Frábær frammistaða og sigur á Blikum

Þór/KA-stelpurnar þakka stuðningsfólkinu fyrir að leik loknum. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson
Þór/KA-stelpurnar þakka stuðningsfólkinu fyrir að leik loknum. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

Þór/KA tyllti sér á topp Bestu deildarinnar með öflugum og verðskulduðum sigri á liði Breiðabliks í gær, 2-0. 

Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra María Jessen skoruðu mörkin í gær þegar við fengum Breiðablik í heimsókn. Leikurinn fór fram í Boganum, færður þangað. Þór/KA fékk ágætis færi til að skora fleiri mörk. Liðið var mjög skipulagt í varnarleik sínum og gaf gestunum ekki mörg færi á sér. Þéttur varnarleikur og mikil barátta, liðsheildin skilaði sigrinum eins og oft áður, lokað á styrkleika gestanna og frábærar skyndisóknir sem skiluðu mörkum og almennt frábær frammistaða og framlag frá öllum í hópnum.

Fyrra markið kom á 28. mínútu. Dæmd rangstaða á Breiðablik. Jakobína Hjörvarsdóttir tók aukaspyrnuna, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir átti skemmtilega hælsendingu til hliðar á Söndru Maríu og hún með frábæra sendingu inn á svæðið hægra megin þar sem Hulda Ósk fór inn í vítateig og þrumaði boltanum í netið. Frábært mark frá fyrstu spyrnu til þeirrar síðustu.

Staðan var 1-0 alveg fram í viðbótartíma leiksins, Blikar sóttu og reyndu að ná jöfnunarmarkinu, en vörnin var þétt. Í einni sókn Blika vann Þór/KA boltann, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir fór upp miðjuna, hélt boltanum af harðfylgi og átti svo flotta stungusendingu inn fyrir vörnina þar sem Sandra María tók boltann, lék inn í teiginn og skoraði framhjá markverði Blika. Sigurinn í höfn.

  • Sandra María hefur skorað í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar, er markahæst í deildinni með fjögur mörk.
  • Hulda Ósk skoraði fyrra mark liðsins og þar með fyrsta mark liðsins í nýjum Macron-búningum. 
  • Leikur liðsins í gær var annar heimaleikur þess í deildinni, á tveimur völlum. Þegar liðið mætir FH í næsta heimaleik verður hann á þriðja vellinum!
  • Mæting á leikinn hefði mátt vera betri, 157 áhorfendur skráðir, en þau sem mættu fá hrós fyrir öflugan stuðning allan leikinn.


Hulda Ósk lætur vaða og augnabliki síðar þandi boltinn netmöskvana. Smellið á myndina til að opna myndasafn úr leiknum. Myndir: Egill Bjarni Friðjónsson. 

Stelpurnar eiga þetta algjörlega frá a til ö

Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari kvaðst gríðarlega ánægður og stoltur með frammistöðuna og sigurinn í leiknum. „Auðvitað eru allir í skýjunum með frábæran sigur á mjög sterku liði sem Breiðablik er, með gríðarlega marga öfluga leikmenn, mikla breidd sem sást bara á skiptingunum því ekki veiktist liðið hjá þeim. Okkar stelpur eiga allt hrós skilið fyrir þennan sigur. Þær gerðu nákvæmlega það sem við vildum gera. Við lokuðum á styrkleika Breiðabliks og stoppuðum spilið þeirra, vorum alltaf í andlitinu á þeim og eyddum alveg ótrúlega mikilli orku í það. Ég held að nánast hver einasta inni á vellinum, eða mjög margar sem voru að spila sinn besta leik sem ég hef séð þær spila. Ungir leikmenn sem brilleruðu og í rauninni bjuggu til þennan stórkostlega sigur. Ég ætla ekki að byrja á að taka einn eða neinn út úr þessu, þetta var liðsheildin sem vann þennan frábæra sigur. Við héldum hreinu, skoruðum tvö frábær mörk, hefðum jafnvel getað skorað fleiri. Stórkostleg frammistaða sem stelpurnar eiga algjörlega frá a til ö. Ég er gríðarlega ánægður og stoltur,“ sagði Jóhann Kristinn eftir leikinn.


Pétur Heiðar Kristjánsson aðstoðarþjálfari vísar veginn. Jóhann Kristinn er hugsi. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Sprettir leiksins

Hulda Ósk Jónsdóttir var að leik loknum, ásatm Taylor Marie Ziemer úr liði Breiðabliks, verðlaunuð með gjafabréfi frá Sprettinum. Stjórn Þórs/KA velur eftir hvern heimaleik einn leikmann úr hvoru liði sem þykir hafa skarað fram úr og það var Hulda Ósk í okkar liði að þessu sinni. „Leikurinn fannst mér spilast mjög vel, baráttan upp á tíu og vorum við mjög skipulagðar til baka allan leikinn,“ sagði Hulda Ósk eftir leikinn þegar við heyrðum í henni. „Við ætlum okkur að halda áfram á þessari braut, undirbúa okkur jafn vel fyrir alla leiki því það eru öll lið virkilega góð,“ sagði Hulda Ósk.

Áhugaverðar fyrirsagnir

Einhverjir fjölmiðla notuðu fyrirsagnirnar í að telja upp hvaða lið töpuðu í gær. Einhver lið hjóta þá að hafa sigrað þó þau fái ekki fyrirsagnirnar. Það er bara eins og það er, en stigin urðu eftir í Boganum, Þór/KA hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjunum í Bestu deildinni og situr nú á toppnum með níu stig - í bili að minnsta kosti því Valur getur tekið toppsætið með sigri á Stjörnunni í kvöld.

Mótið á vef KSÍ.
Leikskýrslan á vef KSÍ.

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Þrótti mánudaginn 22. maí kl. 18.