar okkar í landsliðshópnum, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir, voru báðar í byrjunarliðinu í gær og stóðu vel fyrir sínu.
Hafdís Nína sýndi flotta takta í fyrsta marki Íslands, lék þá á varnarmann og sendi boltann út í teiginn á Köru Guðmundsdóttur sem skoraði. Hafdís Nína skoraði svo sjálf annað markið á 31. mínútu eftir frábæra sendingu Bríetar Fjólu inn fyrir vörn Færeyinga þar sem Hafdís Nína stakk sér fram fyrir vörnina, var á undan markverðinum í boltann og skoraði úr þröngu færi alveg upp við endamörk. Hún skoraði einnig þriðja mark Íslands af stuttu færi eftir hornspyrnu aðeins fjórum mínútum síðar. Staðan 3-0 eftir fyrri hálfleikinn. Hafdís Nína kláraði svo þrennuna strax á upphafsmínútum seinni hálfleiksins, þrjú mörk á um það bil 17-18 leikmínútum, virkilega vel gert.
Ísland - Færeyjar 6-0 (3-0)
Þetta var fyrsti landsleikur þeirra beggja með U16 landsliðinu, en báðar eiga að baki þrjá leiki með U15 landsliði Íslands og í einum þeirra skoraði Hafdís Nína einnig og er því með fjögur mörk í fjórum landsleikjum. Frábærir fulltrúar okkar í þessu U15 landsliði.
Seinni æfingaleikur liðanna fer fram í Miðgarði á morgun, sunnudag, og hefst kl. 13. Hann verður í beinni útsendingu á rás KSÍ í Sjónvarpi Símans, en þar má einnig finna upptöku af leiknum í gær.